Húsnæðismál
Nýtt húsnæði í Reykjastræti 6
Flutningum í nýtt húsnæði Landsbankans við Reykjastræti 6 lauk í september 2023. Við hönnun hússins var lögð áhersla á að reisa vandað, vel hannað og fallegt hús sem myndi sóma sér vel á þessum mikilvæga stað í miðborg Reykjavíkur.
Hagkvæmni og sveigjanleiki
Húsið er hagkvæmt og skipulag þess sveigjanlegt. Vinnuumhverfið er skapandi og örvandi, vel uppbyggt og hvetur til samstarfs og góðra samskipta.
Húsið skapar áhugaverð rými í miðbænum og tengist nágrenninu með góðum gönguleiðum. Það er vandað, hagkvæmt og fellur vel að umhverfi sínu.
Húsið er stallað, fimm hæðir við Geirsgötu en ein hæð næst Hörpu. Jarðhæðin er lifandi og aðlaðandi en skrifstofurými eru á efri hæðum. Hjóla- og göngurampur liggur frá Kalkofnsvegi niður í bíla- og hjólageymslu.
Fyrir framan austurhliðina eru tjarnir sem tengjast tjörnunum fyrir framan Hörpu. Næst Hörpu eru tröppur þar sem gott verður að setjast niður með útsýni yfir höfnina og sundin. Tröppurnar skapa skilyrði til útivistar og fyrir ýmiskonar viðburðahald.
BREEAM-vottun
Húsið verður umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega BREEAM-staðlinum.
BREEAM-staðallinn snýr m.a. að umhverfisstjórnun á byggingar- og rekstrartíma, góðri orkunýtingu og vatnssparnaði, vali á umhverfisvænum byggingarefnum og lágmörkun ýmiskonar mengunar frá byggingunni.
Hönnun nýja hússins hlaut í júní 2023 einkunnina „frábær“ (e. excellent) samkvæmt alþjóðlega BREEAM-umhverfisstaðlinum. Lokavottun mun fara fram þegar byggingu og frágangi verður að fullu lokið.
Bankinn nýtir um 60% hússins
Starfsemi Landsbankans í miðborginni fór áður að mestu leyti fram í leiguhúsnæði og voru húsakynnin bæði óhentug og óhagkvæm. Bankinn flutti árið 2023 starfsemi úr 12 húsum í miðborginni og úr tveimur húsum í Borgartúni. Áfram er útibú í Borgartúni 33.
Nýja húsið er í heild sinni um 21.500 fermetrar að stærð, að tæknirýmum og bílakjallara sem nýtist öllu svæðinu, meðtöldum. Skrifstofu- og þjónustuhúsnæði er um 16.500 fermetrar og af þeim mun bankinn nýta um 10.000 fermetra í Suðurhúsi (sjá mynd) en selja eða leigja frá sér um 600 fermetra á 1. hæð. Íslenska ríkið festi árið 2022 kaup á Norðurhúsinu sem er um 5.900 fermetrar að stærð en þar verður starfsemi utanríkisráðuneytis og háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Sparnaður bankans vegna flutninganna er áætlaður um 600 milljónir króna á ári.
Hönnuðir hússins eru C. F. Møller og Arkþing Nordic og er verkfræðihönnun í höndum EFLU verkfræðistofu. Innblástur verkefnisins er fjölbreytileiki íslensks klettalandslags með sínum gjótum og gjám, láréttum lögum og lóðréttu stuðlabergi. Klæðning hússins er úr íslensku blágrýti.
Styður við ný vinnubrögð og nánari samvinnu
Í húsinu er vel hugað að aðstöðu fyrir starfsfólk. Hröð tækniþróun og örar breytingar á fjármálamarkaði krefjast nýrra vinnubragða og mun nánari samvinnu og sveigjanleika innan bankans.
Vinnuaðstaðan er verkefnamiðuð og gert er ráð fyrir að starfsfólk geti fært sig til eftir því sem verkefni krefjast. Starfsfólk verður ekki með fasta vinnuaðstöðu nema í undantekningartilfellum og mun vinnuaðstaðan styðja við þá vinnu sem fer fram hverju sinni. Í húsnæði bankans eru hefðbundnar vinnustöðvar í bland við teymisvinnurými, næðisrými, félagsrými og formleg sem óformleg fundarrými. Vinnusvæði hverfast um opin miðrými en hefðbundnar vinnustöðvar eru meðfram útveggjum.