Eftir tímabil kröftugs hagvaxtar í kjölfar faraldursins er nú komið að kaflaskilum. Við spáum mjög takmörkuðum hagvexti á næstu árum og teljum að hann verði 0,9% í ár, 2,2% á næsta ári og loks 2,6% árið 2026. Hátt vaxtastig mun letja hagvöxt þar sem neysla einstaklinga verður minni en ella og ýmsum fjárfestingarverkefnum verður slegið á frest þar til vextir lækka. Við spáum því að fjármunamyndun aukist aðeins um 0,1% á þessu ári og einkaneysla um 0,9%. Við spáum áfram vexti í ferðaþjónustu, þó það hægi talsvert á honum og að á næstu árum fjölgi ferðamönnum sem hingað koma um 3-4% árlega.
Peningastefnunefnd Seðlabankans hittist síðast í mars og sló heldur harðari tón en við höfðum gert ráð fyrir. Í yfirlýsingu nefndarinnar kom fram að enn væri bið eftir skýrum vísbendingum um að verðbólga væri augljóslega á niðurleið. Við spáum því að verðbólga hjaðni hægt á næstu mánuðum og stýrivextir verði ekki lækkaðir fyrr en í október.
Heldur rofar til þegar líður á spátímann. Við spáum því að verðbólga hjaðni og verði komin niður í 5,5% á fjórða fjórðungi þessa árs og að á sama tíma hefjist vaxtalækkunarferli sem haldi áfram út spátímann. Ýmsir þættir sem hafa áhrif á verðbólguna þurfa þó að þróast á hagstæðan hátt til þess að spáin gangi eftir og peningastefnunefnd sjái sér fært að lækka vexti. Það á eftir að semja við stóran hluta vinnumarkaðarins og eins á eftir að koma í ljós hversu vel stjórnvöldum tekst að koma í veg fyrir að aukin útgjöld kyndi undir verðbólgu.
Sem fyrr er spáin óvissu háð. Má þar nefna ófrið og stríðsrekstur sem gæti haft áhrif á efnahag ýmissa viðskiptalanda okkar og þar með okkar. Þar að auki standa eldsumbrot á Reykjanesskaga enn yfir og gætu ógnað innviðum á svæðinu og haft áhrif á ferðaþjónustu þar.
Helstu niðurstöður:
- Spáin gerir ráð fyrir samfelldum hagvexti næstu ár, 0,9% á þessu ári, 2,2% á því næsta og loks 2,6% árið 2026.
- Verðbólga verður þrálát og mælist að jafnaði 6% í ár gangi spáin eftir en lækkar svo í 4,4% árið 2025 og 3,5% árið 2026. Við spáum því að vaxtalækkunarferlið hefjist ekki fyrr en á fjórða fjórðungi þessa árs en haldi áfram út spátímann.
- Við teljum að háir vextir haldi áfram að halda aftur af einkaneyslu en þó færist meiri kraftur í hana en á síðasta ári, þegar hún jókst aðeins um 0,5%. Samkvæmt spánni eykst einkaneysla um 0,9% í ár, 1,8% á næsta ári og um 2,5% árið 2026. Samneysla eykst líka smám saman öll árin, um á bilinu 1,5-1,9% á ári.
- Við búumst við 2,3 milljónum ferðamanna í ár, 2,4 milljónum árið 2025 og 2,5 milljónum árið 2026. Alls mun útflutningur aukast um 2,9% í ár, gangi spáin eftir.
- Við gerum ráð fyrir hægfara styrkingu krónunnar og að evran muni kosta 148 krónur í lok þessa árs og 146 í lok árs 2025.
- Við spáum lítils háttar afgangi af viðskiptum við útlönd út spátímann þar sem afgangur af þjónustujöfnuði vegur upp á móti halla á vöruskiptum.
- Laun hafa hækkað skarpt undanfarin ár, bæði vegna ríflegra samningsbundinna hækkana en einnig vegna launaskriðs. Nú í vor náðust samningar á stórum hluta vinnumarkaðar um hóflegri launahækkanir og við gerum ráð fyrir 6,6% hækkun launa í ár, 6,1% á næsta ári og 5,5% árið 2026. Kaupmáttur mun því aukast öll árin.
