Við vörum við fölskum SMS-skilaboðum
Í fölsku skilaboðunum (sem eru á ensku) eru viðtakendur beðnir um að staðfesta upplýsingar, s.s. um farsímanúmer, greiðslur eða annað slíkt. Með skilaboðunum fylgir hlekkur sem vísar á falska vefsíðu. Dæmi um slíka svikahlekki eru landsbankin.com/?ssl=true og lands-bankin-online.com?ssl=true. Ef fólk slær inn notendanafn og lykilorð á fölsku síðunni geta svikararnir nýtt sér það til að svíkja út fé.
Opnaðu alltaf netbanka og app eftir venjulegum leiðum
Landsbankinn sendir aldrei SMS-skilaboð eða tölvupóst með hlekk yfir á innskráningarsíðu netbankans/appsins. Til að fara inn í netbankann eða appið skaltu fara inn á vef bankans eða opna appið eftir venjulegum leiðum og skrá þig inn þar – en alls ekki smella á hlekki sem þú færð í skilaboðum.
Ef þú hefur opnað hlekk sem þú hefur fengið í SMSi og skráð þig inn á falska síðu er mikilvægt að þú bregðist strax við.
- Skráðu þig inn með venjulegum hætti, í appinu eða með því að fara á vef bankans og skrá þig inn í netbankann, og breyttu lykilorðinu þínu.
- Hafðu samband við okkur, með því að hringja í s. 410 4000, senda okkur póst á landsbankinn@landsbankinn.is eða í gegnum netspjallið.
- Ef þú sérð grunsamleg skilaboð sem eru látin líta út eins og þau séu frá okkur eða öðru fyrirtæki, láttu þá okkur eða viðkomandi fyrirtæki vita. Þá er hægt að bregðast við svikunum.
Hvernig á að þekkja fölsuð skilaboð?
Svikatilraunir af þessu tagi hafa aukist mjög á öðrum Norðurlöndum og búast má við að þær muni einnig aukast hér á landi. Netsvikarar breyta aðferðum sínum í sífellu og því er mikilvægt að vera vel á verði. Við höfum birt mikið af fræðsluefni um netöryggi. Við minnum sérstaklega á fræðslugrein á vefnum okkar um hvernig hægt er að þekkja muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum.