Bank­inn í mið­borg­inni: Úr Bak­ara­brekku í Aust­ur­stræti

Landsbankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti, sem þá kallaðist reyndar Bakarabrekka en flutti í fyrsta bankahúsið í Austurstræti 11 árið 1898. Færri vita líklega að bankinn var um tíma með afgreiðslu í Austurstræti 16 sem seinna hýsti Reykjavíkurapótek.
Höfuðstöðvar Landsbankans
18. ágúst 2022

Landsbankinn á sér ríka sögu og djúpar rætur í miðborg Reykjavíkur. Allt frá árinu 1898 hafa höfuðstöðvar bankans sett svip á umhverfið. Hús bankans eiga það sammerkt að hafa hvert á sinn hátt markað tímamót í íslenskri byggingarlistarsögu.

Bankinn hóf starfsemi árið 1886 í tvílyftu, steinhlöðnu húsi sem enn stendur við Bankastræti 3, nú betur þekkt sem verslunin Stella. Gatan kallaðist á þeim tíma Bakarabrekka en við hæfi þótti að breyta nafni hennar og kenna hana við hina nýju bankastofnun.

Landsbankinn hóf starfsemi sína 1. júlí árið 1886 í húsinu við Bankastræti 3 sem lengi hefur hýst verslunina Stellu. Ljósmyndari: Óþekktur.

Fyrsta Landsbankahúsið 1898–1915

Árið 1898 reisti Landsbankinn veglega, tvílyfta byggingu úr hlöðnum steini á lóðinni nr. 11 við Austurstræti eftir uppdráttum dansks húsameistara, Christian Thurens. Húsið var í ný-endurreisnarstíl og mjög til þess vandað jafnt utan sem innan. Hlaðnir útveggirnir voru úr grófhöggnum steini og húðaðir utan með sléttum múr sem í voru markaðar láréttar línur og hleðslulíking yfir bogagluggum á götuhæð. Aldrei áður hafði svo fágað, klassískt múrskraut prýtt ytra borð íslenskrar byggingar, ef frá er talin stækkun Dómkirkjunnar árið 1848. Nýja bankahúsið var álitið „hin mesta bæjarprýði, langfallegasta og vænsta húsið á landinu“.1

Hús bankans sem reis við Austurstræti 11 árið 1898 var í nýendurreisnarstíl. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.

Miklar skemmdir í miðbæjarbrunanum 1915

Í miðbæjarbrunanum vorið 1915 skemmdist Landsbankahúsið mikið og stóðu hlaðnir útveggirnir einir uppi. Eftir brunann seldi bankinn landstjórninni rústina. Var þak sett á tóftina og hún nýtt sem vörugeymsla á stríðsárunum fyrri. Til stóð að endurbyggja húsið sem landssímastöð en af því varð ekki. 2 Bankinn flutti starfsemi sína til bráðabirgða í nýbyggt pósthúsið handan götunnar. Áður en til þess flutnings kom var Guðjón Samúelsson fenginn til að meta ýmsar lóðir með tilliti til þess hver þeirra gæti hentað fyrir nýbyggingu bankans.3 Til álita kom að byggja bankahúsið á spildu úr Arnarhóli við mót Ingólfsstrætis og Hverfisgötu, einnig á brunalóð við Austurstræti 14 og loks á reit norðan Hafnarstrætis.

Hús bankans skemmdist mikið í miðbæjarbrunanum 1915 og á stríðsárunum var tóftin nýtt sem vöruhús. Ljósmyndari: Óþekktur.

Landsbankinn í húsi Nathans & Olsens 1917–1924

Húsið Austurstræti 16 (nú Apótek hótel) var frá byrjun kennt við Nathan & Olsen, fyrirtækið sem hafði forgöngu um byggingu þess. Í seinni tíð varð húsið betur þekkt sem Reykjavíkurapótek eftir að lyfjabúðin við Austurvöll fluttist þangað árið 1929. Umboðsverslun Nathans & Olsens var eitt þeirra fyrirtækja sem missti húsnæði sitt í miðbæjarbrunanum 1915. Fyrirtækið var stofnað árið 1912 af þeim Frits Nathan og Carli Olsen og árið 1914 varð John Fenger meðeigandi. Eftir að símsamband við útlönd komst á árið 1906 gáfust tækifæri til beinna umboðsviðskipta við erlendar verksmiðjur og heildsala. Var Frits Nathan einn sá fyrsti til að nýta kosti nýrrar samskiptatækni til innflutnings á varningi.4

