Mikill vöxtur ferðaþjónustunnar á síðustu árum hefur aukið vægi hennar í þjóðarbúskapnum sem veldur því að áhrif faraldursins vega mun þyngra á þjóðarbúskapinn en annars hefði verið. Samdráttur í ferðaþjónustu bitnar harðar á Íslandi en flestum öðrum löndum þar sem hlutfall ferðaþjónustu af heildarútflutningstekjum er með því hæsta í heiminum. Útflutningur ferðaþjónustu skiptist í ferðalög og farþegaflug. Útflutningur ferðalaga nam 24,4% af útflutningstekjum Íslands í fyrra. Til samanburðar er þetta hlutfall á bilinu 3,4-5,9% á hinum Norðurlöndunum og munurinn því margfaldur. Sé horft til alls útflutnings ferðaþjónustu er munurinn enn meiri á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, enda hlutfall farþegaflugs í útflutningi óvíða hærra en hér á landi.
Tæplega 30% samdráttur útflutnings á árinu
Við spáum því að útflutningur dragist saman um tæplega 30% á þessu ári en 88% af þeim samdrætti má rekja til ferðaþjónustunnar. Á næsta ári spáum við 7,4% vexti sem er mun minni vöxtur en við væntum í vor. Mismunurinn skýrist af því að nú eru horfur á að erlendum ferðamönnum muni fjölga mun hægar en við væntum í vor. Árin 2022 og 2023 er hins vegar gert ráð fyrir kröftugum vexti, eða á bilinu 13,1-16,6%, en þá gerum við ráð fyrir að ferðalög hingað til lands aukist stórum. Mikil óvissa ríkir um þróun útflutnings á næstu árum og kemur það að langmestu leyti til vegna mikillar óvissu um þróun ferðalaga í heiminum. Aukning útflutnings frá landinu á spátímabilinu mun fyrst og fremst ráðast af fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands á næstu árum.
Spár benda til hægs vaxtar í farþegaflugi í heiminum
Spár Alþjóðaflugmálastofnunarinnar benda til þess að ferðalög með flugi muni dragast saman um 45% á þessu ári miðað við síðasta ár. Á næsta ári er einungis spáð 16% aukningu og yrði flugframboð þá 65% af framboði síðasta árs. Ekki er gert ráð fyrir að ferðalög nái umfangi ársins 2019 fyrr en árið 2023. Icelandair gerir ráð fyrir að sætaframboð muni dragast saman um 76,5% á þessu ári miðað við síðasta ár. Á næsta ári reiknar félagið einungis með að framboðið aukist um 25% en að það tvöfaldist árið 2022. Árið 2024 gerir spá félagsins ráð fyrir að sætaframboðið verði það sama og árið 2018 sem er ögn minna en það var árið 2019.
Spá okkar um fjölgun erlendra ferðamanna á næstu árum tekur mið af áætlun Icelandair enda hefur félagið verið umsvifamesti flytjandi farþega til og frá landinu á síðustu árum. Við reiknum með að fáir erlendir ferðamenn muni heimsækja Ísland það sem eftir lifir árs og að heildarfjöldi erlendra ferðamanna á árinu verði um 500.000.
Á næsta ári gerum við ráð fyrir komu 650.000 ferðamanna til landsins, sem er mun minni fjöldi en við gerðum ráð fyrir í maíspá okkar, en hún hljóðaði upp á 1.250.000 ferðamenn á næsta ári. Mun hægar hefur gengið að ráða niðurlögum veirunnar en við væntum þá. Spá okkar gerir ráð fyrir að hjarðónæmi gegn veirunni verði almennt náð í helstu viðskiptalöndum okkar á þriðja ársfjórðungi á næsta ári og að ferðalög hefjist aftur upp frá því.
Árið 2022 spáum við 1.300.000 ferðamönnum og má því segja að uppsveiflan í komum ferðamanna tefjist um eitt ár miðað við spá okkar í maí. Á lokaári spátímabilsins, 2023, gerum við ráð fyrir komu um 1,9 milljón ferðamanna, sem yrði svipaður fjöldi og á síðasta ári. Það mun því taka þrjú ár að koma okkur á svipaðan stað hvað ferðaþjónustu áhrærir og við vorum á í fyrra.
Samdráttur í álútflutningi og óvissa um framtíð Rio Tinto
Við gerum ráð fyrir að útflutningur áls dragist saman á þessu ári. Heimsmarkaðsverð á áli lækkaði verulega þegar faraldurinn stóð sem hæst í vor og dróst framleiðsla álveranna hér á landi saman um 6,9% á öðrum fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Það er mesti samdráttur í framleiðslu áls á Íslandi í 16 ár.
