Samkomulag um tímabundna greiðslufresti fyrirtækja
Í samræmi við samkomulag fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, sem er hluti af viðbrögðum við efnahagslegum áhrifum Covid-19, geta fyrirtæki nú sótt um að fresta greiðslum af lánum í allt að sex mánuði. Umsóknina þarf að senda til aðalviðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Fleiri úrræði fyrir fyrirtæki hafa þegar verið kynnt eða eru í burðarliðnum.
Aðilar samkomulagsins eru Landsbankinn, Arion banki, Íslandsbanki, Kvika, Lykill, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir.
Samkomulaginu er ætlað að greiða fyrir hraðri og samræmdri úrlausn mála og stuðla að jafnræði, bæði á milli lánveitenda og fyrirtækja. Samkomulagið gildir til loka júní 2020 og er gert ráð fyrir að hægt sé að framlengja það ef aðstæður krefjast. Samkomulagið felur m.a. eftirfarandi í sér:
- Fyrirtæki getur sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánaða hjá sínum aðalviðskiptabanka eða sparisjóði sem leggur mat á hvort fyrirtæki uppfylli viðmið samkomulagsins.
- Samkomulagið nær til rekstrarfyrirtækja en ekki til eignarhaldsfélaga.
- Rekstur fyrirtækja sem falla undir viðmið samkomulagsins þarf að hafa verið heilbrigður en orðið fyrir tímabundnu tekjufalli sem leiðir til rekstrarvanda, fyrirtækið skal ekki hafa verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febrúar 2020 og hafa nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.
Fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Landsbankann bjóðast ýmis úrræði vegna áhrifa sem þau verða fyrir af Covid-19. Við hvetjum viðskiptavini sem sjá fram á greiðsluerfiðleika til að hafa samband við bankann sem fyrst til að fá lausnir og ráðgjöf við hæfi.
Fyrirtækjum er bent á að hafa samband við sinn tengilið, hringja í Þjónustuver fyrirtækja í s. 410 5000 eða senda tölvupóst á netfangið fyrirtaeki@landsbankinn.is.