Varist svik í gegnum samfélagsmiðla
Meðal aðferða sem netsvikarar beita er að taka yfir aðgang einstaklinga að Facebook, Messenger eða Instagram og senda síðan skilaboð í þeirra nafni þar sem beðið er um greiðslukortaupplýsingar, auðkennisnúmer og fleira sem hægt er að nota til að svíkja út fé.
Dæmi eru um slík svik hér á landi sem t.d. fara svona fram: Þegar svikararnir hafa tekið yfir Facebook-, Messenger- eða Instagramaðgang senda þeir skilaboð til fólks á vinalista viðkomandi. Í skilaboðunum mæla svikararnir með netleik en að „vinurinn" þurfi að senda þeim símanúmerið sitt. Síðan koma skilaboð um að ef „vinurinn“ fái SMS með kóða þurfi hann einnig að senda kóðann. Svikararnir biðja svo einnig um debetkortaupplýsingar, kreditkortanúmer, gildistíma og öryggisnúmer til að hægt sé að taka þátt og greiða út vinninga.
Ef þú gefur þeim upp kortaupplýsingarnar og síðan einnig kóðann sem kemur með SMS, eru svikararnir komnir með nægar upplýsingar til að nota kortið þitt til að svíkja út fé, jafnvel fullnýta heimildina á kortinu. Mjög ólíklegt er að það takist að endurheimta peningana og því getur þú setið uppi með tjónið.
Við minnum þess vegna á að þú átt aldrei að gefa upp greiðslukortanúmer, innskráningarupplýsingar í netbanka eða auðkennisnúmer sem þú færð send í SMS á samfélagsmiðlum, SMS-um eða í tölvupósti. Ef vinur þinn á samfélagsmiðlum biður um slíkar upplýsingar er næstum öruggt að um svikatilraun er að ræða.
Við hvetjum þig til að kynna þér netöryggismál á landsbankinn.is/netoryggi.