Landsbankinn tekur þátt í rannsókn CBS á ólíkum ákvörðunum kynjanna í fjármálum
Landsbankinn mun taka þátt í rannsóknarverkefni fjármáladeildar Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn (CBS) sem miðar að því að kanna hvers vegna karlar og konur taka ólíkar ákvarðanir í fjármálum. Arna Olafsson, dósent við CBS, stýrir rannsókninni.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Við erum spennt yfir því að taka þátt í þessari rannsókn enda er mikilvægt fyrir okkur að þekkja og skilja ákvarðanir viðskiptavina okkar eins vel og unnt er. Lengi hefur verið bent á að ákvarðanir kynjanna í fjármálum eru ólíkar og að konur hafa að jafnaði verið áhættufælnari en karlar sem getur leitt til þess að ávinningur kvenna af sparnaði og fjárfestingum er minni. Með því að taka þátt í þessari rannsókn viljum við stuðla að meiri þekkingu á því hvers vegna kynin nálgast fjármál með ólíkum hætti. Sú þekking mun bæði nýtast bankanum til að veita betri þjónustu og vonandi leiða til þess að draga úr þeim mun sem er á ákvörðunum og ávinningi kynjanna af fjárfestingum.“
Arna Olafsson, dósent við CBS, segir:
„Fjármálaákvarðanir hafa áhrif á okkur á öllum æviskeiðum og því er bæði aðkallandi og mikilvægt að skoða hvað það er sem veldur því að kynin taka mismunandi ákvarðanir um fjármál. Eldri rannsóknir um kynjamismuninn í fjármálum hafa skoðað afmarkaða þætti eingöngu sem torveldar mat á því hvort einstakir þættir útskýri muninn eða hvort um undirliggjandi, truflandi breytur sé að ræða. Sem dæmi má nefna að núverandi rannsóknir gefa til kynna að mæðrahlutverkið útskýri að miklu leyti mismunandi árangur kynjanna í atvinnulífinu, frekar en bara kyn. En það hefur ekki verið skoðað hvernig foreldrahlutverkið hefur áhrif á fjármálaákvarðanir. Einnig hefur verið sýnt fram á að kynin hegði sér á ólíkan hátt á mismunandi sviðum sem spila inn í fjármálaákvarðanir og að fjármálaákvarðanir kynjanna séu ólíkar en það hefur engu að síður reynst erfitt að greina orsakasamhengi þar á milli.“
Rannsóknin hefur hlotið styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu (ERC). Til að finna skýringar á ólíkum ákvörðunum kynjanna, verður byggt á spurningakönnunum og ópersónugreinanlegum gögnum frá Landsbankanum. Rannsóknin mun hefjast árið 2025.