„Það væri draum­ur að spila fyr­ir full­um Laug­ar­dals­velli“

Í tilefni af leik Íslands og Þýsklands ræddi Ída Marín Hermannsdóttir í U17 landsliðinu við landsliðskonuna Hallberu Guðnýju Gísladóttur og spurði hana um fótboltann og góð ráð fyrir upprennandi knattspyrnufólk.
22. ágúst 2018 - Landsbankinn

Af því tilefni settist ein af okkar ungu og efnilegu fótboltakonum, Ída Marín Hermannsdóttir í U-17 landsliðinu, niður með landsliðskonunni Hallberu Guðnýju Gísladóttur og spurði hana um fótboltann og góð ráð fyrir upprennandi knattspyrnufólk.

Af hverju byrjaðir þú í fótbolta?

Ég byrjaði eiginlega bara í fótbolta því það var svo mikill áhugi á íþróttinni í umhverfi mínu. Ég kem frá Akranesi sem er auðvitað mikill fótboltabær, bræður mínir voru í fótbolta og það kom bara eiginlega aldrei neitt annað til greina en að fara á fótboltaæfingu.

Hver var fyrirmyndin þín þegar þú varst yngri?

Fyrirmyndir mínar voru í raun aðallega karlmenn. Þegar ég var yngri þá var mikill fókus á karlafótbolta og í mínum heimabæ voru mikið af svona sterkum karakterum. Svo það voru eiginlega bara strákarnir í Skagaliðinu og svo David Beckham og Ryan Giggs sem voru mínar fyrirmyndir. En svo voru líka fótboltastelpur sem maður vissi af, eins og Ásthildur Helgadóttir sem maður leit upp til og hún var líka fyrirmynd. En þetta hefur auðvitað breyst ótrúlega mikið frá því að ég var yngri. Í dag hafa krakkar margar fyrirmyndir sem þeir geta litið upp til, bæði konur og karlar.

Var það alltaf markmiðið að komast í A-landsliðið?

Ég stefndi ekki endilega á það þegar ég var yngri. Með árunum gerði ég mér smám saman grein fyrir því að ég væri góð í fótbolta og fór að setja markið hærra. En það var ekki fyrr en um tvítugt sem ég áttaði mig á að ég ætti raunhæfa möguleika á að spila með A-landsliðinu. Ég hafði spilað í U-17, U-19 og U-21 en af einhverjum ástæðum fannst mér A-landsliðið alltaf fjarlægt. Þegar ég fór að hafa meiri trú á sjálfri mér þá fór að verða auðveldara að setja markið hærra og á endanum tókst mér að spila fyrsta A-landsliðsleikinn.

Hvenær spilaðir þú þinn fyrsta landsleik og hvernig leið þér inni á vellinum?

Ég spilaði fyrsta A-landsleikinn minn þegar ég var um 21 árs í Algarve í Portúgal. Í sannleika sagt var ég alveg svakalega stressuð. Ég kom inn á í hálfleik og náði í raun ekkert að njóta leiksins en svo minnkaði stressið í næstu leikjum og maður fór að njóta þess meira að spila.

Hallbera og Ída Marín á Laugardalsvellinum

Ertu með einhver sérstök ráð fyrir krakka í fótbolta?

Mitt helsta ráð er að hafa gaman af því sem þú ert að gera. Þá verður allt auðveldara. Fyrir mig persónulega þá átti ég svolítið erfitt með sjálfstraust. Ég var lengi stressuð og hafði kannski ekki nógu mikla trú á mér nógu snemma. Þannig að ég held að fyrir krakka sem eru að byrja að æfa eða eru kannski að byrja í unglingalandsliðinu eins og þú, sé mitt helsta ráð að efla sjálfstraustið. Sjálfstraust skiptir miklu máli, maður spilar svo miklu betur ef maður hefur trú á sjálfum sér.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leiki?

Ég reyni að undirbúa mig vel andlega. Fara vel yfir liðið sem ég er að fara að spila á móti í huganum, hafa í huga hvort maður þurfi að gera eitthvað öðruvísi á móti þessum mótherja en öðrum og svo framvegis. Síðan finnst mér mikilvægt að borða vel daginn áður og reyna að hvíla mig og hugsa vel um líkamann. Svo er bara sett tónlist á fóninn og gírað sig upp rétt fyrir leik.

Verður þú ennþá stressuð fyrir leiki?

Með aldrinum hefur stressið minnkað og breyst meira í spennu eða tilhlökkun. Það kemur samt alveg fyrir að ég verði stressuð, kannski aðallega fyrir svona stóra leiki eins og við erum að fara í núna. En það er haldið mjög vel utan um okkur og við erum mjög vel undirbúnar. Til að vinna bug á stressinu er best að undirbúa sig vel, fara yfir hlutina í huganum og sjá fyrir sér hvað þú ætlar að gera á vellinum.

Hallbera og Ída Marín skalla á milli

Af hverju er landsleikurinn við Þýskaland 1. september svona mikilvægur?