Eftir brunann fóru þeir Fritz og Carl að kanna möguleika á byggingu eigin húsnæðis. Í viðtali við Vikuna árið 1967 segist Carl Olsen hafa fengið augastað á brunalóð austanmegin Pósthússtrætis að Austurstræti. Þar hafði staðið gamalt timburhús í eigu Milljónafélagsins, kennt við verslunina „Godthaab“, sem Thor Jensen rak um skeið. Þeim félögum var ítrekað neitað um lán til lóðarkaupa og húsbygginga hjá Landsbankanum og Handelsbanken. Eftir brunann kom til álita að reisa nýtt hús fyrir Landsbankann á Arnarhólstúni. Carl Olsen segir Björn Kristjánsson bankastjóra hafa verið andvígan þessari tillögu.

Hann mátti ekki til þess hugsa, að Landsbankanum yrði fleygt frá miðbænum og upp á Arnarhólstún. Dag nokkurn kallaði hann mig á fund sinn og spyr hvort ég hafi enn þá áhuga á að fá lóðina og byggja. Ég svaraði játandi. Þá spyr hann, hvort Landsbankinn geti fengið inni í nýja húsinu. Ég hélt það nú og sagði honum, að við mundum bara bæta einni hæð ofan á húsið til þess að fá nóg pláss fyrir bankann. Þetta varð að samkomulagi og lóðin var fengin og lán að auki.5

Landsbankinn fjármagnaði byggingu Austurstrætis 16 sem kennt er við Reykjavíkurapótek. Götuhæðin var sérsniðin að þörfum bankans og þar var bankinn á árunum 1917 til 1924. Ef rýnt er í myndina sést merki bankans í gluggunum. Ljósmyndari: Óþekktur.

Austurstræti 16 var að sögn Guðjóns langdýrasta hús sem fram til þess hafði verið byggt á Íslandi. Það var bæði stærra og meira í það lagt en áður voru dæmi um. Sú staðreynd að Landsbankinn fjármagnaði framkvæmdina og var jafnframt helsti leigutaki skýrir hvers vegna unnt var að vanda svo vel til verks. Innra fyrirkomulag götuhæðar var sérsniðið að þörfum bankans. Reitað loft og marmaraklæddar súlur prýddu afgreiðslusalinn og í fordyri var dyraumbúnaður í stíl hússins. Bankinn flutti í hin nýju húsakynni í byrjun ágúst árið 1917 en aðrir hlutar hússins voru fullbúnir um haustið.6 Skrifstofur og afgreiðsla Nathans & Olsens voru á annarri hæð og geymslur fyrirtækisins í kjallara. Á tveimur efri hæðum voru herbergi leigð út til fyrirtækja og einstaklinga. Á hverri hæð voru vatnssalerni og baðherbergi fyrir leigjendur á þriðju hæð. Efsta hæðin var sérstaklega innréttuð fyrir Eddu, fræðslustúku Frímúrara.

Gamla bankahúsið endurreist 1921–1924

Stjórn Landsbankans ákvað loks haustið 1921 að kaupa aftur lóð og hús að Austurstræti 11 og reisa þar nýja bankabyggingu úr rústum hinnar eldri. Leitaði hún til Guðjóns Samúelssonar um gerð teikninga. Tók hann verkefnið að sér í hjáverkum gegn greiðslu samkvæmt taxta húsameistara, sem á endanum varð jafngildi tveggja ára embættislauna hans.7 Guðjón hafði þó ekki að öllu leyti frjálsar hendur í þessu verkefni. Ákveðið var að nýta það sem eftir stóð af hlöðnum útveggjum gamla hússins og varð stíll hússins að taka mið af því.8 Til að lágmarka breytingar á steinhleðslunni kaus Guðjón að vinna með ný-endurreisnarstíl gamla bankans enda þótt sú stílgerð væri ekki sú sem honum var tömust. Stækkunin fólst í því að bankahúsið var lengt til vesturs um fjögur jafnsett gluggabil og heilli hæð bætt ofan á eldri og yngri hluta þess. Miðjusettur inngangur á framhlið gamla hússins var aflagður og í hans stað gerðar tvennar nýjar aðaldyr í endabilum götuhliðar að Austurstræti. Þær austari voru að afgreiðslusal á götuhæð en hinar tengdust stigahúsi í vesturenda. Nýir veggir ásamt milligólfum og stigum voru úr steinsteypu en þakið úr timbri, klætt með þakskífu. Í tímaritsgrein komst Guðjón svo að orði að Landsbankahúsið væri „án efa vandaðasta húsið sem reist hefir verið hér á landi, enda hefir ekkert verið til þess sparað svo húsið yrði sem fullkomnast“.9 Til er fjöldi verkteikninga af hans hendi er sýna nákvæm útfærsluatriði í innréttingum, skrauti og húsbúnaði. Slíkt tækifæri til fágaðs efnisvals og nákvæmrar eftirfylgni í hönnun og framkvæmd bauðst sjaldan í þeim byggingum sem Guðjón teiknaði fyrir ríkið.

