Félagar Blindrafélagsins áhugasamir um netöryggi
Líflegar umræður spunnust á vel sóttum fundi sem Landsbankinn hélt með Blindrafélaginu – samtökum blindra og sjónskertra á miðvikudaginn um netöryggismál annars vegar og aðgengismál í sjálfsafgreiðslulausnum hins vegar.
Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Regluvörslu, ræddi hvernig rata má um frumskóginn sem netið getur verið og Markús Már Þorgeirsson, hópstjóri hjá Vefdeild, fór yfir aðgengi að appinu og vef bankans.
Mikill áhugi var á netsvikamálum og ljóst að tíðar fréttir af netsvikamálum eru fólki ofarlega í huga. Fjölmargar spurningar um hvað er öruggt og hvað ekki bárust frá fundargestum og velti fólk m.a. fyrir sér hvar milliveginn væri að finna á milli öryggis í netverslun og lífsgæðanna við að versla á netinu með einföldum hætti.
Þá fór Markús yfir aðkomu sérfræðinga frá Blindrafélaginu að þróun á sjálfsafgreiðslulausnum bankans og veflausnum. Gagnlegar ábendingar komu frá félögum Blindrafélagsins um innskráningarmöguleika og Markús og Snæbjörn Konráðsson, forstöðumaður Vefdeildar, aðstoðuðu nokkra gesti við að virkja fingrafaralausnir.
Landsbankinn þakkar Blindrafélaginu fyrir boð á fundinn og félögum þess fyrir frábærar umræður og gagnlegar ábendingar.