Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,03% milli mánaða í júlí, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan lækkar því úr 8,9% í 7,6%. Breytingin er mjög nálægt þeirri sem við spáðum. Við höfðum spáð +0,24% milli mánaða (7,9% ársverðbólgu) í verðkönnunarvikunni, en lækkuðum þá spá niður í +0,09% (7,7% ársverðbólgu) í kjölfar birtingar HMS á vísitölu íbúðaverðs sem var mun lægri en við bjuggumst við.
Nánar um helstu undirliði
Að þessu sinni voru það fjórir liðir sem höfðu mestu áhrif: flugfargjöld til útlanda og húsnæði án reiknaðrar húsaleigu voru til hækkunar á vísitölunni, en föt og skór og reiknuð húsaleiga voru til lækkunar.
- Reiknuð húsaleiga lækkaði um 0,7% milli mánaða, en við spáðum því að liðurinn yrði nokkurn veginn óbreyttur milli mánaða. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis lækkaði um 1,3% milli mánaða en við spáðum 0,5% lækkun. Framlag vaxtabreytinga var 0,6 prósentustig til hækkunar og var svipað og við bjuggumst við. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu, sem Hagstofan notar við útreikning á vísitölu neysluverðs, lækkaði nokkuð meira milli mánaða en vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem HMS birtir. Þetta skýrist af verulegum verðlækkunum utan höfuðborgarsvæðisins (-2,8% milli mánaða).
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 13,9% milli mánaða, sem er mun minna en við gerðum ráð fyrir. Það er núna jafn dýrt að fljúga til útlanda og í júlí í fyrra. Þetta er nokkur breyting frá fyrri hluta árs, en á fyrstu fimm mánuðum ársins var um 23% dýrara að fljúga til útlanda en í sömu mánuðum 2022.
- Föt og skór lækka alla jafna milli mánaða í júlí á meðan sumarútsölurnar standa yfir. Fyrir heimsfaraldurinn lækkuðu föt og skór yfirleitt um að minnsta kosti 10% milli mánaða í júlí. Í faraldrinum dró verulega úr áhrifum útsala og lækkunin nam aðeins 3,6% í júlí 2020 og 5% í júlí 2021. Það gæti skýrst af því að Íslendingar keyptu meira af fötum og skóm hér á landi þegar utanlandsferðir voru fátíðar og að vegna hnökra í framleiðslukeðjum höfðu verslanir ekki eins stóran lager til að losa sig við. Í ár virðast sumarútsölur mun nær því sem þær voru fyrir faraldurinn, þótt afslátturinn sé aðeins lægri en við bjuggumst við. Föt og skór lækkuðu um 8,7% á milli mánaða.
- Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði nokkuð óvænt um 1,2%. Skýrist það af því að heitt vatn til húshitunar hækkaði um 3,8% milli mánaða.
Framlag þjónustu og húsnæðis til ársverðbólgu lækkaði milli mánaða
Ársverðbólgan lækkaði um 1,3 prósentustig milli mánaða. Skýrist lækkunin nær eingöngu af því að framlag húsnæðis lækkaði um 0,6 prósentustig og framlag þjónustu lækkaði um 0,5 prósentustig. Bensín var til lækkunar á ársverðbólgunni annan mánuðinn í röð, en neikvætt framlag þess jókst um 0,1 prósentustig. Það var mjög lítil breyting á framlagi innfluttra vara án bensíns og innlendra vara.
Búumst við 7,2% verðbólgu í október
Í ljósi nýjustu gagna lækkum við lítillega verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði. Við gerðum áður ráð fyrir 7,9% verðbólgu í ágúst, 7,9% í september og 7,4% í október. Ný spá hljóðar upp á 7,7% í ágúst, 7,7% í september og 7,2% í október. Breytingin skýrist aðallega af lægri spá um húsnæðisverð næstu mánuði auk þess sem við gerum nú ráð fyrir lægri flugfargjöldum til útlanda en áður.
Þetta er síðasta verðbólgumælingin sem peningastefnunefnd mun hafa fyrir næstu vaxtaákvörðun, en hún verður birt miðvikudaginn 23. ágúst. Þessi tala eykur verulega líkurnar á að nefndin taki minni skref en ella.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.![](https://images.prismic.io/landsbankinn/028a0757-28f9-4183-b615-499104716808_Landsbankinn_Irma_Abstrakt_018.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,140,1168,876&q=50)
![Flutningaskip](https://images.prismic.io/landsbankinn/0726d233-96f0-40e5-b26c-7c51ce7e3b01_Loftmynd-flutningaskip.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,0,1731,1298&q=50)
![Seðlabanki Íslands](https://images.prismic.io/landsbankinn/d633164a-2af2-4a30-90a9-4db379b86373_MBL0019286-Se%C3%B0labanki-1920.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,0,1920,1440&q=50)
![](https://images.prismic.io/landsbankinn/96c19a84-e47e-41e3-8133-eb5657f153f1_MBL0108889-1500.jpg?fit=max&w=3840&rect=15,0,1449,1087&q=50)
![Fasteignir](https://images.prismic.io/landsbankinn/8f42e661-63bb-4c18-b210-26ca43591a8a_MBL0273468.jpg?fit=max&w=3840&rect=440,0,3520,2640&q=50)
![Íbúðahús](https://images.prismic.io/landsbankinn/37c069a8-ee76-4c26-ada4-11b01a404602_laugavegur-ibudahus-1920.jpg?fit=max&w=3840&rect=211,0,1709,1282&q=50)
![Bakarí](https://images.prismic.io/landsbankinn/46b9dd77-41d4-4a15-a1c7-52392da440b5_LB_btb_Y1A8680_01.jpg?fit=max&w=3840&rect=778,207,1337,1003&q=50)
![](https://images.prismic.io/landsbankinn/8d7f2148-fa4c-420b-ab2d-dc14968c47cb_P6220566+HIGHRES+1920px.jpg?fit=max&w=3840&rect=107,0,1707,1280&q=50)
![](https://images.prismic.io/landsbankinn/ZzX9u68jQArT04BR_lb-nandin-posi-0574.jpg?fit=max&w=3840&rect=549,717,3413,2560&q=50)
![Pund, Dalur og Evra](https://images.prismic.io/landsbankinn/035d08fc-49cc-4b29-83b6-7b46761ddd88_Dollari-Evra-Pund-1920.jpg?fit=max&w=3840&rect=495,0,1425,1069&q=50)