Landsbankinn greiðir 11,8 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu
Landsbankinn greiddi í dag 11,8 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu. Bankinn hefur þar með greitt 24,8 milljarða króna í arð á þessu ári. Arðgreiðslurnar renna nánast að öllu leyti í ríkissjóð sem á 98,2% í bankanum, 0,3% hlutafjár skiptist á milli um 900 hluthafa og bankinn á 1,5% eigin hluti.
Tillaga bankaráðs um arðgreiðslur var samþykkt á aðalfundi bankans 22. mars sl. Annars vegar var um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2016 sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 11,8 milljarðar króna. Alls nema arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2017 um 107 milljörðum króna.
Eigið fé Landsbankans var 238,9 milljarðar króna 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 27,6% og hafði þá verið gert ráð fyrir áhrifum arðgreiðslna á árinu 2017.