Meiri áhrif á vinnu­mark­að en í fyrri krepp­um

Áhrif samdráttar í efnahagslífinu hafa verið mikil á vinnumarkaðnum á þessu ári. Atvinnuleysi hefur aukist, starfandi fólki á vinnumarkaði hefur fækkað, dregið hefur úr atvinnuþátttöku, vinnutími hefur styst og fjöldi vinnustunda hefur dregist saman.
Fjölskylda við matarborð
20. október 2020 - Greiningardeild

Sú neikvæða þróun sem orðið hefur á íslenskum vinnumarkaði á þessu ári er í samræmi við það sem er að gerast í hagkerfinu að öðru leyti.

Ekki er útlit fyrir að verðbólga fari úr böndunum í þessari kreppu, eins og jafnan hefur verið við svipaðar aðstæður, og líklegt má telja að vextir haldist áfram lágir. Þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi gefið eftir á árinu hafa áhrif á mælda verðbólgu almennt verið takmörkuð enn sem komið er, þótt matvæli hafi hækkað umfram aðrar vörur. Áhrifin á vinnumarkaðinn hafa á hinn bóginn verið mikil og kannski má segja að áhrif kreppunnar komi í ríkari mæli fram á vinnumarkaði en í þeim kreppum sem við höfum gengið í gegnum áður.

Starfandi fólki fækkar og atvinnuþátttaka minnkar

Sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða var fjöldi starfandi fólks á vinnumarkaði í kringum 201.000 um síðustu áramót. Í ágúst 2020 hafði starfandi fólki fækkað um 3.000, niður í u.þ.b. 198.000. Búast má við að starfandi fólki haldi áfram að fækka.

Atvinnuþátttaka hefur raunar farið minnkandi frá árinu 2017. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka upp í tæp 84% um mitt ár 2017 en nú er atvinnuþátttaka minni en 80% og hefur verið nær óbreytt síðustu mánuði. Það er því ljóst að hluti mögulegs vinnuafls hefur kosið að hverfa af vinnumarkaði á síðustu misserum sem er að einhverju leyti til marks um dulið atvinnuleysi.

Atvinnuleysi eykst enn

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 18.400 manns skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok september (án skerts starfshlutfalls). Það samsvarar 9% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var aftur á móti 9,8% í september. Reiknað er með að atvinnuleysi haldi áfram að aukast næstu mánuði.

Vinnuaflsnotkun heldur áfram að minnka

Vinnuaflsnotkun hefur aukist nær stöðugt á síðustu misserum, fyrst og fremst vegna fjölgunar starfandi fólks á vinnumarkaði. Þetta hefur breyst verulega á þessu ári. Starfandi fólki á vinnumarkaði hefur fækkað og vinnutími styst fimm mánuði í röð miðað við sama mánuð í fyrra. Fjöldi vinnustunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur þannig dregist verulega saman.

Suðurnesin orðið verst úti

Atvinnuleysi hefur verið mest á Suðurnesjum og var komið upp í 19,6% í september. Næst mesta atvinnuleysið hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, 9,8% í september.

Frá september 2019 til september 2020 fjölgaði atvinnulausum í öllum atvinnugreinum. Mesta fjölgunin var í hópi þeirra sem höfðu unnið við ferðatengda starfsemi, t.d. í farþegaflutningum og í gisti- og veitingaþjónustu. Atvinnuleitendum fjölgaði einnig mikið í ýmis konar persónulegri þjónustu, í starfsemi félaga og menningarstarfi.

Vinnumarkaðsúrræðin breytast miðað við stöðuna

Frá því að faraldurinn skall á hafa opinber úrræði til þess að draga úr afleiðingum áfallsins verið í sífelldri endurskoðun. Á sumarþingi var þannig ákveðið að framlengja hlutabótaleiðina fram til áramóta og sama má segja um heimild til tímabundinna greiðslna vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir af kórónuveirunni. Þá var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt tímabundið úr þremur mánuðum í sex og möguleikar atvinnulausra til náms auknir.

Frá því að faraldurinn hófst hafa stjórnvöld sagt að þau muni vera sífellt á verði og aðlaga aðgerðir að þörf og stöðu hverju sinni. Það hefur gengið vel fram að þessu, en fyrri væntingar um að hér sé einungis um tímabundið vandamál að ræða verða sífellt veikari. Það verður æ ljósara að íslenskt efnahagslíf, og þar með vinnumarkaður, þarf að eflast mikið á næstu misserum ef okkur á að takast að ná aftur fyrri styrk.

