Upptökur frá morgunfundi um hagspá komnar á Umræðuna
Upptökur, útdrættir úr erindum og glærukynningar frá morgunfundi Landsbankans 22. nóvember eru komnar á Umræðuna. Á fundinum var ný hagspá kynnt, fjallað var ítarlega um fasteignamarkaðinn og framkvæmdastjóri hjá Citigroup ræddi um arðgreiðslugetu banka og fjármagnsskipan þeirra í ljósi breytinga á regluverki.
Dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, kynnti nýja þjóðhags- og verðbólguspá deildarinnar fyrir árin 2017-2020. Hagfræðideild gerir ráð fyrir að árlegur hagvöxtur á árunum 2017-2020 verði að meðaltali 4%, sem er mun kröftugri vöxtur en reiknað er með í flestum þróuðum ríkjum á komandi árum. Samkvæmt spánni verður hagvöxtur 5,5% á þessu ári en fer svo stiglækkandi til ársins 2020 þegar gert er ráð fyrir 2,5% hagvexti. „Þrátt fyrir að boginn sé nú spenntur til hins ýtrasta hefur ekki borið mikið á merkjum ofhitnunar þótt vissulega sé talsverð spenna á vinnumarkaði og flest allir framleiðsluþættir nýttir til hins ýtrasta,“ sagði Daníel.
Ari Skúlason, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fór ítarlega yfir stöðuna á fasteignamarkaðnum og hvaða áhrif húsnæðisverð hefur á efnahagslífið. Ari ræddi m.a. um framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu og benti á að fleiri íbúðir kæmu inn á markaðinn og sölutími þeirra væri lengri. Hann benti á að þær nýju íbúðir sem hefðu komið á markaðinn væru að jafnaði stærri og dýrari, miðað við fermetraverð, en eldri íbúðir. Þetta, ásamt öðru, ylli því að ekki væri líklegt að snögg eða skörp leiðrétting yrði á húsnæðisverði. Hagfræðideild spáir 19% hækkun fasteignaverðs í ár, 8,5% á árinu 2018, 7% á árinu 2019 og 6% á árinu 2020.
Simon McGeary, framkvæmdarstjóri hjá Citigroup í London, fjallaði um fjármagnsskipan banka og áhrif breytinga í regluverki fjármálafyrirtækja á eiginfjárþörf og fjármagnsskipan banka. Í fyrirlestri sínum fór hann m.a. yfir samsetningu eiginfjár fjármálafyrirtækja og hvaða tæki og tól bankar hafa til þess að byggja upp nauðsynlegan eiginfjárgrunn miðað við það regluverk sem hefur verið innleitt á síðustu árum og mun verða innleitt á næstu árum.