Ég held að þessi leikur verði klárlega einn af stærstu leikjunum sem ég hef spilað. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem kvennalandsliðið á raunhæfan möguleika á að fara á heimsmeistaramótið. Við erum auðvitað búin að fara á Evrópumeistaramótið en það er erfiðara að komast á heimsmeistaramótið. Það myndi veita okkur þvílíkt mikinn stuðning að fá fullan völl.

Er mikilvægt að fólk mæti á leikinn?

Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að fá stuðning úr stúkunni. Ég hef upplifað að spila bæði fyrir hálftómum velli og svo næstum því fullum velli og það er mikill munur. Á móti liði eins og Þýskalandi, sem er eitt besta lið í heimi, þurfum við á sem allra flestum að halda. Og það væri auðvitað draumur að spila fyrir fullum Laugardalsvelli. Við fundum það vel á EM hvað það skiptir miklu máli að heyra í íslensku áhorfendunum. Það er tilfinning sem erfitt er að lýsa. Maður fær bara gæsahúð af að hugsa um það.

Hvernig finnst þér kvennaboltinn hafa þróast?

Kvennaboltinn hefur breyst rosalega hratt á nokkrum árum. Það er mjög gaman að fylgjast með þróuninni og taka þátt í þessum breytingum. Þegar ég byrjaði að spila með landsliðunum var umfangið um kvennaboltann mun minna, það var séð vel um okkur en áhuginn var minni, það voru færri sem mættu á völlinn og ekki jafn margar stelpur sem fóru í atvinnumennsku.

Það er ótrúlega gaman að sjá hversu áhuginn á kvennalandsliðinu er orðinn mikill og hversu margir eru farnir að mæta.
Kvennalandsliðið á Laugardalsvellinum

Ertu með einhver ráð fyrir þá sem stefna á atvinnumennsku?

Það er auðvitað alltaf mjög erfitt að taka ákvörðun um að fara frá Íslandi, fjölskyldunni og vinum. En að geta spilað fótbolta og einbeitt sér að honum er ótrúlega mikill kostur. Það er nauðsynlegt að undirbúa sig vel ef maður ætlar að stefna á atvinnumennsku og vera tilbúinn til að leggja allt í sölurnar. Þetta er ekki alltaf auðvelt. Maður er kannski einmana úti í löndum og stundum gengur ekki vel í fótboltanum sem er erfitt þegar allt líf manns snýst um fótbolta. En ég mæli hiklaust með þessu ef þú ert 100% viss um að þetta sé það sem þú vilt.

Finnst þér mikilvægt að krakkar stundi nám meðfram fótbolta?

Já, mér finnst mjög mikilvægt að mennta sig meðfram fótboltaferlinum, þ.e. ef það er eitthvað sem þú vilt gera í lífinu, það verður auðvitað hver og einn að ákveða fyrir sig. En það er kannski sérstaklega mikilvægt fyrir stelpur því það er aðeins öðruvísi fyrir konur að vera í atvinnumennsku. Við komum kannski ekki heim með fulla vasa fjár og þurfum ef til vill að spá meira í hvað við ætlum að gera eftir að ferlinum lýkur. Þannig að ég myndi klárlega mæla með því að fara í eitthvað nám með. Sumum býðst til dæmis að fara til Bandaríkjanna á fótboltastyrk og svo er allskonar fjarnám í boði. Sjálf fór ég í viðskiptafræði og starfa í Landsbankanum meðfram fótboltanum.

Þú gætir einnig haft áhuga á
18. júní 2020
Háttvísi skiptir máli
Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ eru ný verðlaun sem standa mótshöldurum knattspyrnumóta yngri flokka til boða í sumar. Með verðlaununum viljum við verðlauna háttvísi og heiðarlega framkomu allra sem að mótum koma. Á þetta fyrst og fremst við leikmenn, en ekki síður þjálfara, foreldra, áhorfendur og aðra aðstandendur.
5. júní 2018
Heimir og HM í Rússlandi
Líf Heimis Hallgrímssonar snýst um fótbolta. Á undanförnum árum hefur hann sem landsliðsþjálfari skilað íslenska karlalandsliðinu á EM og HM, tvö stærstu mót knattspyrnuheimsins. Í hans huga er galdurinn að baki velgengninni ekki flókinn, það er ástríðan, metnaðurinn og leikgleðin sem fylgir fótboltaiðkun í pínulitlu landi.
23. maí 2018
Leikmennirnir bara helmingur HM hópsins
Fæstir gera sér grein fyrir því að leikmennirnir 23 í landsliðshópnum eru ekki nema tæpur helmingur þeirra sem fara til Rússlands í sumar. Liðinu fylgja sjúkraþjálfar, kokkar, umsjónarmenn búninga og hafurtasks og alls konar hjálparhellur aðrar.
7. júlí 2017
„Knattspyrnan er í stöðugri framför“
Kvennaknattspyrna hefur verið í sókn síðustu ár, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Aðsókn að leikjum eykst, ný félög og deildir spretta upp og um leið eykst fjármagn og umfjöllun. Fótboltinn er líka betri og metnaðurinn mikill, það er fátt sem kemur í veg fyrir að kvennafótboltinn nái í skottið á karlaboltanum nema hugarfar, og það er að breytast.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur