TVÍK fékk Gulleggið 2022
Viðskiptahugmyndin TVÍK sigraði í Gullegginu 2022, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. TVÍK, eða tæknivæddi íslenskukennarinn, er gagnvirkur kennsluvettvangur sem styðst við nýjustu máltækniaðferðir til að hjálpa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að læra íslensku. Teymið skipa þau Atli Jasonarson, Gamithra Marga og Safa Jemai.
Í öðru sæti var SEIFER sem vinnur að því að hanna og þróa íþróttabúnað, ásamt gagnagrunni sem nýttur er í rauntímamælingar og gagnasöfnun varðandi höfuðhögg. Með gagnasöfnun búnaðarins er hægt að endurbæta bataferli og viðbragðsáætlanir vegna heilahristings í íþróttum. Í SEIFER-teyminu eru þau Guðrún Inga Marinósdóttir, Davíð Andersson og Bjarki Snorrason.
Í þriðja sæti var Lilja app, bjargráður þolenda til bættrar lagalegrar og félagslegrar stöðu. Ingunn Henriksen og Árdís Rut Einarsdóttir mynda teymið á bak við appið.
Vetur Production var kosið vinsælasta teymið á vefsíðu Gulleggsins. Frumkvöðlarnir á bak við hugmyndina eru þær Hanna Dís Hallgrímsdóttir, Ingibjörg Hrefna Pétursdóttir, Máney Eva Einarsdóttir, Sandra Ósk Júníusdóttir og Stella Björk Guðmundsdóttir.
Á vef Gulleggsins má lesa nánar um verðlaunahugmyndirnar og þær tíu stigahæstu í keppninni.
Um Gulleggið
Icelandic Startups stendur árlega fyrir Gullegginu en keppnin er stökkpallur fyrir frumkvöðla á öllum sviðum sem vilja koma hugmynd sinni í framkvæmd. Rúmlega 150 hugmyndir bárust í keppnina að þessu sinni og hafa þátttakendur sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda undanfarna mánuði.
Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 og hafa fjölmörg starfandi fyrirtæki stigið sín fyrstu skref í keppninni. Þar má m.a. nefna Meniga, Controlant, Clara, Karolina Fund, Pay Analytics, Genki, Videntifier, Solid Clouds o.fl. Landsbankinn hefur verið einn helsti bakhjarl Gulleggsins frá upphafi.