Landsbankinn lækkar vexti
Landsbankinn hefur lækkað vexti til einstaklinga og fyrirtækja og mun ný vaxtatafla taka gildi að morgni 13. mars nk.
Breytilegir vextir íbúðalána lækka um 0,40 prósentustig. Eftir breytinguna verða breytilegir vextir óverðtryggra íbúðalána 4,50% og breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána verða 2,80%.
Fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir til 36 og 60 mánaða verða lækkaðir um 0,30 prósentustig. Fastir verðtryggðir íbúðalánavextir til 60 mánaða verða einnig lækkaðir um 0,30 prósentustig.
Óverðtryggðir og verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,30 prósentustig.
Yfirdráttarvextir lækka um 0,30-0,50 prósentustig og breytilegir vextir á bíla- og tækjalánum lækka um 0,30 prósentustig.
Innlánsvextir almennra veltureikninga verða óbreyttir en aðrir algengir innlánsvextir lækka um 0,30-0,50 prósentustig.
Nánari upplýsingar munu koma fram í nýrri vaxtatöflu Landsbankans sem tekur gildi 13. mars 2020.