Þjóðhags- og verðbólguspá 2022-2024
Hagvöxtur í skugga verðbólgu
Allt gerist þetta þó í skugga hörmulegs stríðs sem nú geisar í Evrópu. Sem betur fer eru afleiðingar stríðsins léttvægar hér á landi og birtast fyrst og fremst í aukinni verðbólgu. Afleiðingar meiri og þrálátari verðbólgu munu setja svip sinn á komandi misseri en við gerum ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni bregðast við þeirri stöðu með verulegum vaxtahækkunum út þetta ár. Lausir kjarasamningar á sama tíma og verðbólgudraugurinn herjar á landann gera stöðuna talsvert flókna. Við gerum ráð fyrir hægum vexti kaupmáttar á spátímanum sem mun draga úr neysluaukningunni, sem engu að síður helst nokkuð sterk, meðal annars vegna sparnaðar sem safnaðist upp í faraldrinum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í hagspá Hagfræðideildarinnar sem nær til ársloka 2024.
Helstu niðurstöður:
- Við gerum ráð fyrir að landsframleiðslan hér á landi aukist um 5,1% á árinu 2022. Útflutningur eykst um 19,4%, einkaneysla um 3,5% og heildarfjármunamyndun um 6,2%. Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu tvö árin, 3,7% á næsta ári og 2,8% árið 2024.
- Við gerum ráð fyrir um 1,5 milljónum erlendra ferðamanna í ár, 2 milljónum á næsta ári og um 2,4 milljónum árið 2024.
- Það mun draga úr atvinnuleysi eftir því sem líður á árið og næstu ár en útlit er fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 4,5% á þessu ári, lækki í 4,2% á næsta ári og verði 3,9% árið 2024.
- Gert er ráð fyrir að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um að meðaltali 0,7% af landsframleiðslu á spátímanum.
- Verðbólgan mun ná hámarki á þriðja ársfjórðungi og verður yfir markmiði Seðlabankans (2,5%) út spátímann. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 7,4% í ár, 5,8% á næsta ári og 4% árið 2024.
- Spáin gerir ráð fyrir að stýrivextir muni hækka talsvert á þessu ári og verði 6% í árslok. Á næsta ári gætum við byrjað að sjá vaxtalækkanir og spáum við því að stýrivextir verði 5,5% við árslok 2023 og 4% í lok árs 2024.
- Íbúðaverð hefur hækkað mikið. Við gerum ráð fyrir að nokkurs konar þolmörkum hafi verið náð og að nú megi búast við hægari vexti. Við gerum ráð fyrir 20% hækkun í ár, milli ársmeðaltala, 8% á næsta ári og 4% árið 2024.
- Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á að draga úr hallarekstri ríkissjóðs á spátímanum. Það gerir það að verkum að við spáum nokkuð hægum vexti samneyslu, eða 1,5% árlega, út spátímann.
Kröftugur hagvöxtur en áskoranir þó miklar
Efnahagsbatinn sem hófst í fyrra heldur áfram á þessu ári og gerum við ráð fyrir myndarlegum hagvexti í ár og áfram út spátímann. Ýmsar áskoranir fylgja þó hagvaxtarskeiði sem þessu. Framleiðsluspenna hefur myndast, fyrirtæki finna fyrir vöntun á starfsfólki og verðbólguþrýstingur er mikill. Við gerum ráð fyrir að það takist að kæla hagkerfið með vaxtahækkunum næstu misserin, þó þannig að eftirspurn haldist sterk og hagvöxtur verði áfram til staðar. Hagvöxtur verður drifinn áfram af vexti útflutnings gangi spár okkar um fjölda ferðamanna eftir. Sem fyrr er þó mikil óvissa sem umlykur þessa spá. Innanlands snýr hún aðallega að stöðunni á vinnumarkaði og verðbólguþróun. Erlendis ríkir mikil óvissa um framvindu stríðsins í Úkraínu og áhrif þess á hrávöruverð, verðbólgu og kaupmátt þeirra ferðamanna sem hingað koma.
