Breytingar á verðskrá Landsbankans 1. apríl
Breytingar verða gerðar á verðskrá Landsbankans 1. apríl næstkomandi sem varða annars vegar árgjöld tilekinna kreditkorta sem bankinn gefur út og hins vegar gjöld vegna hækkunar á úttektarheimild kreditkorta og hækkunar á yfirdrætti.
Breytingar á árgjöldum eru eftirfarandi:
- Gull A-kort: Árgjald hækkar úr 11.400 krónum í 12.400 krónur.
- Gull Vildarkort-aukakort: Árgjald lækkar úr 8.500 krónum í 7.500 krónur.
- Platinum A-kort: Árgjald hækkar úr 21.900 krónum í 22.900 krónur.
- Platinum Vildarkort-aukakort: Árgjald lækkar úr 15.900 krónum í 14.900 krónur.
Frá og með 1. apríl verður innheimt gjald vegna hækkunar á úttektarheimild kreditkorta og tekur upphæð gjaldsins mið af því hvort hækkunin rúmist innan sjálfvirks lánaramma sem reiknaður er út fyrir alla viðskiptavini bankans. Ef hækkunin rúmast innan sjálfvirks lánaramma verður gjald vegna hækkunar á úttektarheimild kreditkorta 390 krónur. Rúmist hækkunin ekki innan lánarammans er hægt að óska eftir hærri heimild og verður innheimt gjald að fjárhæð 1.390 krónur við veitingu hennar.
Ekki er innheimt gjald vegna hækkunar á yfirdrætti ef hækkunin er framkvæmd í Landsbankaappinu eða í netbankanum og hún rúmast innan sjálfvirks lánaramma. Rúmist hækkunin ekki innan lánarammans er hægt að óska eftir hærri heimild og við hækkun yfirdráttarheimildar verður innheimt gjald að fjárhæð 790 krónur.
Eins og fyrr segir taka breytingarnar gildi 1. apríl næstkomandi.