Hönnun Reykjastrætis 6 er frábær samkvæmt BREEAM-staðli
Hönnun nýs húsnæðis Landsbankans við Reykjastræti 6 í Reykjavík hefur hlotið frábæra einkunn (e. excellent) samkvæmt alþjóðlega BREEAM-umhverfisstaðlinum. Lokavottun mun fara fram þegar byggingu og frágangi verður að fullu lokið.
Við vistvæna hönnun og vottun bygginga samkvæmt BREEAM-vottunarkerfinu er lagt mat á ýmsa þætti, s.s. umhverfis- og öryggisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góða innivist sem m.a. tekur til hljóðvistar, loftgæða og lýsingar, góða orkunýtni og lágmörkun á ýmis konar mengun frá byggingunni. Stefnt er að því að allt húsið hljóti frábæra einkunn samkvæmt BREAAM-vottunarkerfinu.
Reykjastræti 6 er fyrsta byggingin á Íslandi sem hefur fengið hönnunarvottun samkvæmt nýjum BREAAM-staðli sem tók gildi árið 2016.
Síðastliðinn vetur samdi Landsbankinn við Norræna fjárfestingabankann (NIB) um lán til 15 ára að fjárhæð 40 milljónir Bandaríkjadala í tengslum við nýbyggingu bankans í Reykjastræti og féll lánveitingin undir fjármögnunarramma tengdum umhverfisskuldabréfum NIB.