- Atvinnuleysi gæti aukist lítillega eftir því sem hægir á eftirspurn og dregur úr spennu á vinnumarkaði. Við spáum því að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 4% á þessu ári, 4,2% á því næsta og 3,9% árið 2026.
- Við teljum að verðbólga hafi náð hámarki en hjaðni hægt og fari ekki niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans fyrr en á þarnæsta ári.
- Stýrivextir verða ekki lækkaðir fyrr en á fjórða fjórðungi þessa árs, gangi spá okkar eftir. Við teljum að með nokkuð jöfnu vaxtalækkunarferli verði þeir komnir niður í 4,25% undir lok spátímans.
- Fjármunamyndun færist í aukana eftir því sem líður á spátímann og vaxtastigið lækkar. Alls eykst fjármunamyndun aðeins um 0,1% í ár en um 2,0% á næsta ári og 3,3% árið 2026.
- Eftirspurnarþrýstingur virðist nokkur á íbúðamarkaði þrátt fyrir háa vexti og gerum við því ráð fyrir að íbúðaverð mælist að jafnaði 7% hærra í ár en í fyrra. Á næsta ári spáum við 8,8% hækkun íbúðaverðs og 7,7% hækkun árið 2026.
Yfirlit yfir hagsspá Hagfræðideildar Landsbankans
Landsframleiðsla og helstu undirliðir hennar | Ma. kr. | Magnbreytingar frá fyrra ári (%) | |||
---|---|---|---|---|---|
2023 | 2023 | 2024 | 2025 | 2026 | |
Verg landsframleiðsla | 4.279 | 4,1 | 0,9 | 2,2 | 2,6 |
Einkaneysla | 2.139 | 0,5 | 0,9 | 1,8 | 2,5 |
Samneysla | 1.098 | 2,2 | 1,6 | 1,5 | 1,9 |
Fjármunamyndun | 1.014 | -0,6 | 0,1 | 2,0 | 3,3 |
- Atvinnuvegafjárfesting | 656 | 0,9 | 0,7 | 2,0 | 2,8 |
- Fjárfesting í íbúðarhúsnæði | 196 | -0,3 | -1,0 | 3,0 | 6,0 |
- Fjárfesting hins opinbera | 163 | -6,1 | -1,0 | 1,0 | 2,0 |
Þjóðarútgjöld alls | 4.281 | 1,2 | 0,2 | 1,8 | 2,5 |
Útflutningur vöru og þjónustu | 1.856 | 4,8 | 2,9 | 3,1 | 3,0 |
Innflutningur vöru og þjónustu | 1.858 | -1,4 | 1,2 | 2,2 | 2,8 |
Stýrivextir og verðbólga | |||||
---|---|---|---|---|---|
2023 | 2024 | 2025 | 2026 | ||
Meginvextir SÍ, 7 daga bundin innlán, lok árs % | 9,25 | 8,75 | 6,0 | 4,25 | |
Verðbólga, ársmeðaltal, % | 8,7 | 6,0 | 4,4 | 3,5 | |
Gengi evru, lok árs | 150,5 | 148,0 | 146,0 | 145,0 | |
Fasteignaverð, ársmeðaltal, % | 5,1 | 7,0 | 8,8 | 7,7 |
Vinnumarkaður | |||||
---|---|---|---|---|---|
2023 | 2024 | 2025 | 2026 | ||
Vísitala launa, ársmeðaltal, % | 9,8 | 6,6 | 6,1 | 5,5 | |
Kaupmáttur launa, ársmeðaltal, % | 0,9 | 0,6 | 1,6 | 2,0 | |
Atvinnuleysi, ársmeðaltal, % | 3,3 | 4,0 | 4,2 | 3,9 |
Viðskiptajöfnuður | |||||
---|---|---|---|---|---|
2023 | 2024 | 2025 | 2026 | ||
Fjöldi erlendra ferðamanna, þúsund manns | 2.224 | 2.300 | 2.400 | 2.500 | |
Vöru- og þjóustujöfnuður, %VLF | -0,1 | 0,8 | 0,5 | 0,6 | |
Viðskiptajöfnuður, %VLF | 1,0 | 0,6 | 0,3 | 0,3 |
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.