Við endurbyggingu Austurstrætis 11 var ákveðið að nýta það sem eftir stóð af hlöðnum útveggjum eftir brunann. Húsið var lengt til vesturs um fjögur gluggabil og einni hæð bætt ofan á. Ljósmyndari: Óþekktur.

Smíði bankahússins var boðin út í ákvæðisvinnu vorið 1922 og var það fokhelt um haustið. Það var múrað innan um veturinn og á miðju sumri 1923 hófst vinna við tréverk auk þess sem útveggir voru sementshúðaðir. Í febrúar 1924 var allri smíða- og málningarvinnu lokið og flutti bankinn starfsemi sína í húsið þann 1. mars 1924. Ólafur Jónsson, Ólafur Ásmundsson, Kornelíus Sigmundsson og Einar Einarsson voru aðalverktakar við bygginguna og önnuðust múrverk. Hafliði Hjartarson smíðaði útihurðir og Jóhannes Reykdal gluggaramma úr tré. Guðjón Gamalíelsson hafði daglegt eftirlit með byggingu hússins fyrir hönd bankans. Fyrirtækið Jón Halldórsson & Co smíðaði innréttingar í afgreiðslusal á götuhæð og skrifstofur bankastjórnar á annarri hæð. Neðri hluti salarveggjanna var klæddur þiljum úr tekkvið og húsbúnaður í salnum var smíðaður úr sama efni. Eftir endilöngum sal nálægt miðju var röð ferstrendra, marmaraklæddra burðarsúlna og voru afgreiðsluborð felld inn í bil á milli þeirra. Úr salnum lá íburðarmikill tekkstigi að viðtalssal, þremur skrifstofum bankastjóra og herbergi bankastjórnar á annarri hæð.10 Áskilið var í upphafi að landssjóður fengi húsnæði á þriðju hæð fyrir skrifstofur opinberra stofnana er síðar myndu nýtast bankanum er umsvif hans jukust.

Innréttingar í afgreiðslusalnum voru afar vandaðar. Vegleg og litrík veggmálverk  prýddu veggi salarins og annarrar hæðar hússins. Ljósmyndari: Óþekktur.

Sumarið 1923 var Jóni Stefánssyni listmálara falið að gera kalkmálverk af íslenskum sveitabúskap á vesturvegg afgreiðslusalarins ofan við viðarþiljur. Ári síðar málaði Jóhannes Sveinsson Kjarval veggmyndir við stigauppgang á annarri hæð er sýndu fiskiskip á leið til hafnar, saltfiskverkun í landi og sjómenn við störf. Svo vegleg og litrík veggmálverk í opinberri byggingu voru nýjung hér á landi. Þóttu þau tíðindum sæta, ekki síst þar sem viðfangsefnið tengdist daglegu lífi fólks í landinu. Myndunum var ætlað að minna alla þá sem í bankann kæmu á mikilvægi landbúnaðar og sjávarútvegs fyrir atvinnulífið í landinu. Í ávarpi við opnun bankahússins 29. febrúar 1924 sagðist Magnús Sigurðsson bankastjóri þora óhikað að fullyrða að bankahúsið væri „fegursta byggingin, sem vjer Íslendingar höfum enn þá bygt, og mun ætíð verða til sóma þeim mönnum, sem unnu að henni“.11 Hún væri sýnilegt tákn um hve langt íslenskir iðnaðarmenn og verkamenn væru komnir í sínum atvinnugreinum. Einnig lauk Magnús sérstöku lofsorði á framlag arkitektsins. Sagði hann Guðjón hafa unnið stórvirki með þessari byggingu sem halda myndi nafni hans lengi á lofti.12 Landsbankahúsið við Austurstræti 11 var friðað af menntamálaráðherra árið 1991. Friðlýsingin tekur til ytra borðs, upprunalegra innréttinga og listskreytinga.13

Umdeild viðbygging 1934–1940

Sumarið 1934 efndi Landsbankinn til samkeppni um teikningar af væntanlegri sambyggingu milli Landsbankahússins og Ingólfshvols, steinsteypuhúss sem þá stóð á horni Hafnarstrætis og Pósthússtrætis. Dómnefnd skipuðu bankastjórarnir Georg Ólafsson og Lúðvík Kaaber, Jón Halldórsson skrifstofustjóri, Jón G. Maríasson aðalbókari og Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins. Sex höfundar skiluðu tillögum í keppnina og voru úrslit kynnt í janúar 1935. Engin 1. verðlaun voru veitt en Gunnlaugur Halldórsson hlaut 2. verðlaun kr. 500 og kr. 200 að auki.

