Hagspá Hagfræðideildar til 2026
Hagfræðideild Landsbankans spáir 3,1% hagvexti á þessu ári og 2,1% hagvexti á því næsta.
Á síðustu mánuðum hafa áhrif aukins peningalegs aðhalds gert vart við sig víða í hagkerfinu. Hagfræðideildin telur að hátt vaxtastig haldi áfram að halda aftur af einkaneyslu á næstunni. Horfur eru á að áhrifin komi skýrar fram í atvinnulífinu á næstu mánuðum, fjármunamyndun aukist aðeins lítillega í ár og atvinnuleysi mjakist hægt og rólega upp á við á næstu tveimur árum.
Hagspáin er kynnt á fundi í Hörpu sem stendur frá kl. 8.30 til kl. 10.00 miðvikudaginn 17. október og hún er aðgengileg á vef Landsbankans.
Hildur Margrét Jóhannsdóttir, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, segir:
„Horfurnar eru bjartar að því leyti að við teljum að hagkerfið færist smám saman í átt að betra jafnvægi. Til þess þarf þó að hægja á umsvifum og því teljum við að hagvöxtur verði hófstilltur næstu árin og atvinnuleysi aukist lítillega. Hagvöxtur var kröftugur á síðustu tveimur árum, enda átti hagkerfið inni viðsnúningsvöxt eftir áfallið sem fylgdi faraldrinum. Ferðamönnum fjölgaði hratt og spenna færðist yfir vinnumarkaðinn. Snaraukinni eftirspurn fylgdi verðbólga sem nú þarf að vinna bug á. Við teljum að peningastefnunefnd stígi varlega til jarðar þegar kemur að vaxtalækkunum, ekki síst í ljósi yfirvofandi kjaraviðræðna. Óvissan í spánni snýr ekki síst að þeim, en einnig spilar inn í óvissa í heimshagkerfinu í tengslum við stríðsátök.“
Helstu niðurstöður
- Hagvöxtur verður 3,1% í ár og 2,1% á næsta ári, samkvæmt spánni. Hann tekur hægt við sér árin á eftir og verður 2,3% árið 2025 og 2,6% árið 2026.
- Verðbólga hjaðnar smám saman en verður enn að meðaltali 5,3% á næsta ári og 4,3% árið 2025. Við búumst ekki við að verðbólga komist niður í markmið Seðlabankans á spátímanum.
- Stýrivextir hafa náð hámarki í bili, samkvæmt spánni, en fara ekki lækkandi fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Við spáum því að þeir verði enn 4,25% í lok spátímabilsins.
- Horfur eru á að krónan styrkist á spátímabilinu, að evran fari úr því að kosta 144 krónur í lok þessa árs niður í 138 krónur í lok árs 2026.
- Við búumst við að einkaneysla aukist mun minna í ár og næstu ár en í fyrra eða um 2,0% í ár og um 1,9% á næsta ári. Einkaneysla eykst svo smám saman meira með lækkandi vaxtastigi og auknum kaupmætti.
- Atvinnuleysi mjakast upp á við eftir því sem hægir á efnahagsumsvifum. Við spáum 3,2% atvinnuleysi í ár, 3,9% á næsta ári, 4,4% árið 2025 og 4,1% árið 2026.
- Kaupmáttur launa eykst aðeins örlítið í ár, um 0,6%, en meira á árunum á eftir, um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2025.
- Vísitala íbúðaverðs verður að meðaltali 5,0% hærri í ár en í fyrra, samkvæmt spánni, og 2,0% hærri á næsta ári en í ár. Markaðurinn kemst svo smám saman aftur á skrið þegar vaxtastigið fer lækkandi og við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 6,1% árið 2025 og 7,4% árið 2026.
- Íbúðafjárfesting dregst áfram saman, samkvæmt spánni, um 5% í ár og 3% á næsta ári, áður en hún tekur að aukast aftur árin á eftir.
- Spáin gerir ráð fyrir hægum vexti atvinnuvegafjárfestingar, að hún aukist um 3% í ár og um 3,4% á næsta ári.
- Útflutningur verður 6,8% meiri í ár en í fyrra, drifinn áfram af fjölgun ferðamanna í upphafi ársins og eykst svo um 4,2% á næsta ári. Innflutningur eykst mun minna í ár en í fyrra, um 2,8% og 3,5% árið 2024.
- Við spáum því að 2,2 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins í ár. Þeim fjölgi svo lítillega næstu ár, verði 2,3 milljónir á næsta ári, 2,4 milljónir árið 2025 og 2,5 milljónir árið 2026.
- Eftir halla síðustu ára gerum við ráð fyrir lítillegum viðskiptaafgangi öll ár spátímans. Við sjáum fram á aukinn afgang af þjónustuviðskiptum og aukinn halla af vöruviðskiptum.