Áfram dregur úr kortaveltu á milli ára
Alls nam greiðslukortavelta heimila 102 mö.kr. í nóvember og var 2,0% minni en í nóvember í fyrra, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 2,7% að raunvirði í nóvember en erlendis jókst hún um 0,7%. Heildarkortavelta Íslendinga (innanlands og erlendis) hefur nú dregist saman átta mánuði í röð og níu mánuði í röð hefur kortavelta Íslendinga innanlands minnkað á milli ára.
Dregur úr eftirspurn í hagkerfinu – kortaveltan ágæt vísbending
Verulega hefur hægt á innlendri eftirspurn á árinu og þróun kortaveltu landsmanna hefur gefið ágætis vísbendingar um það. Kortavelta á fyrsta fjórðungi þessa árs var kröftugri en við höfðum búist við og heildarkortavelta jókst í janúar, febrúar og mars. Launahækkanir kynntu undir eftirspurn og einkaneysla jókst um tæp 5% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Á öðrum ársfjórðungi fóru að berast skýrar vísbendingar um að hægt hefði á einkaneyslu, kortavelta fór að dragast saman milli ára og þjóðhagsreikningar sýndu að einkaneysla hefði aðeins aukist um 1,0% milli ára. Vextir héldu áfram að hækka fram á haust og fóru upp í 9,25% í lok ágúst. Á þriðja ársfjórðungi urðu þau tíðindi að innlend eftirspurn dróst saman á milli ára, bæði einkaneysla (um 1,7%) og fjármunamyndun (um 4,3%). Hagvöxtur mældist 1,1% og skýrðist að langmestu leyti af samdrætti í innflutningi, vegna minni einkaneyslu og minni fjárfestingar. Það er því ekki ólíklegt að á fjórða ársfjórðungi haldi áfram að draga úr eftirspurn, í takt við samdrátt í kortaveltu milli ára.
Hlutfall innanlands og erlendis stöðugt
80% af kortaveltu heimila í nóvember var á Íslandi og 20% erlendis, sem er svipað og verið hefur á síðustu mánuðum. Hlutfallið erlendis er þó áfram nokkuð hærra en venjan var fyrir faraldur. Í ágúst var framlag kortaveltu innanlands til lækkunar (-2,2%) á heildarkortaveltunni og framlagið erlendis til hækkunar (+0,1%), en þannig hefur það gjarnan verið eftir faraldurinn.
Ferðum Íslendinga til útlanda fjölgaði um 23% í nóvember samanborið við sama mánuð í fyrra. Kortavelta Íslendinga erlendis jókst þó aðeins um 0,7% og Íslendingar á faraldsfæti eru því ekki jafn eyðsluglaðir og í fyrra.
Og þá varð halli
Eftir sex mánuði af afgangi af kortaveltujöfnuði mældist loks halli í nóvember, upp á 6,8 ma.kr. Alla jafna er afgangur af kortaveltujöfnuði á sumrin, á háannatíma ferðaþjónustunnar, en halli yfir vetrarmánuði. Í nóvember í fyrra nam hallinn 7,2 mö.kr. og þá hafði einnig mælst halli í október. Halli af kortaveltujöfnuði þýðir að Íslendingar (heimili og fyrirtæki) eyði meiri pening erlendis en erlendir ferðamenn eyða hér á landi.