Við erum efst banka í Ánægjuvoginni fjórða árið í röð
Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni 2022 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu. Þetta er fjórða árið í röð sem bankinn fær þessa viðurkenningu.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Stefna Landsbankans snýst fyrst og fremst um þjónustu við viðskiptavini og að við séum traustur og kraftmikill banki sem er virkur þátttakandi í samfélaginu. Við bjóðum hagstæð kjör, öfluga ráðgjöf og fræðslu og finnum farsælar lausnir fyrir okkar viðskiptavini til framtíðar. Við lítum á þessa viðurkenningu sem einn af mikilvægustu mælikvörðunum á árangur okkar. Að vera efst banka í Ánægjuvoginni fjórða árið í röð er því risastór sigur í okkar augum og staðfestir að við erum á réttri leið með að gera þjónustuna einfaldari, þægilegri og betri.
Upplifun viðskiptavina á þjónustunni byggir að sjálfsögðu á ótal mismunandi þáttum. Í langflestum tilvikum nota viðskiptavinir appið og netbankann til að sinna sínum fjármálum og áhersla okkar á að gera þessa stafrænu þjónustu sífellt betri á ríkan þátt í aukinni ánægju viðskiptavina. Sérstaða bankans felst einnig í því að þegar á þarf að halda geta viðskiptavinir fengið framúrskarandi persónulega ráðgjöf og þjónustu hjá okkar öfluga þjónustuveri eða í útibúum og afgreiðslum um allt land.
Það segir líka sína sögu að undanfarin ár hefur markaðshlutdeild bankans sífellt aukist, bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja. Nú í desember mældist hlutdeild á einstaklingsmarkaði yfir 40% og hefur aldrei mælst hærri.
Lausnir og þjónusta bankans byggja á frábæru starfsfólki sem elskar árangur og að stuðla að árangri viðskiptavina. Það leggur mikið á sig til að takast á við nýjar áskoranir og örar breytingar og heldur Landsbankanum í flokki fremstu fyrirtækja landsins. Fyrir það er ég virkilega þakklát og stolt. Ég er fullviss um að við munum halda áfram að bæta okkur.“
Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Stjórnvísi og er framkvæmd í höndum Prósents. Ánægjuvogin mælir árlega upplifun viðskiptavina af fyrirtækjum, ánægju þeirra, væntingar og reynslu.