Hagsjá: Greiðslukortin straujuð sem aldrei fyrr
Samantekt
Seðlabankinn birti nýverið upplýsingar um notkun greiðslukorta í nóvember. Tölurnar bera með sér að mikill vöxtur er í einkaneyslu heimila en alls hefur kortavelta Íslendinga í verslun aukist um tæp 12% á föstu verðlagi fyrstu 11 mánuði ársins frá fyrra ári, þar af um 7% hér innanlands en tæp 37% í verslun við erlenda aðila.
Samsetning veltunnar hefur haldið áfram að þróast innlendri verslun og þjónustu í óhag. Í nóvember var um 18,7% allra greiðslukortaviðskipta Íslendinga beint við erlenda aðila. Þessi viðskipti eru einkum kaup Íslendinga á vörum og þjónustu á ferðalögum erlendis og netverslun við erlenda aðila. Þetta hlutfall hefur hækkað nær stöðugt allt frá árinu 2014. Fyrstu ellefu mánuði ársins var hlutfallið 17,3% en var á sama tíma í fyrra 15,4%. Það sem af er þessu ári hefur ferðalögum Íslendinga út fyrir landssteinana fjölgað um 16% en aukning í erlendum sendingum hjá Íslandspósti nam um 60% fyrstu 11 mánuði ársins. Einkaneysla er í sögulegu hámarki og eykst nú hraðar en kaupmáttur launa en það bendir til þess að hún sé nú í meiri mæli knúin áfram af skuldsetningu og notkun sparifjár en síðustu misseri.