Úthlutanir úr Menningarnæturpotti Landsbankans
Verkefnin sem fengu styrki eru einstaklega fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Viðburðirnir eru fyrir alla aldurshópa og eiga sér stað vítt og breytt um borgina. Landsbankinn mun til viðbótar við styrkina standa fyrir dagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.
Styrkþegar Menningarnæturpotts Landsbankans 2021:
Fjölskylduvinnustofur um ræktun, óskir og drauma - Stofnun Sæmundar Fróða
Vinnustofur sem snúa að ræktun við íslenskar aðstæður. Sigríður Þorgeirsdóttur, heimspekiprófessor við HÍ, flytur erindi og einstaklingar úr ólíkum áttum segja sögur sínar. Fluttur verður þátttökugjörningurinn Draumasafnið þar sem börn vinna með hugmyndir sínar um sitt nærumhverfi. Að lokum er blásið til matarmenningarhátíðar.
Búkolla tónlistarævintýri - Töfrahurð
Frumflutningur á nýju tónlistarævintýri fyrir börn, byggðu á þjóðsögunni Búkolla úr safni Jóns Árnasonar. Verkið er skrifað með börn og ungmenni í huga, til að skemmta þeim, en einnig til að vekja þau til vitundar um menningu og sögu þjóðar okkar. Flytjendur eru CAPUT-hópurinn undir stjórn Guðna Franzsonar og sögumaður er Huld Óskarsdóttir.
Opið hús í Frakklandi - Hákon Bragason
Í garðinum Frakkland á Frakkastíg verður í sumar starfrækt lifandi lista og viðburðarými. Á Menningarnótt verður þétt dagskrá með upprennandi listafólki þar sem skapað verður hlýlegt og heimilislegt rými í hjarta miðbæjarins. Viðburðir af ýmsum toga fara fram allan daginn, t.d. tónleikar, gjörningar og matargerð.
Reykjavík, borgin mín - Félagið íslensk grafík
Grafíksýning 20-40 listamanna í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu, þar sem hver listamaður túlkar sýn sína á höfuðborgina í margbreytileika grafíklistaraðferða. Einnig verður grafíksmiðja á verkstæði félagsins í sama húsnæði, þar sem gestir og gangandi geta prentað sín eigin listaverk með aðstoð félagsmanna.
Grand opening / Smekkleysa og Stak - Smekkleysa
Formleg opnun á nýju fjölnotarými Smekkleysu og Stak við Hjartatorg. Hljómsveitirnar Ólafur Kram, Pínulitlar peysur og tónlistarmaðurinn Kaktus Einarsson koma fram.
Matur-Dans-Tónlist - Buenaventura hópurinn
Kynning og samþætting á menningu frá ýmsum löndum við íslenska menningu. Fjölmenningarlegur viðburður þar sem matargerð, dans og tónlist er blandað saman.
Máltíð x Sushi x Elin Margot og Fiskmarkaðurinn - Fiskmarkaðurinn
Fiskmarkaðurinn ætlar að gera sushilistaverk með Elínu Margot og verkefninu Máltíð. Framreitt verður sushilistaverk sem fólk getur horft á og borðað þegar það er tilbúið.
Eldklárar og eftirsóttar: Stytt í spunann - Eldklárar og eftirsóttar á Menningarnótt
Spunahópurinn Eldklárar og eftirsóttar framkvæma feminíska gjörninga sem tengjast menningararfi kvenna í Reykjavík. Hópurinn samanstendur af tíu þaulreyndum spunaleikkonum úr ólíkum áttum sem munu framkvæma átta tuttugu mínútna spunagjörninga fyrir framan fjórar styttur af konum og eftir konur í miðborg Reykjavíkur.
Síðasta lag - Una Sveinbjarnardóttir og Tinna Þorsteinsdóttir
Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, og Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari, spila lög af nýrri plötu í bland við spuna og óskalög.
Ljóð á leið í bæinn - Hólavallagarður/Heimir Björn Janusarson
Ung skáld á öllum aldri flytja ljóð í Hólavallakirkjugarði undir listrænni stjórn skáldsins Sigurlaugar Diddu Jónsdóttur. Fimm skáld stíga á stokk ásamt myndarlegu tónlistaratriði.
Tíst, tíst! Ćwir, ćwir! Tweet, tweet! The migratory birds at Menningarnótt - Ewa Marcinek, Nanna Gunnarsdóttir
Leikræn sögustund fyrir börn og foreldra þeirra þar sem unnið er með leiklist, bókmenntir og hljóðupplifanir. Fjöltyngdur og fjölskylduvænn viðburður sem fer fram á íslensku, ensku, pólsku og á fuglasöngísku.
Stöðufundur í Gröndalshúsi - Kristína Aðalsteinsdóttir og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
Í sýningunni birtast verk tíu listamanna sem allir eru verðugir fulltrúar aldamótakynslóðarinnar (e. Millennials.) Hópurinn samanstendur af fimm myndlistarmönnum og fimm rithöfundum sem eru ólíkir innbyrðis en eiga það sameiginlegt að verk þeirra takast á við samtímann og stöðu ungs fólk í dag.
Bingó í bænum - Lalli töframaður
Bingósamvera með Lalla töframanni sem heldur töfrasýningar bæði fyrir og á meðan bingói stendur. Glæsilegir bingóvinningar frá fyrirtækjum og stofnunum í miðbænum og allir krakkar fá blöðrudýr í vinning.
Capoeira á Austurvelli - Capoeira
25 manna glæsileg sýning á Capoeira á Austurvelli. Capoeira er bardagalist frá Brasilíu. Iðkendur beygja sig undan spörkum andstæðingsins með glæsilegum hreyfingum og loftfimleikum og nýta sér lúmsk brögð í tilkomumiklum bardaga með lítilli eða engri snertingu. Einnig er spunnið saman við herlegheitin seiðandi dansi og lifandi tónlist sem leikin er á hefðbundin hljóðfæri smíðuð skv. aldagamalli hefð úr hráefni úr Amazonskóginum.
Syngdu með Rokkkór Íslands - Rokkkór Íslands
Rokkkór Íslands hefur í nokkur ár haldið uppi fjöri með meðsöngsprógrammi sínu. Flutt verða klassísk rokklög úr ýmsum áttum sem allir þekkja og geta sungið með.
Hannyrðapönk í almenningsrými - Sigrún hannyrðapönkari
Grunnhugmynd hannyrðapönksins: að allir sem vilja láta gott af sér leiða með handavinnu, handverki og/eða hannyrðum geta starfað undir formerkjum hannyrðapönksins. Í þessari smiðju getur fólk lært grunnatriði útsaums og hvernig er hægt að skreyta almenningsrými bæði með nýjum og gömlum útsaumi og þannig stuðla gegn sóun vefnaðarvöru með afturnýtingu.
Hliðarheimur plantna - Fischersund
Fischersund býður gestum menningarnætur upp á heildræna upplifun þar sem öll skynfæri eru virkjuð. Hannaðar verða nýjar plöntur inn í flóru Íslands sem í þeirra höndum fá ilm, hljóm og áferð. Á sýningunni gefst gestum kostur á að kynnast plöntunum, finna ilminn af þeim, sjá og snerta.
Perlur Japans og Íslands - Pamela De Sensi og Aulos Flute Ensemble
Aulos Flute Ensemble mætir til leiks með stórar og smáar flautur, leiðir áheyrendur í ferðalag frá eyju til eyju og á samtal tveggja heima í austri og vestri. Áheyrendum gefst kostur á að heyra japanskar flautuperlur sem ekki hafa heyrst hérlendis áður.
Deit, vín og grín - Vínstúkan Tíu sopar
Gestum vínstúkunnar verður boðið upp á menningarlega dagskrá þar sem nýjungar eru allsráðandi. Helst má nefna hraðstefnumót, blindsmakk og uppistand.
Reykjavík barnanna - sýning og söguganga - Linda Dögg Ólafsdóttir
Sýning á myndum úr bókinni Reykjavík barnanna en bókin kemur út á Menningarnótt. Sýningin er utandyra á stöplum í Pósthússtræti. Þar er fjallað um sögu Reykjavíkur og má sjá myndir úr bókinni ásamt gömlum ljósmyndum og öðru myndefni sem haft var til fyrirmyndar við gerð hennar
Elektróník í Grófinni - Auður Viðarsdóttir
Til að vekja athygli á því sem er að gerast í elektrónískri tónlist í Reykjavík og þeim möguleikum sem nýtt tónlistarverkstæði býður upp á á Borgarbókasafninu, varð til sú hugmynd að bjóða upp á elektróníska tónleika á mjög óvenjulegum stað á Menningarnótt. Tónlistarmenn koma sér fyrir á sviði sem verður á skyggninu yfir inngangi Borgarbókasafnsins í Grófinni.