Landsbankinn og Seðlabankinn skrifa undir samning um veitingu viðbótarlána
Landsbankinn og Seðlabanki Íslands hafa skrifað undir samning um veitingu viðbótarlána sem fyrirtæki, sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs Covid-19, geta fengið að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Tilgangurinn með viðbótarlánum (brúarlánum) er að liðka fyrir aðgang fyrirtækja að lausafé, einkum smárra og meðalstórra fyrirtækja, sem standa frammi fyrir tímabundnum rekstrarvanda vegna Covid-19. Þannig verði dregið úr áhrifum faraldursins á atvinnulíf og atvinnustig. Ríkisábyrgðin getur numið allt að 70% af höfuðstóli lánanna.
Frekari upplýsingar um viðbótarlánin ásamt leiðbeiningum fyrir fyrirtæki verða birtar á vef bankans innan skamms.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Landsbankinn hefur frá upphafi faraldursins lagt áherslu á að koma til móts við og aðstoða fyrirtæki sem hafa lent í ófyrirséðum vanda vegna faraldursins. Með samningnum við Seðlabankann um veitingu viðbótarlána geta fyrirtæki sem uppfylla skilyrðin fengið enn frekari aðstoð sem getur reynst mikilvæg við þessar erfiðu aðstæður.“