Samdrátturinn var einnig verulegur á þriðja og fjórða ársfjórðungi síðasta árs en þá lá hann á bilinu 6-6,2%. Heimsmarkaðsverðið hefur leitað hratt upp á síðustu mánuðum og var í ágúst komið á svipaðar slóðir og það var áður en faraldurinn hófst. Útflutningur áls dróst saman um 6,2% á öðrum fjórðungi og 4,4% á þeim fyrsta. Við reiknum með að útflutningur áls dragist saman um 5% á þessu ári en aukist lítillega á næstu árum.
Töluverð óvissa ríkir þó um það enda hefur Rio Tinto, sem framleiddi um 21,5% af öllu áli hér á landi á síðasta ári, hótað því að loka álverinu í Straumsvík vilji Landsvirkjun ekki semja um lækkun raforkuverðs. Lokun álversins myndi hafa umtalsverð áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins bæði vegna álversins en einnig vegna minni tekna Landsvirkjunar.
Sjávarútvegur
Faraldurinn hefur haft veruleg áhrif á útflutning á íslenskum sjávarafurðum og þá sérstaklega í vor. Lokun veitingastaða hafði mikil áhrif á eftirspurn eftir ferskum fiski. Einnig urðu tafir á greiðslum og sjávarafurðir voru afpantaðar. Kaupendur þrýstu jafnframt á um verðlækkanir. Til að byrja með varð mikill samdráttur í flugumferð sem hafði áhrif á útflutning á ferskum afurðum. Fraktflug hefur þó aukist verulega og hefur að miklu leyti tekið þann slaka sem farþegaflug skildi eftir. Útflytjendur sjávarafurða hafa að töluverðu leyti getað aðlagað sig að breyttum aðstæðum og markaðir eru orðnir meira í takt við það sem gerðist fyrir faraldurinn. Við gerum því ráð fyrir fremur litlum samdrætti í útflutningi sjávarafurða á þessu ári.
Árið í ár var annað árið í röð þar sem algjör aflabrestur varð á loðnu og engar veiðar fóru fram. Óvissa um loðnuveiði næstu ára er mikil en við gerum ráð fyrir að nýliðun undanfarinna ára gefi ágætis von um loðnuveiðar á næsta ári. Við teljum þó að veiðarnar verði nokkuð minni en árið 2018 þegar loðna var veidd hér síðast.
Mikill samdráttur innflutnings vegna færri brottfara Íslendinga
Þróun innflutnings hér á landi markast fyrst og fremst af breytingu í einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu. Við gerum ráð fyrir töluvert miklum samdrætti innflutnings á þessu ári og markast sá samdráttur að miklu leyti af minni innflutningi þjónustu vegna þess að Íslendingar fara mun sjaldnar til útlanda. Við spáum 22% samdrætti innflutnings á þessu ári. Á næsta ári spáum við aftur á móti 8,2% aukningu, 13% árið 2022 og 9% á lokaári spátímans en auknar utanlandsferðir Íslendinga munu lita vöxt innflutnings á næstu árum.
Erlend staða þjóðarbúsins aldrei verið betri
Frá því að uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst fyrir alvöru árið 2012 er uppsafnaður afgangur af viðskiptum við útlönd 825 ma.kr. Óhætt er að segja að þessi afgangur hafi skilað sér í stórbættri erlendri stöðu þjóðarbúsins. Í lok árs 2011 voru erlendar skuldir þjóðarbúsins um 920 ma.kr. meiri en erlendar eignir (horft fram hjá stöðu innlánastofnana í slitameðferð). Í lok 2. ársfjórðungs 2020 voru erlendar eignir 840 ma.kr. meiri en erlendar skuldir. Alls hefur hrein staða þjóðarbúsins batnað um 1.760 ma.kr. á þessu tímabili.
Viðskiptajöfnuður verður nálægt jafnvægi 2020 og 2021 en vaxandi afgangur næstu tvö ár
Á síðasta ári var 146 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði við útlönd. Við reiknum með 27 ma.kr. halla í ár. Þar munar mestu um að tekjur af erlendum ferðamönnum dragast saman um 334 ma.kr. milli ára. Á móti kemur minni innflutningur vegna utanlandsferða Íslendinga sem dragast saman um 150 ma.kr. Við gerum ráð fyrir að hallinn verði svipaður árið 2021 þar sem útlit er fyrir að útflutningur og innflutningur vaxi nokkurn veginn í takt á árinu.
Í maí spáðum við að viðskiptajöfnuður yrði jákvæður um 13 ma.kr. á yfirstandandi ári og 62 ma.kr. á næsta ári. Nú er á hinn bóginn útlit fyrir að afgangurinn í ár verði töluvert minni, eða um 3 ma.kr., og að á næsta ári verði um 10 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði, eða sem nemur 0,3% af landsframleiðslu. Þetta skýrist af því að fjölgun ferðamanna seinkar um eitt ár miðað við fyrri spá. Kröftugur vöxtur útflutnings árin 2022 og 2023 gerir það hins vegar að verkum að útlit er fyrir vaxandi afgang á viðskiptajöfnuði, eða sem nemur 1,4% af landsframleiðslu árið 2022 og 3,4% árið 2023.