Vel heppnað Fjármálamót á pólsku
Fjármálamót er heitið á fræðslufundaröð Landsbankans og í gær, miðvikudaginn 29. nóvember 2023, héldum við slíkan fund í fyrsta sinn á pólsku fyrir pólskumælandi viðskiptavini. Fundurinn tókst afar vel, var vel sóttur og fundargestir spurðu mikið, ekki síst um íbúðalán, mismunandi kreditkort og viðbótarlífeyrissparnað.
Á fundinum fjallaði Klaudia Karína Stefanska, þjónustufulltrúi í útibúi Landsbankans í Grafarholti, meðal annars um um möguleika í sparnaði, lífeyrismálum og mismunandi kosti í íbúðalánum. Agnieszka Marzok, sérfræðingur í alþjóðlegri greiðslumiðlun hjá Landsbankanum, fjallaði um aukna hættu á netsvikum og hvernig best er að verjast þeim.
Klaudia veitti tvö viðtöl um efni fundarins, annars vegar á íslensku og hins vegar á pólsku.
Fundurinn var haldinn í salarkynnum Leiknis, Austurbergi 1 í Reykjavík.