Árið 1934 dugði húsið ekki lengur fyrir sívaxandi starfsemi bankans og var því ákveðið að byggja við hann. Viðbyggingin var tilbúin árið 1940. Ljósmyndari: Pétur Thomsen.

Eftir keppnina var Gunnlaugur beðinn um að útfæra tillögu sína nánar. Verkið fór hægt að stað en í maí 1938 lágu fyrir endurskoðaðar teikningar. Í samkeppninni hafði Gunnlaugur lagt til að Ingólfshvoll yrði rifinn og nýbygging reist í hans stað. Þegar til kom þótti ótækt að rífa heilt hús til að reisa annað nýtt. Niðurstaðan varð sú að reisa minni, tvílyfta millibyggingu í sundinu á milli húsanna og nýta jafnframt helming 1. og 2. hæðar Ingólfshvols undir starfsemi bankans. Gert var ráð fyrir að Ingólfshvoll yrði rifinn síðar og bankaviðbyggingin kláruð í þeirri mynd sem samkeppnistillagan sýndi.

Nýr afgreiðslusalur bankans í viðbyggingunni er eitt fyrsta dæmið um opið og flæðandi módernískt rými.

Vinna við stækkun bankans hófst í ágúst 1938 og var húsnæðið fullbúið í ágúst 1940. Viðbyggingin var tvílyft með kjallara. Skrifstofur voru á efri hæð en útvíkkun afgreiðslusalar á neðri hæð, auk fordyris og stigahúss. Stækkunin er eitt fyrsta dæmi um opið og flæðandi „módernískt rými“ í opinberri byggingu hér á landi. Mesta breytingin fólst í því að norðurhlið eldri bankasalarins var opnuð upp að endilöngu. Var útveggur bankahússins fjarlægður og í stað hans komið fyrir röð marmaraklæddra burðarsúlna í klassískum stíl. Handan súlnaraðarinnar tók hin nýja innrétting við með hreinum og mjúkum línum og sívölum burðarsúlum. Stækkun salarins gekk að hluta til inn í Ingólfshvol að burðarvegg í miðju húsinu. Sama tilhögun var á skrifstofuhæðinni, sem tengd var afgreiðslunni í salnum með léttbyggðum hringstiga. Veggir hins nýja bankasalar voru þiljaðir í hálfa hæð. Þar ofan við var ljósmálaður flötur með óbeinni lýsingu. Svæði viðskiptavina var í miðjum sal með afgreiðsluborði allan hringinn. Yfir almenningshluta afgreiðslunnar var stór þakgluggi. Jónas Sólmundsson og Guðmundur Breiðdal smíðuðu innanstokksmuni en Jón Bergsteinsson var byggingarmeistari.14 Með Gunnlaugi vann Skarphéðinn Jóhannsson húsgagnaarkitekt að hönnun húsgagna og innréttinga í nýja hluta bankasalarins.

Viðbyggingin frá 1940 var aðeins hluti af stærri byggingu sem beið þess að verða reist í stað Ingólfshvols sem var rifinn árið 1970 og viðbyggingin stækkuð upp í sína núverandi mynd.

Þegar verkpallar voru fjarlægðir og ytri mynd bankaviðbyggingarinnar blasti við var mörgum brugðið. Ekkert augljóst samræmi var milli eldri og yngri hlutans og var breytingin mjög umdeild. Enn í dag heyrast raddir sem telja réttast að fjarlægja hana að hluta til eða öllu leyti til að eldra bankahúsið fái betur notið sín. Viðbygging Gunnlaugs er vitnisburður um þau hörðu átök sem einkenndu viðhorf og gildismat í listum hér á landi á 4. áratug 20. aldar og sem slík hefur hún öðlast menningarsögulegt gildi. Í bankaviðbyggingunni freistaði Gunnlaugur þess að mynda heild með því að tefla saman skýrum andstæðum klassíkur og fúnksjónalisma bæði í innra rými og ytra formi. Hann gekk skammt í að umbylta innviðum í eldri hluta bankasalarins. Til mótvægis við opnun rýmisins klæddi hann nýjar burðarsúlur undir norðurvegg í klassískan búning og myndaði með því skil milli tímabila. Viðbótin frá 1940 var aðeins brot af stærri byggingu sem beið þess að verða reist í stað Ingólfshvols. Sú ráðagerð gekk eftir árið 1970 þegar Ingólfshvoll var rifinn og viðbyggingin við Pósthússtræti stækkuð upp í sína núverandi mynd.

