Tveir nemendur hlutu styrk úr Hvatasjóði HR og Landsbankans
Þeir Kacper Skóra og Guilherma Baía Roque hlutu styrki úr Hvatasjóði Háskólans í Reykjavík og Landsbankans 2024.
Sjóðurinn var settur á laggirnar árið 2023. Markmið hans er að jafna aðgengi að námi við HR með því að styrkja nemendur sem eiga sér annað móðurmál en íslensku til grunnnáms við háskólann. Styrkhafar þurfa ekki að greiða skólagjöld HR fyrsta skólaárið og er styrkurinn greiddur af Landsbankanum.
Kacper Skóra stundar B.Sc.-nám í viðskiptafræði og Guilherma Baía Roque stundar B.Sc.-nám í tölvunarfræði, með viðskiptafræði sem aukagrein.
„Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þennan styrk. Ég get einbeitt mér betur að náminu án þess að hafa áhyggjur af fjármálum. Styrkurinn veitir mér aukna hvatninu til að ná markmiðum mínum og til að ná enn betri árangri í námi,“ segir Kacper.
„Þessi styrkur breytir tíma mínum hér í HR. Ég get núna einbeitt mér algjörlega að náminu og nýtt mér öll þau tækifæri sem HR býður upp á,“ segir Guilherme.
Menntun fyrir alla
Við stofnun Hvatasjóðsins voru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna höfð að leiðarljósi og þá sérstaklega fjórða markmiðið: „Menntun fyrir öll – tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi“.
Öll þau sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa eða eru að útskrifast úr framhaldsskóla geta sótt um styrkinn. Að minnsta kosti tveir nemendur fá styrk hverju sinni. Við val á styrkhöfum er tekið mið af námsárangri, fjölbreytileika og þátttöku nemenda á öðrum sviðum, t.d. íþróttum, tómstundastarfi og sjálfboðavinnu. Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn að vori.
Frá vinstri: Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsforseti samfélagssviðs HR, Kacper Skóra, Guilherma Baía Roque, Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Landsbankans og Klara Steinarsdóttir, deildarstjóri Fræðslu og þróunar hjá bankanum.