Fjármálaáætlun 2022-2026 – betri tímar framundan en reiknað var með
Ný fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026 fjallar mikið um hagstjórnarlegt hlutverk hins opinbera og það erfiða verkefni sem liggur fyrir um að koma opinberum fjármálum aftur á réttan kjöl, m.a. með því að stöðva skuldasöfnun fyrir árslok 2025 og að opinber fjármál nái aftur að uppfylla tölusett skilyrði viðkomandi laga sem slakað var á í fyrra og eiga að taka aftur gildi árið 2026.
Skilaboðin í fjármálaáætluninni eru aðallega þau að efnahagsbatinn muni ná fótfestu í ár og svo flugi árið 2022 eftir einhverja dýpstu efnahagslægð sem við höfum upplifað. Líftími þessarar áætlunar verður reyndar mjög skammur þar sem kosningar verða í haust og nýrri ríkisstjórn ber þá að leggja fram bæði fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Veruleg útgjaldaaukning hefur orðið til vegna kreppunnar og sagan segir að það geti tekið langan tíma að draga úr þeirri aukningu.
Boðskapur nýrrar fjármálaáætlunar er að aðgerðirnar stjórnvalda hafi skilað árangri og mildað efnahagslegan samdrátt. Fjárlög ársins 2021 voru samþykkt með 326 ma.kr. halla rétt fyrir jól. Samkvæmt fjármálaáætlun er reiknað með neikvæðum heildarjöfnuði ríkissjóðs upp á um 320 ma.kr. í ár þannig að árið 2021 er enn í járnum.
Betri afkoma en reiknað var með á árinu 2020 hefur minnkað þörf á aðgerðum til að draga úr hallanum á afkomu hins opinbera á tímabili áætlunarinnar. Sé litið til ríkissjóðs minnkar þörfin fyrir svokallaðar afkomubætandi ráðstafanir um næstum fjórðung, eða 7 ma.kr. á ári á tímabili áætlunarinnar, úr 37 ma.kr. í 30 ma.kr. Þannig verður afkoma ríkissjóðs 60 ma.kr. betri á árunum 2021–2025 miðað við fyrri áætlun.
Samkvæmt áætluninni mun þróttmeira hagkerfi en flesta grunaði og kraftmikil viðspyrna leiða til þess að skuldir hins opinbera aukist minna en gert var ráð fyrir við gerð síðustu fjármálaáætlunar.
Þessi jákvæða staða birtist sömuleiðis í minni lánsfjárþörf ríkisins. Nú er gert ráð fyrir að hámark skuldsetningar ríkissjóðs verði 53,9% af VLF árið 2025 í stað 60,4% af VLF í síðustu áætlun.
Bjartari horfur um afkomu fela þannig í sér að þörf fyrir afkomubætandi ráðstafanir til að stöðva skuldasöfnun fyrir árslok 2025 er fimmtungi minni en í áætluninni frá því í fyrra.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Fjármálaáætlun 2022-2026 – betri tímar framundan en reiknað var með