Sea Growth er sigurvegari Gulleggsins 2024
Sara Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Samskipta og menningar hjá Landsbankanum, afhenti sigurvegurunum eina milljón króna í verðlaun. Teymið fékk líka verðlaunagrip sem er sérstaklega hannaður er af Kamillu Henriau fyrir Gulleggið 2024.
Í öðru sæti varð FairGame, hugbúnaður sem Jóhannes Ólafur Jóhannesson og Jón Levy Guðmundsson hafa þróað til að halda utan um íþróttamót barna. Þeir nota gervigreind til að para saman lið eftir styrkleika og tryggja að upplifun barna sé í fyrsta sæti.
Í þriðja sæti lenti Thorexa, lið Þórs Tómasarsonar, Indriða Thoroddsen, Bjarna Þórs Gíslasonar og Írisar Lífar Stefánsdóttur. Thorexa notar skriflegt efni frá einstaklingum til að líka eftir ritstíl þeirra og getur m.a. svarað tölvupóstum fyrir hönd starfsfólks í fríi.
Dómnefnd skipuð átján fulltrúun frá bakhjörlum Gulleggsins valdi verðlaunateymin. Einnig voru veitt verðlaun fyrir vinsælustu hugmyndina og gat almenningur greitt atkvæði á vefsíðu Gulleggsins. Fyrir valinu varð teymið Flöff – textílvinnsla sem þróar nýja aðferð við að endurnýta ónothæfan textíl innanlands.
Á Vef Gulleggsins má lesa nánar um verðlaunahugmyndirnar og þær tíu stigahæstu í keppninni.
Klak - Icelandic Startups hefur staðið að keppninni árlega allt frá árinu 2008 en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. Fjölmörg verkefni sem tekið hafa þátt í gegnum tíðina hafa notið mikillar velgengni, m.a. Controlant, Meniga, PayAnalytics og Genki.
Alls bárust 67 hugmyndir í keppnina að þessu sinni og sóttu þátttakendur vinnusmiðjur, námskeið og fengu þjálfun í mótun viðskiptahugmynda. Efstu 10 teymunum var einnig boðið að kynna hugmyndirnar sínar fyrir starfsfólki Landsbankans, í svokallaðri „lyftukynningu“, þar sem hvert teymi hafði einungis 2 mínútur til að koma hugmyndinni sinni á framfæri. Landsbankinn hefur verið einn helsti bakhjarl Gulleggsins frá upphafi.