Atvinnuleysi á eftir að aukast meira

Hagfræðideild reiknar með að venjulegt atvinnuleysi án hlutabóta verði að meðaltali 7,8% á árinu 2020 og 8,4% á árinu 2021. Mun lægra atvinnuleysi í upphafi ársins 2020 hefur áhrif á meðaltal þess árs. Við reiknum með verulegu atvinnuleysi í upphafi árs 2021 en gerum ráð fyrir að síðan dragi úr því á nýjan leik eftir því sem líður á árið og að áfram muni draga úr atvinnuleysi eftir því sem umsvif aukast í ferðaþjónustu. Árið 2022 gerum við ráð fyrir 5,8% atvinnuleysi og 4,8% á árinu 2023.

Kjarasamningar tryggja áframhaldandi launahækkanir

Þrátt fyrir mikinn samdrátt í hagkerfinu og þungan vinnumarkað halda launahækkanir áfram í samræmi við kjarasamninga. Kaupmáttur, á mælikvarða launavísitölu, er ágætur. Þó er ljóst að hluti fólks á vinnumarkaði verður fyrir verulegri tekjuskerðingu á árinu og að ráðstöfunartekjur heimilanna munu ekki hækka í samræmi við launavísitölu.

Ljóst er að það skiptir verulegu máli að friður ríki á vinnumarkaði við þær aðstæður sem nú eru uppi í hagkerfinu. Kjarasamningar voru framlengdir um eitt ár í lok september 2020 og því mun verða ró á vinnumarkaði, a.m.k. fram á haustið 2021, þegar seinni endurskoðun á tímabilinu fer fram. Annars gilda samningar á almennum markaði almennt út október 2022. Staðan við endurskoðun kjarasamninga var nú nokkuð frábrugðin því sem hefur verið á síðustu árum. Nú voru það samtök atvinnurekenda sem íhuguðu að segja samningum upp en féllust á að gera það ekki eftir að hafa fengið yfirlýsingu frá stjórnvöldum um aðgerðir til þess að bæta hag fyrirtækjanna, t.d. um tímabundna lækkun tryggingagjalds og skattaívilnanir vegna fjárfestinga.

Launaþróun hefur verið hagstæð miðað við aðstæður. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við, í rúmlega 6%, í apríl og maí 2020 eftir áfangahækkanir á almennum markaði og kjarasamninga á þeim opinbera. Nú fer takturinn lítillega lækkandi aftur, en er enn yfir 6%. Ekki verður um að ræða almennar hækkanir samkvæmt kjarasamningum fyrr en um næstu áramót þannig að reikna má með að launaþróun verði með álíka rólegum hætti fram að því.

Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í september sl. var töluvert rætt um getu atvinnulífsins til þess að greiða út umsamdar launahækkanir um áramót. Í því sambandi var t.d. bent á að fjöldi fyrirtækja myndi eiga í verulegum vandræðum með launagreiðslur og að grípa þyrfti til mikillar hagræðingar sem gæti bitnað á atvinnustigi. Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl 2020 þegar hann tók stökk upp á við. Síðan þá hefur kaupmáttur minnkað um 1%, en er engu að síður með því hæsta sem um getur. Á milli ágústmánaða 2019 og 2020 hækkaði vísitala neysluverðs um 3,2%. Á sama tímabili hækkaði launavísitalan um 6,4% þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára var töluverð, eða 3,2%.

Nær allur vinnumarkaðurinn hefur lokið kjarasamningum

Langan tíma tók að gera kjarasamninga á opinbera markaðnum í þessari samningalotu. Þannig voru stærstu samningarnir innan BSRB gerðir tæpu ári eftir að lífskjarasamningurinn var gerður á almenna markaðnum. Töluvert bil myndaðist því á milli launaþróunar á almenna og opinbera markaðnum nær allt síðasta ár.

Laun á almenna og opinbera markaðnum þróast yfirleitt með svipuðum hætti yfir lengri tíma. Það bil sem hefur verið á milli þessara markaða síðasta árið hefur verið óvenjulega stórt og varað óvenju lengi, en með samningum opinberra starfsmanna í vor hefur það verið brúað að mestu leyti.

Atvinnuleysi er þungt fjárhagslegt högg

Launavísitala sýnir einungis þróun launa þeirra sem eru í starfi og búa við stöðugleika. Í stórauknu atvinnuleysi gildir sú mynd ekki fyrir alla. Ætla má að meðallaun hér á landi fyrir fullt starf séu rúmar 800.000 kr. á mánuði. Við að missa starf sitt og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur myndi meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði tapa um 326.000 kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði. Miðað við tekjutengdar bætur, sem nú er hægt að fá í 6 mánuði, yrði tjónið um 221.000 kr. í þá sex mánuði. Ráðstöfunartekjur þeirra sem verða atvinnulausir minnka því verulega og heimili sem lenda í slíku þurfa að jafnaði að draga verulega úr neyslu sinni. Verði atvinnuleysi mikið og langvarandi verða áhrifin á eftirspurn í hagkerfinu augljóslega mikil.

