Leikmennirnir henda sér ekki bara í gallann og fara svo að spila. Það eru svo mörg atriði sem þurfa að ganga upp. Það er alveg rosalegur undirbúningur sem býr að baki,“ segir Hinrik Ingi Guðbjargarson, kokkur landsliðsins.
„Til þess að tryggja að við getum boðið upp á mat sem mætir þeim kröfum sem við viljum uppfylla þá ákváðum við bara að gera þetta sjálfir. Við verðum með okkar eigin eldhús, sjáum um eigin innkaup og rekum eiginlega bara lítið veitingahús þarna svona rétt á meðan HM stendur.“
Hinrik brá á það ráð að fá til liðs við sig Kirill Ter-Martirosov, yfirkokk á Fiskmarkaðnum, en hann er ættaður frá Kraznodar-héraði þar sem æfingabúðir landsliðsins verða. „Helsta áskorunin verður líklega samskipti og þá kemur sér vel að ég tala rússnesku,“ segir hann kíminn.
Snýst um stemninguna
Kirill og Hinrik hafa farið út til Rússlands og kynnt sér aðstæður á hótelinu en ekki síður hvað varðar aðgengi að hráefni.
„Við erum alltaf með hlaðborð. Við erum með salatbar og súpu, við erum með fisk og einn eða tvo kjötrétti, hrísgrjón og pasta. Þannig að hver og einn getur svolítið valið sér það sem hann vill. Aðalmálið, því við erum svo lengi úti, er að geta brotið þetta upp; farið út að grilla eða verið með eitthvað þema í matnum, því þetta er kannski eini fjölbreytileikinn í annars fyrirsjáanlegu hótellíferni og rútínu á æfingum,“ segir Kirill.
Hinrik bætir við: „Þegar ég byrjaði í þessu hélt ég að þetta snerist svakalega mikið um næringarfræði. Sannleikurinn er sá að þetta snýst meira um að gera mat sem er góður, sem allir eru sáttir við og búa til stemningu. Þetta eru atvinnumenn sem eiga allt sitt undir líkamanum þannig að þeir passa sig mjög vel sjálfir. Ég hugsa að jafnvel þótt við byðum upp á súkkulaðiköku þá væri hún líklega ekki borðuð.“
Þeir segja að strákarnir séu hrifnir af íslenskum mat, enda búi langflestir leikmannanna erlendis og fá kannski ekki hefðbundinn íslenskan mat nema með landsliðinu og í fríum. Þeim finnst samt varla hægt að dvelja nokkrar vikur í Rússlandi án þess að bjóða upp á eitthvað ekta rússneskt eins og til dæmis borscht, sem er súpa með rauðrófum og hvítkáli.
18.000 stakir hlutir
Eitt þekktasta andlitið úr baklandi landsliðsins er Sigurður Sveinn Þórðarson, einnig þekktur sem Siggi dúlla. Hann er búningastjóri karlalandsliðsins og tryggir sem slíkur að allur búnaður sem landsliðið þarf að nota í hverju verkefni fyrir sig sé til staðar hvort sem það eru nuddbekkir, hlaupagrindur, fatnaður, æfingakeilur eða auka takkar undir takkaskóna. Hann segist ekki ýkja þótt stakir munir sem fari með út séu yfir 18.000 talsins.
„Ég vil frekar taka of mikið með út heldur en of lítið. Á EM tókum við með 120 úlpur og annað eins af húfum og vettlingum sem komu aldrei upp úr kassanum, enda var 25 stiga hiti allan tímann. En ef það hefði verið kalt - eins og var t.d. um daginn þegar við fórum til Bandaríkjanna að spila - þá vil ég ekki vera ábyrgur fyrir því að það setji hroll að strákunum. Þeir láta mann alveg heyra það ef eitthvað vantar.“
Hann ítrekar þó að það sé allt á léttu nótunum og bætir við að þetta sé einstakur hópur og mikið vinarþel. „Það geta allir leitað til allra og allir hjálpa öllum. Það sem drífur mann raunverulega áfram er hvað þetta er skemmtilegur hópur að vera með.“
Samskiptin áskorun
Siggi ber samstarfsfólki sínu hjá KSÍ góða söguna þótt hann finni fyrir því að það komi færri að stórmótum en hjá öðrum og stærri þjóðum. „Ég gleymi því ekki þegar við vorum að búa okkur undir fyrsta leikinn á EM í Frakklandi, þá vorum við búnir að drösla öllu dótinu inn tveir með aðstoð frá sjúkraþjálfurunum þegar Portúgalarnir mættu. Ég held að það hafi verið rúta - það voru allavega tólf í búningadeildinni hjá þeim.“
Eins og kokkarnir, telur Siggi að samskiptin verði stærsta áskorunin í Rússlandi. „Svo er Rússland auðvitað mjög stórt land, það eru mörg tímabelti og langt á milli staða. Við ferðumst mikið þannig að það verður mikið pakkað niður og mikið pakkað upp.“
Erfitt vor fyrir völlinn
Sigga til halds og trausts er vallarstjórinn Kristinn V. Jóhannsson. Hann hefur verið að fylgjast með framgangi mála í Rússlandi til þess að tryggja að þar mæti allar aðstæður á æfingasvæðinu kröfum landsliðsins. Þess á milli hefur hann reynt að halda Laugardalsvelli í þokkalegu ásigkomulagi þrátt fyrir það sem hann kallar erfitt vor.
„Það hefur verið kalt og snjór. Veturinn var líka hundleiðinlegur. Við erum búnir að gera allt sem við getum. Við erum búnir að sanda völlinn, bera á hann áburð, slá hann, sá í hann, hafa dúk yfir honum og bera á hann hitt og þetta til að auka sprettu. En þegar lofthiti er 1-4 gráður og næturfrost inn á milli þá er þetta mjög erfitt.“ Völlurinn var engu að síður orðinn vel grænn þegar blaðamenn bar að að garði og landsliðið er nú þegar byrjað að æfa á grasinu.
„Við höfum óskir um hæð grassins frá leikmönnum og þjálfurum, og það eru ákveðin viðmið, en annars eru engar reglur um það. Sem er pínulítið fyndið því það er mjög skýrt regluverk í kringum gervigrasið. En við höfum völlinn allavega aldrei loðinn heldur bara þannig að við spilum besta boltann. Á góðu ári eru það svona 22, 23, 24 millimetrar yfir hásumarið.“
Kristinn man eftir sér 3-4 ára gömlum í Safamýri hjá Fram að sparka í bolta. Hann hefur verið í kringum sportið alla tíð síðan. „Að spila fótbolta, æfa fótbolta, þjálfa fótbolta, slá fyrir fótbolta. Þetta er náttúrulega algjör draumur; Ísland loksins komið á HM. Við erum búin að tala um þessa keppni svo lengi svo ég hlakka mest til að við spilum þessa leiki loksins. Ég hlakka til að upplifa stemninguna, bara að komast á völlinn.“