Atvinnuleysi minnkaði um 0,1% - minnkunin var öll á höfuðborgarsvæðinu
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í október 4,9% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 5,0% frá því í september. 10.083 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok október og fækkaði um 343 í október og var fækkunin einungis til komin á höfuðborgarsvæðinu.
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar sl. þegar það var 11,6%. Atvinnuleysið hefur því minnkað um 6,7 prósentustig frá því í janúar. Í október 2020 var almennt atvinnuleysi 9% og það hefur því minnkað um 4,1 prósentustig á einu ári.
Atvinnuleysi hefur nú minnkað níu mánuði í röð og hefur lækkunin verið nokkuð hröð síðustu mánuði. Reyndar jókst atvinnuleysi óverulega alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu í október. Atvinnuleysið var einnig í kringum 5% í upphafi árs 2020 og því er staðan orðin svipuð nú og var áður en faraldurinn skall á.
Almennt atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu milli september og október. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu minnkaði um 0,2 prósentustig milli mánaða en jókst um 0,1-0,2 prósentustig á öðrum svæðum. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, og hefur það nú verið undir 10% á Suðurnesjum í þrjá mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó enn yfir 10% í október, var 10,2%.
Atvinnuleysi er lægra meðal kvenna en karla á tveimur svæðum, á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Munurinn var mestur milli kynjanna á Suðurnesjum, 1,7 prósentustig körlum í hag. Þar var 10,2% atvinnuleysi hjá konum og 8,5% hjá körlum. Á Suðurlandi var atvinnuleysið einnig talsvert meira meðal kvenna en karla, eða 3,9% hjá konum en 2,7% hjá körlum.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 141 í október og konum um 204. Hlutfallslegt atvinnuleysi karla og kvenna hefur nú verið það sama í tvo mánuði í röð.
Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum milli september og október 2021. Mest fækkaði í ferðatengdri starfsemi, um 4%-6%. Hlutfallslega fækkaði atvinnulausum mest í upplýsingatækni og útgáfustarfsemi sem og í fjármála- og tryggingastarfsemi eða um rúm 11%. Í flestum öðrum atvinnugreinum var fækkun atvinnulausra mun minni. Í annarri þjónustustarfsemi fjölgaði atvinnulausum lítilsháttar.
Atvinnuleysi síðustu tvo mánuði er komið á sama stað og var í janúar 2020 áður en faraldurinn skall á. Staðan er þó að mörgu leyti öðruvísi og óviss. Góður árangur í baráttunni við atvinnuleysið hefur ekki hvað síst náðst með mikilli notkun ráðningarstyrkja. Miklu máli skiptir að ráðningarsambönd á grundvelli þessara styrkja haldi. Eins og áður skiptir opnun landamæra, og auknir möguleikar í komum erlendra ferðamanna miklu þar sem töluvert er enn í land með að ferðaþjónustan nái sínum fyrri styrk.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Atvinnuleysi minnkaði um 0,1% - minnkunin var öll á höfuðborgarsvæðinu