Tímabundnar breytingar á þjónustu
Landsbankinn hefur ákveðið að gera tímabundnar breytingar á afgreiðslutíma í hluta af útibúum bankans á landsbyggðinni. Þá verður Vesturbæjarútibúi í Reykjavík lokað tímabundið en hraðbankar í útibúinu verða áfram aðgengilegir allan sólarhringinn.
Breytingarnar taka gildi að morgni 18. mars 2020. Afgreiðslutími er styttur í útibúum bankans á eftirfarandi stöðum og verða þau opin frá kl. 10-15 í stað 9-16.
- Akranes
- Snæfellsnes
- Ísafjörður
- Sauðárkrókur
- Akureyri
- Dalvík
- Húsavík
- Egilsstaðir
- Reyðarfjörður
- Höfn í Hornafirði
- Selfoss
- Hvolsvöllur
- Vestmannaeyjar
- Grindavík
- Reykjanesbær
Afgreiðslutími í útibúum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan Vesturbæjarútibú sem lokar tímabundið, er óbreyttur.
Þar sem afgreiðslutími er styttur mun starfsfólk vinna á tveimur vöktum og getur þjónusta því tekið lengri tíma en venjulega. Tilgangurinn með þessum breytingum er að draga úr líkum á að útbreiðsla Covid-19 hafi veruleg áhrif á þjónustu við viðskiptavini og tryggja samfellu í rekstri bankans. Með lokun Vesturbæjarútibús gefst meiri tími til að svara erindum sem berast með tölvupósti, í netspjalli og síma en slíkum erindum hefur fjölgað mikið að undanförnu.
Nota stafræna þjónustu ef kostur er
Vegna útbreiðslu Covid-19 biðjum við viðskiptavini vinsamlegast um að nýta sér stafræna þjónustu bankans ef þess er kostur, fremur en að koma í útibú. Í flestum tilvikum er engin þörf á að fara í útibú til að fá bankaþjónustu því hægt er að framkvæma helstu aðgerðir og fá ýmis konar þjónustu með síma og tölvu að vopni.
Hægt er að fá samband við þjónustufulltrúa í Þjónustuveri með því að hringja í síma 410 4000, senda póst í netfangið landsbankinn@landsbankinn.is eða hefja netspall á vef bankans.
Á Umræðunni er á aðgengilegan hátt fjallað um hvernig stunda má heimsóknar- og snertilaus bankaviðskipti.
Umræðan: Nýttu þér bankaþjónustu í símanum og á netinu
Tveir metrar á milli
Í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis biðjum við viðskiptavini um að gæta að því að hafa a.m.k. tvo metra á milli einstaklinga þegar þeir koma í útibú bankans.
Lausnir og úrræði fyrir viðskiptavini
Landsbankinn býður ýmis úrræði fyrir einstaklinga sem sjá fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna óvæntra aðstæðna, s.s. vegna atvinnumissis eða veikinda, m.a. að sækja um að fresta greiðslum af íbúðalánum. Ýmsar lausnir eru einnig í boði fyrir fyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann og lenda í tímabundnum erfiðleikum.
Finnum lausnir fyrir þig