Aldrei of snemmt að byrja að spara
![](https://images.prismic.io/landsbankinn/f76b6d49-7771-4c2f-baa1-21b86852562f__A8A1324-1920.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,100,1920,1080&q=50)
Þegar kemur að því að taka bílpróf eða kaupa bíl, hefja framhaldsnám, ferðast eða jafnvel kaupa fyrstu íbúðina getur sparnaðurinn skipt verulegu máli. En það getur verið erfitt að komast í gang. Hér eru nokkur einföld sparnaðarráð til að koma sparnaðarmálunum á hreyfingu.
- Ef þú veist fyrir hverju þú ætlar að spara er gott að setja sér markmið. Hvað þarf ég að spara mikið og hve lengi til að ná markmiðum mínum?
- Þú getur byrjað að spara reglulega og látið það gerast sjálfvirkt í hverjum mánuði í appinu og netbankanum. Það er aldrei of snemmt að byrja að spara og engin fjárhæð er of lág.
- Getur þú hjólað eða gengið í vinnu eða skóla í stað þess að borga í strætó eða eiga og reka bíl?
- Ertu í námi? Getur þú farið með nesti í skólann frekar en að kaupa mat í skólanum eða sjoppunni? Svo getur þú líka sparað með því að drekka vatn með nestinu.
- Þú getur líka ákveðið að setja allar peningagjafir eða tiltekinn hluta af þeim, t.d. helminginn, alltaf í sparnað. Peningagjafir geta t.d. verið fermingar-, afmælis- eða útskriftargjafir, eða eitthvað slíkt.
- Frá 16 ára aldri geta allir sem eru í vinnu nýtt sér viðbótarlífeyrissparnað. Ef þú greiðir 2-4% af heildarlaunum í viðbótarlífeyrissparnað þá færðu aukalega 2% af laununum þínum frá vinnuveitanda sem mótframlag. Þessi 2% eru peningar sem þú fengir annars ekki. Þú getur síðan nýtt þér viðbótarlífeyrissparnaðinn til þess að kaupa þína fyrstu íbúð. Það getur því margborgað sig að skrá sig sem fyrst í viðbótarlífeyrissparnað.
- Tilboð og fríðindakerfi eru góð leið til að kaupa hluti eða greiða fyrir þjónustu á lægra verði. Hefurðu athugað hvaða fríðindakerfi bjóðast?
2.500 krónur á viku = 650.000 krónur á fimm árum
Það á við um sparnað eins og svo margt fleira að margt smátt gerir eitt stórt. Ef þú getur sparað 2.500 krónur (u.þ.b. andvirði einnar skyndibitamáltíðar) á viku í eitt ár hefur þú sparað samtals 130.000 krónur. Á fimm árum hefur sú upphæð hækkað í 650.000 krónur.
Þegar byrjað er að spara og fjárhæðin hækkar verður það oftast til þess að maður vill gera enn betur; fara að eyða í sparnað frekar en að kaupa sér hluti sem maður þarfnast ekki eða eyða í óþarfa. Vantar mig virkilega hlutinn? Vil ég eyða peningnum núna, frekar en að nota hann seinna í eitthvað sem nýtist betur og veitir meiri ánægju?
Finnum réttu sparnaðarleiðina fyrir þig
Við bjóðum upp á margar leiðir til að hjálpa þér að spara. Þú getur líka pantað tíma í ráðgjöf þegar þér hentar.
Hvort sem þú vilt spara til lengri eða skemmri tíma getur þú fundið reikning sem hentar þér. Við bjóðum verðtryggða, óverðtryggða, bundna og óbundna reikninga.
Í netbankanum er einfalt að gerast áskrifandi að verðbréfasjóðum.
Það er auðvelt að byrja að spara í appinu. Þar getur þú líka stofnað sameiginlegan sparnaðar með fjölskyldu eða vinum og saman getið þið fylgst með sparnaðnum vaxa.
Þú getur stofnað viðbótarlífeyrissparnað hjá Íslenska lífeyrissjóðnum á vefnum okkar.
![Ungt fólk](https://images.prismic.io/landsbankinn/39075352-2452-418a-b14a-df19eb0fe15b_LB_Ungtfolk_5U3A5095.jpg?fit=max&w=3840&rect=107,0,1707,1280&q=50)
![Maður við tölvu](https://images.prismic.io/landsbankinn/0f1e7e25-8851-4ef1-aea7-63b87a17b564_LB_Oli_Tanja_1362_large2400x1601.jpg?fit=max&w=3840&rect=134,0,2135,1601&q=50)
![Maður hleður farangri í bíl](https://images.prismic.io/landsbankinn/75c6c87b-62c6-4172-9230-0fce7ae8aff5_1920px+LB_Eilifsdalur_RIM0007.jpg?fit=max&w=3840&rect=107,0,1708,1281&q=50)