Yfirlit yfir þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans
Landsframleiðsla og helstu undirliðir hennar | Í ma. kr. | Magnbreytingar frá fyrra ári (%) | |||
---|---|---|---|---|---|
2021 | 2021 | 2022 | 2023 | 2024 | |
Verg landsframleiðsla | 3.233 | 4,3 (5,1) | 5,1 (5,5) | 3,7 (1,7) | 2,8 (2,0) |
Einkaneysla | 1.671 | 7,6 (5,0) | 3,5 (4,5) | 3,0 (3,0) | 3,0 (3,0) |
Samneysla | 887 | 1,8 (2,0) | 1,5 (1,5) | 1,5 (1,5) | 1,5 (1,5) |
Fjármunamyndun | 739 | 13,6 (10,8) | 6,2 (3,1) | 5,1 (1,9) | 2,2 (2,4) |
Atvinnuvegafjárfesting | 429 | 23,1 (14,3) | 5,0 (6,2) | 5,4 (1,2) | 3,0 (3,0) |
Fjárfesting í íbúðarhúsnæði | 177 | -4,4 (-2,0) | 10,0 (2,0) | 8,0 (5,0) | 2,0 (2,5) |
Fjárfesting hins opinbera | 132 | 12,4 (20,0) | 5,0 (-5,0) | 0,0 (0,0) | 0,0 (0,0) |
Þjóðarútgjöld alls | 3.302 | 7,2 (5,4) | 3,4 (3,4) | 3,1 (2,4) | 2,4 (2,5) |
Útflutningur vöru og þjónustu | 1.233 | 12,3 (18,0) | 19,4 (16,8) | 7,5 (1,0) | 7,2 (5,3) |
Innflutningur vöru og þjónustu | 1.302 | 20,3 (18,5) | 14,3 (11,0) | 6,0 (2,5) | 6,5 (6,5) |
Stýrivextir og verðbólga | |||||
---|---|---|---|---|---|
2021 | 2022 | 2023 | 2024 | ||
Meginvextir Seðlabanka Íslands (7 daga bundin innlán, lok árs %) | 2,00 (1,75) | 6,00 (3,25) | 5,50 (4,25) | 4,00 (3,50) | |
Verðbólga (ársmeðaltal, %) | 4,4 (4,4) | 7,4 (3,5) | 5,8 (2,7) | 4,0 (2,6) | |
Gengi evru (lok árs) | 148 (148) | 132 (143) | 130 (139) | 128 (137) | |
Fasteignaverð (ársmeðaltal, %) | 14 (14) | 20 (9) | 8 (4) | 4 (5) |
Vinnumarkaður | |||||
---|---|---|---|---|---|
2021 | 2022 | 2023 | 2024 | ||
Vísitala launa (ársmeðaltal, %) | 8,3 (7,9) | 7,5 (6,8) | 6,8 (5,8) | 6,2 (4,6) | |
Kaupmáttur launa (ársmeðaltal, %) | 3,7 (3,4) | 0,1 (3,2) | 0,9 (3,0) | 2,2 (1,9) | |
Atvinnuleysi (ársmeðaltal, %) | 7,7 (7,7) | 4,5 (4,7) | 4,2 (4,1) | 3,9 (3,5) |
Viðskiptajöfnuður | |||||
---|---|---|---|---|---|
2021 | 2022 | 2023 | 2024 | ||
Fjöldi erlendra ferðamanna (þúsund manns) | 688 (720) | 1.500 (1.500) | 2.000 (1.800) | 2.400 (2.100) | |
Vöru- og þjóustujöfnuður (%VLF) | -2,1 (0,1) | 0,9 (4,0) | 1,0 (2,8) | 0,9 (1.9) | |
Viðskiptajöfnuður (%VLF) | -2,8 (0,6) | 0,6 (4,1) | 0,7 (2,9) | 0,7 (2,1) |
Tölur innan sviga eru spá Hagfræðideildar frá október 2021
Útlit fyrir mikla og þráláta verðbólgu
Verðbólguhorfur bæði innanlands og erlendis hafa gjörbreyst til hins verra frá því við birtum spá okkar í október. Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands hefur ekki mælst hærri í 40 ár. Hér á landi þarf að fara 12 ár aftur í tímann til að finna hærri verðbólgu en þá var verðbólguskot hrunsins að fjara út. Það sem skýrir hærri verðbólgu eru miklar verðlagshækkanir erlendis sem fyrst og fremst má rekja til hækkunar á hrávöruverði sem stríðið í Úkraínu hefur kynt undir. Þessu til viðbótar hafa verðhækkanir á húsnæði hér á landi verið mun meiri og þrálátari en reiknað var með í flestum spám. Við gerum ráð fyrir að verðbólga hér á landi nái hámarki á þriðja fjórðungi þessa árs og muni þá mælast 8,4%. Bæði verðbólga og verðbólguvæntingar, sem hafa hækkað mikið og eru nú töluvert umfram verðbólgumarkmið, munu aukast. Seðlabankinn mun þurfa að herða aðhaldið og tóninn verulega til þess að koma verðbólguvæntingum aftur nær markmiði. Við spáum því að stýrivextir, sem nú eru 3,75%, verði komnir upp í 6% í lok árs en að upp frá því taki peningastefnunefnd Seðlabankans að slaka á aðhaldinu hægt og sígandi og að stýrivextir verði komnir niður í 4% í lok spátímans.
Ferðaþjónustan tekur verulega við sér
Ferðaþjónustan hér á landi tók að vakna til lífsins upp úr miðju síðasta sumri eftir mjög mikla ládeyðu sem heimsfaraldurinn olli þegar hann skall á fyrir tæpum tveimur árum. Fjöldi erlendra ferðamanna sem hlutfall af fjöldanum síðasta árið fyrir faraldur, 2019, lá á bilinu 48-59% frá júlí í fyrra til mars á þessu ári. Fjöldinn tók hins vegar stökk nú í apríl og fór upp í 85% af fjöldanum árið 2019. Áætlaðar brottfarir frá Leifsstöð fram í september eru litlu færri en í sömu mánuðum 2019. Út frá þeim áætlunum teljum við að fjöldi erlendra ferðamanna verði um 1,5 milljón á þessu ári sem yrði tæplega 120% fjölgun frá því í fyrra. Ferðaþjónustan var langveigamesti þátturinn í þróun hagvaxtar og annarra helstu hagstærða síðustu árin fyrir faraldur. Það hefur ekki breyst og mun efnahagsuppgangur á næstu árum markast að mjög miklu leyti af viðgangi ferðaþjónustunnar. Við teljum að fjölgun ferðamanna verði mikil á næstu árum og að á lokaári spátímans muni um 2,4 milljónir ferðamanna koma hingað til lands, sem yrði mesti fjöldi á stöku ári.
Heilt yfir gerum við ráð fyrir 19,4% vexti útflutnings á þessu ári en að á næstu tveimur árum verði vöxturinn á bilinu 7,2-7,5%. Mikill vöxtur á þessu ári skýrist ekki eingöngu af uppgangi ferðaþjónustunnar, heldur voru loðnuveiðar á þessu ári óvænt miklar sem mun hafa mikil áhrif á útflutnings- og hagvöxt þessa árs. Hagvaxtaráhrif veiðanna verða 1,5 prósentustig til hækkunar samkvæmt spá okkar. Lægri útflutningsvöxtur á síðari hluta spátímans skýrist að hluta til af því að við teljum ekki að þessar miklu loðnuveiðar séu komnar til að vera, auk þess sem draga mun úr hlutfallslegum vexti ferðaþjónustunnar eftir því sem líður á spátímabilið.