Tillögur að stækkun 1960–1970

Um og eftir 1960 hóf Gunnlaugur í samvinnu við Guðmund Kr. Kristinsson að vinna tillögur að frekari stækkun Landsbankans við Pósthússtræti og Hafnarstæti. Ein hugmyndin gekk út á að reisa tíu hæða skrifstofuturn á lóð Ingólfshvols á horni Hafnarstrætis. Var hún sýnd á teikningu í tveimur útfærslum. Í annarri hélst viðbyggingin frá 1940 en í hinni var hún rifin og upphafleg gaflmynd bankahúss Guðjóns Samúelssonar endurvakin.

Meðal hugmynda sem kom fram um stækkun var að reisa tíu hæða skrifstofuturn í stað Ingólfshvols.

Niðurstaðan varð sú að byggja lægri byggingu á hornlóðinni sem líktist samkeppnistillögu Gunnlaugs frá 1934. Útfærslan á stækkuninni, efnisval og frágangur, vitnar um þá fágun sem einkenndi verk þeirra Guðmundar og Gunnlaugs. Árið 1958 var Hafnarstræti 10-12, svonefnt Edinborgarhús, tengt þriðju hæð Landsbankahússins með yfirbyggðri brú. Árið 1966 var útliti Edinborgarhússins breytt og fjórðu hæðinni bætt við. Árið 1968 var húsið Hafnarstræti 8 tengt Edinborgarhúsinu og það hækkað um eina hæð. Síðar hafa fleiri merkar byggingar bæst við húsakost Landsbankans í miðbænum, meðal annars Búnaðarbankahúsið við Austurstræti 5 og stórhýsi Mjólkurfélags Reykjavíkur við Hafnarstræti 5.

Myndir af húsum Landsbankans í miðborginni 1886-2022

1 Ísafold 19. ágúst 1899, bls. 228.
2 Morgunblaðið 1. mars 1924, bls. 33.
3 Landið 16. júní 1916, bls. 95.
4 Borgarskjalasafn, einkaskjalasafn nr. 418, Carl Olsen 11. Dagbók Nathans & Olsens 1922, bls. 5-8.
5 Vikan 11. maí 1967, bls. 10, 39.
6 Morgunblaðið 7. ágúst 1917, bls. 3.
7 ÞÍ. Húsameistari ríkisins 1997 A/1. Skýrsla Guðjóns Samúelssonar til Alþingis 14. mars 1946.
8 Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1. desember 1933, bls. 55.
9 Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1. september 1924, bls. 20.
10 Tímarit Verkfræðingafélags Íslands 1. september 1924, bls. 20-21.
11 Óðinn 1. júlí 1924, bls. 78-80.
12 Morgunblaðið 1. mars 1924, bls. 2-3.
13 Vef. www.minjastofnun.is/friðlýst hús og mannvirki. Apríl 2019.
14 „Landsbankinn fær aukið og endurbætt húsnæði“, Morgunblaðið 17. ágúst 1940, bls. 3, 6.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Myndlistarsýning í Austurstræti 11
8. nóv. 2021
Hreinar línur - Íslensk abstraktlist, 1956-2007
Í nóvember 2021 var opnuð sýning á íslenskum abstraktlistaverkum úr listasafni Landsbankans. Sýningin er opin á afgreiðslutíma útibúsins. Einnig er hægt að skoða sýninguna á Menningarnótt á meðan dagskrá stendur yfir í útibúinu.
23. jan. 2020
Listasafn Landsbankans - Jóhannes S. Kjarval
Mörg verk í Kjarvalssafni bankans teljast ótvírætt til lykilverka í sögu íslenskrar myndlistar. Hér fjallar Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur um listaverk eftir Kjarval sem eru í eigu bankans.
Búðarkassi úr vélasafni Landsbankans
19. apríl 2017
Dýrgripir varðveittir úr vélasafni Landsbankans
Ólöf Vignisdóttir, safnafræðingur, tók að sér að leggja mat á varðveislugildi gripa í vélasafni Landsbankans. Í safninu voru gripir með mikið varðveislugildi, s.s. rúmlega 110 ára gamall peningakassi en einnig vélar og tæki sem eru til í fjölda eintaka víða um heim. Í þessari grein segir Ólöf frá vélasafninu og aðferðunum sem var beitt við grisjunina.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur