Fátt hefur glætt daga mína meiri gleði í gegnum tíðina en að fá að vera partur af alls kyns hópum, stórum sem smáum. Ég leyfi mér að fullyrða að það, að tilheyra hóp, er eitthvað sem við sækjum öll í, hvort sem við gerum það meðvitað eða ekki. Þeir hópar sem mest gefandi er að tilheyra eru ekki endilega hóparnir sem ná besta árangrinum, heldur þeir hópar þar sem sterk tenging myndast á milli einstaklinga. Eitt sterkasta dæmi um þetta sem ég hef upplifað var með landsliðinu í fótbolta.
Saga íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu er saga einstakrar liðsheildar, og er árangur liðsins bein afleiðing hennar. Menningin sem hefur fengið að blómstra innan íslenskrar kvennaknattspyrnu, bæði í yngri flokkum og upp í sterkustu deildirnar, einkennist af sterkum einstaklingum og leiðtogum, virðingu, trausti, stórum draumum og sameiginlegum markmiðum – öllu því sem síðan leggur grunninn að sterkri liðsheild innan landsliðsins. Þessi gildi hafa styrkst enn meir með tímanum, þar sem bæst hafa við hvetjandi fyrirmyndir og stuðningur frá samfélaginu, sem fer vaxandi með hverju stórmótinu.
Hvað gerir góða liðsheild?
Einstaklingar með ólíka styrkleika gefa heildinni breidd, og samspil þeirra gerir summuna stærri en hvern lið fyrir sig. Út á við virðist fyrirliðinn draga vagninn en liðið með öflugustu liðsheildina hefur marga ólíka leiðtoga. Einn léttir andann í klefanum, annar dregur vagninn þegar erfiðleikar banka upp á, þriðji passar upp á að enginn gleymist, sá fjórði er traust vinkona þegar eitthvað bjátar á. Þetta er ekki tæmandi listi og sum geta tekið að sér fleiri en eitt hlutverk á listanum. Það er þarna sem fyrirmyndir verða til; þegar ólíkir en eftirsóknarverðir eiginleikar sterkra einstaklinga koma í ljós og fylla fólkið í kringum þá af eldmóði og vilja til að verða betri. Þegar við fáum öll að upplifa sameiginlega ábyrgð á liðsheildinni myndast traust okkar á milli. Þá fyrst getum við farið raunverulega að trúa á sameiginlegt markmið liðsins. Þá getum við leyft okkur að dreyma stóra drauma – og þá kemst smáþjóð á stórmót.
Stelpurnar okkar
Lokakeppni EM í fótbolta er að hefjast. Íslenska liðið samanstendur af 23 gífurlega sterkum leikmönnum, öflugu þjálfarateymi, sjúkrateymi, liðsstjórn og öðru starfsfólki knattspyrnusambandsins. Öll íslenska þjóðin mun fylgjast með gengi landsliðsins nær og fjær. Heitasta stuðningssveit íslenska landsliðsins flýgur til Englands í byrjun júlí með vonir um velgengni og fallegan fótbolta í farteskinu. Við vitum eitt fyrir víst, við stöndum með ykkur, hvernig sem viðrar.
Kæru landsliðskonur á EM 2022!
Þegar þið gangið út á völlinn, hvort sem þið eruð í byrjunarliðinu eða ekki, leyfið okkur öllum að sjá og finna að þið eruð sterkasta liðsheild sem hefur nokkurn tíma farið á EM fyrir Íslands hönd. Ég vil sjá einbeitingu, ég vil sjá allar njóta sín, ég vil sjá samvinnu, ég vil finna traustið á milli ykkar í beinunum og ég vil sjá ólíka leiðtoga innan liðsins passa að allar haldi sér við efnið. Þið vitið að þið hafið burði til þess að setja stefnuna hátt. Aldrei hætta.
Edda er fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu og hópstjóri á Upplýsingatæknisviði Landsbankans.