Lít­il þörf en mik­il eft­ir­spurn

Miðað við stöðuga mannfjöldaþróun þurfa um 1.700 íbúðir að komast á það byggingarstig að verða fokheldar á ári hverju til þess að mæta þörf. Á síðustu tveimur árum hafa yfir 3.000 íbúðir komist á það stig á ári hverju. Við sjáum ekki merki um mikla uppsafnaða þörf fyrir nýjar íbúðir um þessar mundir þó íbúðasala sé mikil og verð hækki. Það er vegna þess að eftirspurn, sem er ekki það sama og þörf, hefur aukist mikið m.a. vegna vaxtalækkana. Sú eftirspurn getur þó allt eins horfið jafn fljótt og hún birtist ef aðstæður breytast eða aðrir fjárfestingakostir verða ákjósanlegri fyrir einstaklinga.
Fasteignir
27. apríl 2021 - Greiningardeild

Fyrir um ári síðan hóf Seðlabankinn að lækka vexti sem viðbragð við þeirri kreppu sem heimsfaraldurinn olli. Það skilaði sér m.a. í formi lægri vaxta á íbúðalánum til almennings og við það jókst svigrúm margra til íbúðakaupa. Viðbrögðin voru ef til vill meiri en nokkurn óraði fyrir. Íbúðasala hefur aukist verulega, sölutími styst og sífellt algengara er að íbúðir seljist yfir ásettu verði. Í mars voru 57% fleiri kaupsamningar undirritaðir en í marsmánuði í fyrra og íbúðaverð hækkaði um 1,6% milli mánaða, sem er mesta hækkun milli mánaða síðan 2017.

Þjóðskrá birti í gær gögn um hverjir eiga viðskipti með íbúðarhúsnæði og eins upplýsingar um hlutfall fyrstu kaupenda. Svo virðist sem í langflestum tilfellum séu það einstaklingar sem hafa verið að selja öðrum einstaklingum, fyrirtæki virðast umsvifalítil á þessum markaði og hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið hærra. 33% viðskipta á fyrsta fjórðungi ársins á höfuðborgarsvæðinu voru vegna fyrstu kaupa og hefur hlutfallið aukist nær stöðugt frá upphafi gagnasöfnunar. Þetta er vísbending um að vel hafi tekist að auka framboð og mæta þörfum þeirra sem vilja komast inn á eigendamarkað, þrátt fyrir að oft á tíðum heyrist umræða um annað.

Í fyrra og árið 2019 skiluðu yfir 3.000 íbúðir sér á markað á byggingarstigi 4 (fokhelt) eða hærra á hvoru ári fyrir sig, samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Aðeins þrisvar áður hefur það gerst frá aldamótum og það voru hin miklu uppbyggingarár 2006-2008. Það var mat margra að þá hefði of mikið verið fjárfest í íbúðarhúsnæði og var sáralítið byggt á árunum sem á eftir fylgdu.

Það er mikilvægt að sagan endurtaki sig ekki og til þess að meta hvort byggingarmagn sé í takt við þörf getur reynst gagnlegt að skoða fjölda íbúa á hverja íbúð. Frá 2019 hefur fjöldi íbúa á íbúð dregist stöðugt saman milli ára þar sem fjölgun íbúða hefur verið hraðari en mannfjöldaaukning. Þetta mætti túlka sem svo að íbúðaþörf hafi dregist saman á síðustu árum.

Það kann að koma mörgum á óvart að íbúðaþörf sé að dragast saman á tímum þar sem íbúðir seljast hraðar en áður og verð hækkar. Það er vegna þess að það eru kraftar sem eru yfirleitt sterkari en mannfjöldaaukning sem ráða eftirspurn og þar með verðþróun á markaði. Núna eru það vaxtalækkanir, aukinn sparnaður og ef til vill skortur á öðrum fjárfestingarkostum sem drífa fasteignakaup áfram.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Lítil þörf en mikil eftirspurn (pdf)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Byggingakrani og fjölbýlishús
29. apríl 2021
Framboð af íbúðum virðist mæta þörf – óvíst með eftirspurn
Opinber gögn benda til þess að nú sé mögulega verið að byggja umfram árlega þörf á íbúðamarkaði út frá mannfjöldaþróun. Hvort verið sé að byggja í takt við eftirspurn er hins vegar óvíst. Eftirspurn hefur aðallega aukist eftir stærri og dýrari sérbýliseignum sem eru sjaldgæfari í byggingu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur