Hönnunarmars í Landsbankanum – viðburðir og heimsóknir til hönnuða
Landsbankinn er styrktaraðili Hönnunarmars og tekur þátt í hátíðinni með ýmsum hætti. Við stöndum fyrir viðburðum í nýju húsi bankans við Reykjastræti og í aðdraganda hátíðarinnar heimsóttum við átta hönnuði til að fá innsýn í verkefnin sem þau eru að vinna að.
Myndbönd af heimsóknum okkar til hönnuða munu birtast eitt af öðru á Youtube-rás bankans næstu daga. Það er gífurleg gróska og mikið um að vera í hönnunarsamfélaginu á Íslandi en Hönnunarmars er eitt helsta kynningarverkefni íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.
Í bankanum verða þrír viðburðir sem tengjast Hönnunamars.
Fjárfestum í hönnun – Örerindi og pallborðsumræður um fjármögnun
Hér sköpum við vettvang til að fjalla um tækifærin sem felast í að fjárfesta í hönnun og mikilvægi þess. Hvers vegna á að fjárfesta í hönnun og hvaða leiðir hafa hönnuðir til að sækja sér fjármagn? Reynslumiklir einstaklingar úr heimi hönnunar og fjárfestinga deila sinni sýn, svara spurningum og taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga viðfangsefni. Fram koma m.a. Anders Färdig, framkvæmdastjóri Design House Stockholm, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop, Helga Valfells, Crowberry Capital, Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Pikkoló og Sigurður Þorsteinsson, aðalhönnuður hjá Design Group Italia. Fundarstjóri er Snorri Másson, fjölmiðlamaður.
Tímasetning: Fimmtudagur 4. maí frá kl. 16.30-18.30
Athugið að viðburðurinn fer fram á ensku.
Skráning á fjárfestum í hönnun
Byggt til framtíðar - Hönnun og hugmyndafræði í nýju húsi Landsbankans
Nýju húsi Landsbankans við Reykjastræti er ætlað að efla mannlíf og stuðla að aukinni samvinnu. Húsið er mikilvægur hluti af nýju hverfi sem risið hefur við Hörpu í miðborg Reykjavíkur. Fjallað verður um þau metnaðarfullu markmið um nútímalegt vinnuumhverfi, sjálfbærni, birtu, flæði og hlutverk í nærumhverfi sem miðað var við á öllum stigum hönnunar og við byggingu hússins. Fyrirlesarar eru Halldóra Vífilsdóttir, framkvæmdastjóri Nordic Office of Architecture og verkefnastjóri nýbyggingar Landsbankans, Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt hjá Nordic Office of Architecture og Jonas Toft Lehman, arkitekt hjá C.F. Møller.
Tímasetning: Föstudagur 5. maí frá kl. 16.30-18.30
Athugið að viðburðurinn fer fram á ensku. Að fyrirlestrunum loknum verður gestum boðið í göngu um húsið.
Skráning fór fram á vef Hönnunarmars og er fullbókað á þennan viðburð.
Bankinn flytur - Leiðsögn um Reykjastræti 6
Flutningar í nýtt húsnæði Landsbankans við Reykjastræti 6 hófust í lok mars 2023. Í sumar mun bankinn yfirgefa Austurstræti 11 þar sem hann hefur verið samfellt í 99 ár en saga bankans í Austurstræti nær allt til ársins 1898.
Laugardaginn 6. maí verður boðið upp á göngur um húsið undir leiðsögn Halldóru Vífilsdóttur, arkitekts sem var verkefnastjóri nýbyggingarinnar. Allir eru velkomnir en þátttaka er takmörkuð við 30 manns í hverja göngu.
Tímasetning: Laugardagur 6. maí. Alls er um fjórar göngur að ræða.