Afgangur af viðskiptum við útlönd og sterkari króna
Verð á hrávörum hefur hækkað mikið undanfarin misseri. Sú hækkun hefur aukið verðmæti útflutningsafurða okkar. Við gerum ráð fyrir hagstæðari viðskiptakjörum en í spá okkar í október og að afgangur af viðskiptum við útlönd verði 22 ma.kr. (0,6% af VLF) í ár. Við gerum síðan ráð fyrir aðeins meiri afgangi á næstu tveimur árum, eða um 30 mö.kr. á hvoru ári fyrir sig. Afgangur af viðskiptum við útlönd ásamt auknum vaxtamun við útlönd ætti að styðja við krónuna. Við spáum því að evran verði kominn í 132 krónur í lok þessa árs og að hún leiti áfram til styrkingar á næstu tveimur árum. Við væntum þess að evran verði komin niður í 130 krónur í lok næsta árs og 128 krónur í lok árs 2024.
Launahækkanir miklar þrátt fyrir efnahagsleg áföll
Þrátt fyrir mikinn samdrátt í hagkerfinu og þungan vinnumarkað á köflum hafa launahækkanir verið miklar og töluvert umfram áætlaðar hækkanir vegna kjarasamninga. Við höfum þannig séð kaupmáttaraukningu á milli ára þrátt fyrir óvenjumikla verðbólgu. Ekki er um fleiri áfangahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum á árinu, en búast má við að launavísitala hækki eitthvað fram til áramóta þar sem áfangahækkanir hafa einungis skýrt um helming launaþróunar síðustu misseri. Kjarasamningar á almenna markaðnum renna út í lok október 2022 og í lok mars 2023 á þeim opinbera. Mismunandi launaþróun milli hópa ásamt mikilli verðbólgu eru meðal þátta sem valda mikilli óvissu um hver launaþróunin verður á næstu misserum.
Vinnumarkaður hefur risið hratt eftir mikla dýfu
Áhrif samdráttar í efnahagslífinu voru mikil á vinnumarkaðnum á fyrri hluta faraldursins en staðan hefur batnað mikið síðan. Sem dæmi má nefna að aldrei hafa fleiri verið á vinnumarkaði en fyrstu mánuði ársins 2022 og að atvinnuþátttaka var 2,9 prósentustigum meiri á fyrsta ársfjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði um 9% milli ára á fyrsta ársfjórðungi og er það fjórði ársfjórðungurinn í röð sem heildarvinnustundum fjölgar milli ára. Atvinnuleysi hefur minnkað verulega frá hámarki sínu í janúar 2021 og hefur verið í kringum 5% síðustu mánuði. Nokkuð hefur borið á skorti á vinnuafli undanfarið. Samkvæmt niðurstöðum vorkönnunar Gallup vilja mun fleiri fyrirtæki fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum en vilja fækka. Því er líklegt að innflutningur á vinnuafli verði töluverður á næstu misserum. Atvinnuleysi var að meðaltali 7,7% á árinu 2021. Við reiknum með að það verði komið niður í 4,2% í lok árs 2022 en verði að meðaltali 4,5% á árinu 2022, 4,2% 2023 og 3,9% 2024.
Einkaneysluvöxtur litaður af utanlandsferðum
Einkaneysla jókst talsvert í fyrra, meira en spár gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir miklar takmarkanir á neyslumöguleikum vegna faraldursins. Undanfarið hefur neysla verið drifin áfram af sparnaði sem myndaðist við upphaf faraldursins þegar óvissa um framgang mála var mikil og margir komu sér upp varúðarsjóði. Heimilin eru byrjuð að ganga á þennan sparnað og gerum við ráð fyrir framhaldi á þeirri þróun. Áhugi á ferðalögum er orðinn mikill og tekur einkaneyslan mið af því. Aukning einkaneyslu mun því að miklu leyti vera drifinn áfram af kaupum á vörum og þjónustu frá erlendum söluaðilum og hagvaxtaráhrifin hér á landi verða því minni en ella, þar sem innflutningur kemur til frádráttar við útreikning á hagvexti. Við gerum ráð fyrir hægari vexti kaupmáttar út spátímann en reyndist vera í fyrra sem mun draga úr einkaneysluvextinum þegar fram líða stundir.
Atvinnuvegafjárfesting reyndist töluvert kröftugri í fyrra en flestir höfðu vænst
Atvinnuvegafjárfesting í fyrra reyndist töluvert kröftug. Hún jókst um 23,1% frá fyrra ári og eru góðar forsendur til staðar fyrir áframhaldandi vexti. Vaxtastig er lágt í sögulegu ljósi, gengi krónunnar mun styrkjast á þessu ári samkvæmt okkar spá, eiginfjárstaða fyrirtækja er almennt séð góð í sögulegu ljósi, aðgangur að lánsfjármagni greiður og bjartsýni stjórnenda fyrirtækja til næstu sex mánaða og mat þeirra á núverandi ástandi mjög gott í sögulegu ljósi. Við spáum því að atvinnuvegafjárfesting aukist um 5% á þessu ári, 5,4% á næsta ári og 3% á lokaári spátímans, 2024.
Hægir loks á hækkun íbúðaverðs
Miklar hækkanir á íbúðaverði hafa einkennt síðustu misseri og skapað þrýsting á verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að vaxtahækkanir muni ná að draga úr eftirspurn og það muni stuðla að hóflegri verðhækkunum á sama tíma og framboð nýrra íbúða eykst. Við gerum ráð fyrir að íbúðafjárfesting aukist um 10% milli ára í ár og 8% á því næsta. Mikil aukning er á íbúðum í byggingu, sérstaklega á fyrri stigum, sem kemur sér vel þegar útlit er fyrir að aðflutningur fólks verði áfram mikill til landsins og þörf fyrir íbúðir því enn til staðar þó eftirspurnin dragist saman vegna hærri vaxta. Við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 20% milli ára í ár, 8% á næsta ári og 4% milli áranna 2022 og 2023. Gangi þessi spá eftir má segja að mestu lætin séu yfirstaðin á íbúðamarkaði og nú megi vænta rólegri markaðar með lengri sölutíma og fátíðari yfirboðum.
Koma þarf stöðu hins opinbera í eðlilegt horf á ný
Árið 2019 voru skuldir ríkissjóðs komnar niður í um 22% af VLF en viðbrögð ríkissjóðs við faraldrinum og tengdur tekjumissir urðu til þess að skuldirnar voru orðnar um 30% af VLF í lok árs 2020. Í ár er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði um 34% af VLF og haldi áfram að hækka samhliða hallarekstri þannig að hlutfallið verði orðið 36,9% af VLF í árslok 2026 og skuldasöfnun stöðvist á því ári. Samneysluútgjöld jukust um 4,5% á árinu 2020, á sama tíma og landsframleiðsla dróst mikið saman, og um 1,8% 2021. Það er ljóst að eitt helsta úrlausnarefni ríkissjóðs á næstu árum verður að koma opinberum fjármálum í eðlilegt horf eftir mikinn útgjaldaauka og tekjumissi samfara faraldrinum. Aðhald í rekstri þarf því að aukast töluvert. Við spáum 1,5% aukningu samneyslu í ár og sömu aukningu árlega á árunum 2023 og 2024. Opinber fjárfesting jókst um 12,4% milli 2020 og 2021 og var 4,1% af VLF síðara árið. Líklegt er að opinber fjárfesting verði áfram mikil í ár en ýmis verkefni hafa farið seinna af stað en reiknað var með. Við reiknum með að opinber fjárfesting aukist um 5% á þessu ári og haldist óbreytt milli áranna 2023 og 2024.