Landsbankinn breytir vöxtum
Frá því að Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli hefur Landsbankinn verið í forystu um að lækka útlánsvexti, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Samhliða hefur eftirspurn eftir íbúðalánum bankans aukist verulega enda eru kjörin sem bankinn býður mjög samkeppnishæf. Landsbankinn fjármagnar íbúðalán meðal annars með útgáfu sértryggðra skuldabréfa með föstum vöxtum sem boðin eru út á skuldabréfamarkaði. Vaxtabreytinguna nú má fyrst og fremst rekja til þess að ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa hefur hækkað umtalsvert frá síðustu vaxtabreytingu.
Fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir vextir óverðtryggðra íbúðalána til 60 mánaða hækka um 0,20 prósentustig. Fastir vextir til 36 mánaða vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,15 prósentustig. Aðrir útlánsvextir eru óbreyttir.
Fastir innlánsvextir til 36 mánaða hækka um 0,15 prósentustig og fastir innlánsvextir til 60 mánaða hækka um 0,20 prósentustig. Þá verða breytingar á innlánsvöxtum gjaldeyrisreikninga í sterlingspundum, Kanadadal og norskri krónu.