Hagsjá: Enn mikil hækkun fasteignaverðs í stærri bæjum á landsbyggðinni
Samantekt
Sé litið á hækkun fasteignaverðs á einu ári, frá 2. ársfjórðungi 2017 til sama tíma 2018, hefur hún verið mun meiri í þremur af fjórum stærstu bæjum landsins en var á höfuðborgarsvæðinu. Hækkunin var langmest á Akureyri og svo á Akranesi, en minnst í Reykjanesbæ á þessum tíma. Sé litið á íbúatölu nemur íbúafjöldi þessara fjögurra bæja um 42% af íbúafjölda landsbyggðarinnar. Þróun fasteignaverðs í þeim ætti því að hafa veruleg áhrif á þróunina á landsbyggðinni allri.
Sé litið á þróunina frá upphafi ársins 2012 má sjá að hækkunin hefur verið mest á höfuðborgarsvæðinu en Reykjanesbær og hinir bæirnir eru ekki langt undan. Sveiflurnar eru meiri milli fjórðunga í bæjunum fjórum, en þróunin að öðru leiti keimlík. Það vekur athygli hversu hratt verð breyttist í Reykjanesbæ fram á 1. ársfjórðung 2017, en hefur síðan verið nokkuð stöðugt.
Af bæjunum fjórum er fermetraverð hæst á Akureyri og hefur verið mun hærra en annars staðar á öllu tímabilinu frá 2012. Bilið minnkaði undir lok ársins 2017 en hefur síðan aukist aftur. Sé staðan borin saman við höfuðborgarsvæðið, þar sem meðalfermetraverð sérbýlis og fjölbýlis var rúmar 440 þús. kr. á 2. ársfjórðungi 2018, má sjá að verðið á Akureyri er 76% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu. Verðið í hinum bæjunum var aðeins lægra, eða rúmlega 60% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Það gildir bæði um bæina fjóra og höfuðborgarsvæðið að verðhækkanir voru með mesta móti á árinu 2017. Það er einungis Árborg sem upplifði álíka hækkun á öðru ári, en það var 2016. Langmesta hækkunin á einu ári var í Reykjanesbæ á árinu 2017, eða um 37%. Þróunin á höfuðborgarsvæðinu var stöðug upp á við öll þessi ár, eða fram til 2017, þannig að þar hefur ekki verið um álíka sveiflur milli ára og í bæjunum fjórum.
Sé litið á meðalhækkun fasteignaverðs á ári allt tímabilið frá 2012 sést að hún var mest í Reykjanesbæ, tæplega 13% á ári að meðaltali og þar á eftir kemur höfuðborgarsvæðið með um 11% meðalhækkun á ári. Hinir bæirnir koma skammt á eftir en minnsta hækkunin hefur verið á Akureyri, tæplega 9% að meðaltali á ári.
Það er því ljóst, og hefur verið ljóst lengi, að miklar hækkanir fasteignaverðs hafa ekki einskorðast við höfuðborgarsvæðið. Þróunin í stærri bæjum landsins hefur verið með svipuðum hætti, t.d. hefur verð ekki hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 5 árum.
Nú hefur verðþróun á höfuðborgarsvæðinu verið með allt öðrum hætti síðasta árið, eða frá miðju ári 2017. Svo virðist sem sú þróun hafi einungis náð til Reykjanesbæjar af þessum fjórum stærri bæjum. Mjög mikið er byggt af íbúðarhúsnæði í öllum þessum bæjum nú um stundir og það verður því athyglisvert að sjá hvaða áhrif mikið framboð á nýju húsnæði mun hafa á þróun fasteignaverðs.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Enn mikil hækkun fasteignaverðs í stærri bæjum á landsbyggðinni (PDF)