Öflugra netspjall á landsbankinn.is
Netspjallið á vef Landsbankans er nú orðið enn öflugra eftir að við tókum í notkun nýtt spjallmenni sem getur svarað einföldum en samt mjög fjölbreyttum, fyrirspurnum um bankaþjónustu og fjármál og leiðbeint viðskiptavinum í notkun sjálfsafgreiðslulausna.
Spjallmennið bætir sífellt við þekkingu sína og svör en starfsfólk bankans fylgist líka vel með hvernig því gengur og aðlagar svörin eftir þörfum. Spjallmennið hefur hlotið nafnið Ellí sem vísar í sögu og sterkar rætur bankans sem áður hét Landsbanki Íslands, eða LÍ = ell-í.
Ellí er á vaktinni allan sólarhringinn og tekur á móti viðskiptavinum í netspjallinu. Ef hún hefur ekki svör á reiðum höndum vísar hún viðskiptavinum á ráðgjafa. Það er líka einfalt að afþakka aðstoð Ellíar og biðja um beint samband strax. Utan opnunartíma geta viðskiptavinir beðið Ellí að koma skilaboðum áleiðis til starfsfólks sem skoðar málið þegar þau mæta til vinnu. Ellí talar íslensku en stefnt er að því að hún muni líka geta svarað fyrirspurnum á ensku innan skamms.
Ellí fer vel af stað en frá því hún var sett í loftið hefur hún leyst úr rúmlega helmingi þeirra erinda sem berast í gegnum netspjallið á afgreiðslutíma bankans. Þegar Ellí gefur viðskiptavinum samband við ráðgjafa er það helst starfsfólk í Reykjastræti sem svarar en einnig starfsfólk á Akureyri, Ólafsvík og víðar um land. Ráðgjafar bankans standa vaktina með Ellí frá kl. 9-16, alla virka daga.