Hagfræðideild reiknar með að launavísitalan hækki almennt í takt við kjarasamninga á næstu árum. Við gerum ráð fyrir 5,8% hækkun í ár, 6,1% á árinu 2021, um 5% 2022 og 4% 2023.

Samdráttur í einkaneyslu

Einkaneysla dróst saman á öðrum ársfjórðungi í kjölfar þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið var til þegar veirufaraldurinn hófst. Samdrátturinn mældist 8,3% milli ára og hefur ekki verið meiri síðan 2009. Vísbendingar eru um að samdrátturinn muni mælast minni á þriðja ársfjórðungi þar sem kortavelta Íslendinga jókst talsvert innanlands í sumar þegar létti á takmörkunum og fólk gat notið sumarsins á ferðalögum innanlands.

Fólk eyðir ekki um efni fram

Kortavelta í heild hefur þó dregist saman í ár, þar sem neysluvilji og -geta margra hefur minnkað. Það sjást merki þess að fólk virðist ekki eyða um efni fram þar sem innlán heimila hafa aukist frá því að faraldurinn skall á. Sumir eru eflaust að fresta neyslu, t.d. að spara fyrir utanlandsferðum sem áætlaðar eru þegar faraldrinum linnir, aðrir að byggja upp varasjóði á meðan óvissan er sem mest.

Hluti heimila hefur þó nýtt svigrúmið sem myndaðist við það að ferðalögum fækkaði til annarra stórkaupa. Einstaklingar virðast t.d. ekki hafa dregið úr kaupum á nýjum bifreiðum milli ára, líkt og fyrirtæki og bílaleigur hafa gert.

Neysla eykst á ný eftir því sem dregur úr óvissu

Alls spáum við því að einkaneysla dragist saman um 5,5% í ár en taki við sér þegar faraldurinn gengur niður og Íslendingar geta hafið ferðalög á ný. Það er því viðbúið að neysluvilji og -geta aukist eftir því sem líður á spátímann og dregur úr óvissu, en einkaneysla verði ekki komin í svipað horf og 2019 fyrr en upp úr miðju ári 2022.

Vextir eru nú í sögulegu lágmarki sem hefur ýtt undir neyslu og gert samdráttinn minni en ella. Það er viðbúið að vextir hækki á ný þegar líður á spátímann, og mun það hægja á vexti einkaneyslu. Á móti vegur að kjarasamningsbundnar launahækkanir og lækkun atvinnuleysis þegar líður á spátímann munu styðja við áframhaldandi vöxt.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Fjallganga
20. okt. 2020
Byrjar að létta til haustið 2021
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna áhrifa af Covid-19. Óvissa um efnahagshorfurnar er enn mjög mikil.
Alþingishúsið
20. okt. 2020
Ríkissjóður hleypur undir bagga
Ríkissjóður hefur á síðustu mánuðum tekið á sig veruleg útgjöld og skuldbindingar vegna Covid-19-faraldursins. Skuldir A-hluta ríkissjóðs aukast samtals um rúmlega 600 milljarða króna árin 2020 og 2021.
20. okt. 2020
Atvinnuvegafjárfesting nær fyrri styrk árið 2023
Í síðustu uppsveiflu náði atvinnuvegafjárfesting hámarki árið 2017. Síðan dróst hún saman um 11,4% árið 2018 og 18% 2019.
Fjölbýlishús
20. okt. 2020
Fasteignamarkaður gefur lítið eftir en hægir á framboði
Íbúðauppbygging hér á landi hefur verið mjög sveiflukennd síðustu ár, bæði hvað magn og tegund íbúða varðar. Gert er ráð fyrir því að íbúðafjárfesting dragist saman um 16% í ár en aukist svo um 2-5% árlega á næstu árum.
Bananar í verslun
20. okt. 2020
Veikari króna stuðlar að verðbólgu og dregur úr líkum á frekari vaxtalækkunum
Verðbólga hefur aukist nokkuð síðan í janúar 2020. Í janúar var verðbólga 1,7% en var komin í 3,5% í september. Það er mesta verðbólga síðan í maí 2019 en þá var verðbólgan 3,6%.
20. okt. 2020
Vöxturinn ræðst af fjölda ferðamanna
Covid-19-faraldurinn mun fyrst og fremst koma niður á útflutningi landsins í gegnum áhrifin sem faraldurinn hefur á ferðaþjónustuna. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur