Hvern­ig kvenna­lands­lið­ið í fót­bolta varð að þjóð­ar­ger­semi

Sagnfræðingurinn og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Pálsson lítur á sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi, með stöðu knattspyrnu í Evrópu hverju sinni til hliðsjónar.
6. júlí 2022

Það vakti mikla athygli þegar Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, sendi skipuleggjendum EM 2022 tóninn og sakaði þá um óvirðingu með því að koma leikjum mótsins fyrir á of litlum leikvöngum, sem birtist meðal annars í því að uppselt var á leiki með íslenska liðinu mörgum vikum fyrir keppni. Benti hún á að síðustu misserin hefði hvert aðsóknarmetið á fætur öðru verið sett í knattspyrnu kvenna og það ætti að heyra fortíðinni til að láta sterkustu landsliðin í kvennaboltanum leika á æfingavöllum.

Vissulega var vallarvalið metnaðarlaust. Sér til málsbóta benti enska undirbúningsnefndin á að ákvarðanir um leikstaði hefðu verið teknar löngu fyrr, en í millitíðinni hefði áhugi á knattspyrnu kvenna á alþjóðavísu aukist hraðar en flesta óraði fyrir. Í öðru lagi áttu skipuleggjendurnir erfitt með að sjá fyrir að fámennasta þátttökuþjóðin á mótinu, Ísland, myndi taka með sér einn stærsta stuðningsmannahópinn og þúsundir bláklæddra Íslendinga væru á höttunum eftir miðum. Það er heillandi rannsóknarefni að kanna hvernig kvennalandslið Íslands öðlaðist svo sterka stöðu í hugum þjóðarinnar sem raun ber vitni.

Íþróttir sem sameiningartákn

Íþróttir, stjórnmál og þjóðerniskennd eru fyrirbæri sem oft tengjast nánum böndum. Upp í huga margra koma dæmi um einræðisstjórnir sem notað hafa stórar íþróttakeppnir eða eignarhald á vinsælum félögum til að bæta ímynd sína í augum umheimsins. Ótal dæmi eru um harðstjóra sem reynt hafa að lyfta sér upp á íþróttaafrekum þegna sinna og jafnvel beitt grimmilegum refsingum ef árangur stóð ekki undir væntingum.

En íþróttasagan hefur líka að geyma dæmi um að afrek á vellinum þjappi þjóðum saman á jákvæðari hátt. Óvæntur heimsmeistaratitll Vestur-Þjóðverja í knattspyrnu árið 1954 og sigur japanskra blakkvenna á Ólympíuleikunum 1960 lyftu þannig fargi af þjóðarsál beggja samfélaga eftir skömm síðari heimsstyrjaldarinnar.

Landnám íþrótta á Íslandi

Ísland er meðal þeirra landa þar sem íþróttir hafa gegnt sérstaklega mikilvægu hlutverki við uppbyggingu sjálfsmyndar og þjóðerniskenndar. Á tímabilinu frá 1906-1914 má segja að íþróttabylgja hafi skollið á íslensku samfélagi, að miklu leyti drifin áfram af þjóðernissinnuðum hugsjónum sjálfstæðisbaráttunnar.

Íþróttabyltingin í byrjun tuttugustu aldar var að miklu leyti á forsendum karla, en þó ekki einvörðungu. Konur kepptu í sundi og vetrargreinunum og í fimleikunum þóttu þær fljótlega skara fram úr. Áhugavert er að hér, líkt og í Evrópu, tók á öðrum áratugnum að bera á tilburðum kvenna til að spila fótbolta. Á Ísafirði stofnuðu árið 1914 nokkrar unglingsstúlkur Hvöt, fyrsta kvennaknattspyrnufélagið á Íslandi. Næstu misserin léku Hvatarstúlkur innbyrðis og kepptu við strákafélög í bænum. Um svipað leyti eru heimildir um stúlknaæfingar á vegum Víkings í Reykjavík. Í hvorugu tilvikinu varð mikið framhald á æfingum, meðal annars vegna neikvæðra viðbragða í umhverfinu.

Hættulegar konur

Þessar fyrstu tilraunir til kvennaknattspyrnu á Íslandi voru tilviljanakenndar og í smáum stíl. Öðru máli gegndi á Bretlandi þar sem knattspyrnulið skipuð konum drógu að sér gríðarlegan fjölda áhorfenda á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Karlarnir höfðu flestir verið kallaðir á vígstöðvarnar og ekki þótti viðeigandi að horfa á unga vopnfæra menn sparka í bolta. Fótboltaþorstinn var hins vegar enn til staðar og kvennaliðin svöluðu honum.

Þessi uppgangur átti eftir að reynast skammvinnur. Um leið og stríðinu lauk reis upp hreyfing á Bretlandi og víðar í Evrópu sem reyndi að spóla aftur til tímans fyrir stríð með því að ýta konum aftur af vinnumarkaði og inn á heimilin. Knattspyrnusambönd Evrópu gengu sérlega hart fram í þessu og börðu kvennaliðin niður harðri hendi.

Endurreisnin hefst

Upp úr miðjum sjöunda áratugnum rankaði hin alþjóðlega knattspyrnuhreyfing við sér. Flest íþróttasambönd voru farin að bjóða upp á keppni í bæði karla- og kvennaflokki. Þannig fækkaði jafnt og þétt þeim íþróttagreinum á Ólympíuleikunum þar sem einungis karlar kepptu. Aðildarsambönd í einstökum löndum voru hvött til að ýta undir knattspyrnu kvenna og KSÍ svaraði því kalli.

Það var raunar ekki alveg óþekkt að konur spörkuðu í bolta á Íslandi. Handboltakonur höfðu löngum gripið í fótbolta til að hita upp á æfingum og munu handboltastúlkur úr Fram og KR hafa mæst í fyrsta óopinbera kappleiknum árið 1968. Fjórum árum síðar var Íslandsmót kvenna haldið í fyrsta sinn.

Landslið sett á laggirnar

Haustið 1981 var ákveðið að stofna kvennalandslið Íslands. Markmiðið var að taka þátt í forkeppninni fyrir fyrsta Evrópumótið árið 1984. Fyrsti leikurinn var 3:2 tap gegn Skotum í Glasgow, í viðureign sem fram fór við mjög frumstæðar aðstæður. Í undankeppninni árið eftir lenti í Ísland í riðli með hinum Norðurlöndunum sem reyndust ofjarlar á öllum sviðum.

Eftir þessa brösóttu byrjun var nokkur bið í að Ísland freistaði þess aftur að taka þátt í forkeppni stórmóts. Í staðinn var látið nægja að leika stopula vináttuleiki. Himinn og haf var á milli umgjarðar kvenna- og karlalandsliðsins. Fjölmiðlaumfjöllun var í skötulíki og áhorfendur fáir. Frá 1987 til 1992 lék Ísland engan A-landsleik kvenna. Þessi kreppa í kvennaboltanum var ekki bundin við Ísland. Víða í Evrópu börðust kvennalandslið í bökkum og stór Evrópulönd sendu ekki lið í forkeppni EM, þar á meðal nær öll Austur-Evrópuríkin.

Auglýsingar hitta í mark

Ísland tók á nýjan leik þátt í forkeppni EM 1993 og hefur ekki látið sig vanta síðan. Í fyrstu voru líkurnar á að komast í úrslitakeppnina sáralitlar, enda var þar aðeins um að ræða fjögurra liða keppni. Með tímanum var þátttökuliðum þó fjölgað, fyrst í átta, þá tólf og loks sextán eins og nú er.

Upp úr aldamótum tóku úrslit landsliðsins að batna jafnt og þétt. Upp var komin kröftug kynslóð knattspyrnukvenna sem fangaði athygli íþróttaáhugafólks. Rökrétt er að tengja eflingu kvennaboltans við þau tækifæri sem hann veitti stúlkum til náms á íþróttastyrk við bandaríska háskóla og æfa þar við toppaðstæður. Eiginleg atvinnumennska í kvennaknattspyrnu var varla komin til sögunnar í Evrópu.

Haustið 2001, fyrir upphafsleikinn í forkeppni HM 2003, ákvað landsliðshópurinn að hrista rækilega upp í umræðunni. Liðið birti heilsíðuauglýsingu í dagblöðum undir yfirskriftinni „Stelpuslagur“, þar sem leikmenn stilltu sér upp í sundfötum. Óhætt er að segja að allt hafi farið á annan endann og hart var deilt um hvort um væri að ræða snjalla markaðssetningu eða óheppileg skilaboð. Fyrir næstu leiki hélt liðið áfram að bregða á leik, með því að sitja fyrir í klæðnaði sem kallaðist á við þjóðerni næstu mótherja.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Aðsókn á leiki landsliðsins glæddist mjög og fjölmiðlaumfjöllun sömuleiðis. Ekki er þó hægt að skrifa þá niðurstöðu alfarið á snjalla auglýsingahönnuði. Ísland skaut bæði Ítölum og Spánverjum aftur fyrir sig og komst í fjögurra liða umspil um eitt laust sæti í úrslitakeppninni. Þar tapaði liðið naumlega fyrir Englendingum og enn í dag hefur Íslandi ekki auðnast að komast í úrslitakeppni HM kvenna.

Ísinn brotinn

Fjölgun keppnisliða á EM 2009 úr átta í tólf voru góð tíðindi fyrir íslenska liðið. Annað sætið í undankeppnisriðlinum gaf umspilsleiki við Írland um farseðil til Finnlands. Eftir jafntefli í Dyflinni mættust liðin á hálffrosnum Laugardalsvelli þann 30. október. Aðstæður til fótboltaiðkunar voru í raun óboðlegar en Íslendingar unnu 3:0 sigur með mörkum Dóru Maríu Lárusdóttur og Margrétar Láru Viðarsdóttur. Íslenskt A-landslið var komið í úrslit stórmóts í fyrsta sinn!

Íslenska liðið hélt stigalaust heim frá Helsinki, en reynslunni ríkara. Þrátt fyrir töpin þrjú var frammistaðan ágæt, þannig tapaðist leikurinn gegn Evrópumeistaraefnum Þjóðverja 0:1, en þýska liðið skoraði fleiri mörk í öllum öðrum leikjum sínum á mótinu. Kvikmyndagerðarkonan Þóra Tómasdóttir fylgdi liðinu eftir alla leið og bjó til minnisstæða heimildarmynd um ævintýrið.

Frá því í Finnlandi 2009 hefur Ísland verið fastagestur í úrslitakeppni EM. Í Svíþjóð fór liðið í 8-liða úrslit, en mætti þar ofjörlum sínum í liði heimamanna. Það er enn í dag besti árangur landsliðsins. Ekki tókst eins vel upp í Hollandi fjórum árum síðar. Þar hafði Ísland tryggt sér sætið með því að vinna sinn riðil í forkeppninni og þurfti því ekki að fara í gegnum umspil. Tap eftir mark úr ódýrri vítaspyrnu undir blálokin í fyrsta leiknum gegn Frökkum virtist taka vindinn úr seglum liðsins og það fór heim stigalaust. Athygli vakti þó hinn mikli fjöldi áhorfenda sem fylgdi íslenska liðinu, sem skaut ref fyrir rass þjóðum sem áttu um miklu styttri veg að fara.

Íslenska leiðin

Það er mikið afrek að íslenska landsliðið hafi nú komist í úrslitakeppni EM fjögur skipti í röð. Þetta gerist á sama tíma og kvennaboltinn er gríðarlega hröðum vexti á alþjóðavísu. Þá þróun má að hluta til rekja til þess að það varð metnaðarmál fyrir stóru félögin í Evrópu að geta einnig teflt fram kvennaliðum í fremstu röð. Þær ákvarðanir byggðust minnst á félagslegri meðvitund stóru félaganna, heldur á köldu hagsmunamati þar sem þeim varð ljóst að umtalsverður hópur stuðningmanna kallaði eftir kvennaliðum.

Í þessum efnum eru hinar stóru knattspyrnuþjóðir Evrópu töluvert á eftir Norðurlöndunum, þar sem það viðhorf hefur lengi verið ríkjandi að það sé álitshnekkir fyrir knattspyrnufélög að tefla ekki fram bæði karla- og kvennaliði. Hér skiptir máli að norræn knattspyrnufélög eru almennt ekki fyrirtæki í einkaeigu, heldur samfélagslegar stofnanir sem eru öðrum þræði hálf-opinberar stofnanir þegar kemur að fjármögnun og uppbyggingu aðstöðu, en á sama tíma bornar uppi með ómældri sjálfboðavinnu sem lendir að miklu leyti á herðum fáeinna fjölskyldna og fólks sem myndar tengsl við félögin í gegnum æfingar barna sinna.

Á Íslandi er þátttökuhlutfall barna og unglinga í knattspyrnu – drengja jafnt sem stúlkna – hærra en annars staðar gerist. Skipulagning tómstunda og sumarfría utan um fótboltaiðkun ungviðisins er orðinn sjálfsagður hluti af lífsstíl drjúgs hluta íslensku millistéttarinnar. Í þennan foreldrahóp sækir knattspyrnuhreyfingin bakhjarla sína og sjálfboðaliða, en þessi hópur lætur heldur ekki bjóða sér upp á að kvennaboltinn sé afskiptur og að stúlkur í íþróttinni hafi ekki fyrirmyndir til að horfa til.

Þó fráleitt sé að tala um að kynjajafnrétti ríki í íslenskum íþróttum, þá er staða kvennagreinanna sterkari hér en víðast annars staðar. Fjölmiðlaumfjöllun um knattspyrnu kvenna er mikil í alþjóðlegum samanburði, hvort sem horft er til fjölda útsendinga eða frétta. Bestu knattspyrnukonurnar eru í hópi frægasta íþróttafólks landsins og sá fjöldi stuðningsmanna sem fylgir þeim á stórmótum er í frásögur færandi – eins og skipuleggjendur EM á Englandi hafa nú eftirminnilega rekið sig á.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Edda Garðarsdóttir
8. júlí 2022
Einstök liðsheild kvennalandsliðsins
Fyrrverandi landsliðskonan og EM-farinn Edda Garðarsdóttir skrifar hér grein um hvað það er sem skapar góða liðsheild – og hvernig sú liðsheild sem ríkir innan kvennalandsliðsins er höfuðástæða fyrir árangri liðsins í gegnum árin.
Fjölskylda úti í náttúru
20. des. 2023
Hvað á að borga fyrir barnapössun?
Stundum þurfa foreldrar að skreppa eða geta ekki sótt börn á réttum tíma vegna vinnu eða náms. Frí í skólum eru líka lengri en sumarfrí foreldra og sumarnámskeið eru yfirleitt styttri en vinnudagur. Því þarf stundum að redda pössun. En hvað á að borga á tímann fyrir barnapössun?
10. júní 2022
Hafðu bankann í vasanum í sumarfríinu
Þú getur nýtt þér nánast alla þjónustu bankans í símanum og tölvunni. Í þessari grein er fjallað um nokkrar algengustu aðgerðirnar í appinu og netbankanum sem geta komið sér vel í sumarfríinu.
Evrópsk verslunargata
2. maí 2023
Góð ráð um kortanotkun og greiðslur í útlöndum
Við mælum með að fólk greiði með snertilausum hætti þegar það er á ferðalagi erlendis, annað hvort með Apple Pay, Google Pay eða með því að nota snertilausa virkni kreditkorta. Það er samt enn nauðsynlegt að taka kortin sjálf með í ferðalagið.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur