Fasteignamarkaður á fleygiferð
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 2,7% milli mars og apríl og 3,3% milli febrúar og mars. Fyrir um mánuði síðan birti Þjóðskrá vísitölu íbúðaverðs fyrir marsmánuð þar sem hækkunin var talin mun minni, eða 1,6% frá fyrri mánuði, sem þótti engu að síður mikil hækkun. Í fyrradag greindi Þjóðskrá svo frá því að villa hefði komið í ljós við yfirferð á tölum og hækkunin í mars hafi í raun verið mun meiri. Slíkar villur geta haft töluverðar afleiðingar í för með sér þar sem almenningur og greiningaraðilar byggja væntingar um stöðu og þróun markaðarins á opinberum gögnum.
Hækkunin milli mánaða í mars er sú mesta sem hefur mælst síðan í maí 2007 og því ekki lengur hægt að fullyrða að hér séu hóflegar hækkanir á ferð. Sérbýli hækkaði um 4,9% milli mánaða í mars og fjölbýli um 2,8%. Áður birtar tölur höfðu gefið til kynna að hækkunin væri um 1,54% milli mánaða á sérbýli og 1,46% á fjölbýli. Það er greinilegt að hækkun á sérbýli hefur verið verulega vanmetin hjá Þjóðskrá, en líkt og Hagfræðideild hefur greint frá, bentu gögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til þess að spenna væri mest á markaði fyrir sérbýli þar sem hlutfallslega fleiri íbúðir voru að seljast þar yfir ásettu verði.
Samkvæmt nýútgefinni þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar er gert ráð fyrir því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækki um 10,5% milli ára í ár. Miðað við hækkunartaktinn undanfarna tvo mánuði kann sú spá að virðast í lægri kantinum en hún gerir ráð fyrir því að Seðlabankinn muni beita stýritækjum sínum til að reyna að slá á þá spennu sem nú virðist ríkja á fasteignamarkaðnum.