Í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2021-2024 er reiknað með samfelldum hagvexti til ársins 2024, 5,5% á næsta ári, 1,7% árið 2023 og 2% árið 2024. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok árs 2022.
Útlit er fyrir að verðbólga nái hámarki undir lok árs 2021 og verði þá um 4,5% en hjaðni síðan og verði komin niður í 3% á fjórða ársfjórðungi 2022. Gert er ráð fyrir að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð á þriðja fjórðungi 2023 og að verðbólgan verði í kringum markmið það sem eftir lifir spátímabilsins.
Í spánni er gert ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir samfellt til þriðja ársfjórðungs 2023 og að þá verði þeir orðnir 4,25%. Þá verði verðbólgumarkmiðinu náð, vextir taki að lækka á ný og verði komnir niður í 3,5% í lok spátímans.
Góð staða einstaklinga og fyrirtækja
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og ræddi stuttlega um stöðu efnahagsmála. Hún sagði stöðu einstaklinga og fyrirtækja almennt góða og að vanskil væru lág, þótt sum fyrirtæki í ferðaþjónustu þyrftu enn að fá lengri tíma til að ná vopnum sínum. Í fyrra hefði faraldurinn gert það að verkum að fólk lagði fyrir um þriðjung þeirra fjármuna sem annars hefði verið varið í utanlandsferðir. Núna væri annað uppi á teningnum, kortavelta væri meiri en á sama tíma árið 2019 og sparnaður vegna fækkunar utanlandsferða væri að skila sér með einum eða öðrum hætti út í hagkerfið. Um leið væri greinilegt að almenningur hefði meiri áhuga á hlutabréfum og eignadreifingarsjóðum.
Í átt að eðlilegu ástandi
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar, kynnti hagspána sem nær til ársins 2024. Hann sagði að kröftugur efnahagsbati væri hafinn, ferðaþjónustan væri vöknuð úr dvala og bjart væri framundan. Í spánni er gert ráð fyrir að árið 2024 verði atvinnuleysi minna en það var áður en faraldurinn skall á og að það verði komið í 3,5% árið 2024. Ýmsar áskoranir væru þó í veginum. Ein sú stærsta væri að rétta af hallann á ríkissjóði sem hefur tekið á sig miklar byrðar. Þá muni kröftugur efnahagsbati og þrálát verðbólga knýja á um töluverða hækkun stýrivaxta, áður en aðstæður skapast til að lækka þá á nýjan leik. Hæst fari stýrivexti í 4,25% en lækki síðan í 3,5% árið 2024.
Hefur toppnum verður náð?
Una Jónsdóttir, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði um þróun, stöðu og horfur á fasteignamarkaði. Hún ræddi um miklar hækkanir á fasteignamarkaði undanfarið, sérstaklega á markaði með sérbýli. Í síðustu hækkunarbylgju á árunum 2016-2017 hefðu íbúðir í fjölbýli hækkað meira og þá hafi verið talið að skortur á litlum íbúðum væri ein helsta ástæða verðhækkana. „Núna er staðan önnur,“ sagði Una. „Við erum fyrst og fremst að fást við verulega aukna eftirspurn vegna aðstæðna sem faraldurinn skapaði. Við erum búin að sitja heima í samkomutakmörkunum, þar sem neyslumöguleikar hafa verið takmarkaðir. Það, ásamt vaxtalækkunum, hefur aukið eftirspurn eftir húsnæði – og þá sérstaklega sérbýli.“
Una sagði að staðan á byggingamarkaði væri nokkuð góð og gera mætti ráð fyrir áframhaldandi aukningu á íbúðafjárfestingu. Una svaraði þeirri spurningu sem hún varpaði fram í heiti erindisins játandi, toppnum hefði verið náð og búast mætti við hóflegri hækkunum. Þessi spá væri þó háð ýmsum óvissuþáttum, s.s. varðandi vaxtastig, aðrar aðgerðir Seðlabankans, uppbyggingu íbúða og hvernig samfélagið jafnar sig eftir faraldurinn.
Tekist á við byltingu
Paul Donovan, aðalhagfræðingur hjá UBS-bankanum (UBS Global Wealth Management), fjallaði um eftirköst Covid-19-faraldursins og áhrif hans til að flýta breytingum sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Hann ræddi einnig ítarlega um hvernig faraldurinn hefði áhrif á hagkerfi heimsins. Hann benti á að alls ekki mætti líta svo á að heimshagkerfið hafi verið í kreppu á árinu 2020. Frekar mætti líkja ástandinu við „stóra fríið“ (f. les grandes vacances) í Frakklandi þar sem flest fyrirtæki og stofnanir loka í sumarleyfum í ágúst og opna aftur í september. Hið sama hefði gerst í heimshagkerfinu, það hefði lokað skyndilega en síðan skyndilega opnað aftur. Þess vegna hefði viðsnúningurinn verið mun snarpari en margir hefðu átt von á. Einnig væri mikilvægt að hafa í huga að heimshagkerfið glímdi ekki við stórkostlegan vanda varðandi framboð og framleiðslu, heldur væri um að ræða stóraukna eftirspurn sem myndi dala, eftir því sem lengra liði frá upphafi faraldursins.
Donovan fjallaði einnig um hvernig Covid-19 hefði hrundið af stað miklum samfélagslegum breytingum og flýtt fyrir þeim breytingum sem fylgja fjórðu iðnbyltingunni. Vegna faraldursins hefði fólk nýtt sér tækni sem hefði þegar verið til staðar til að auka verulega annars vegar heimavinnu og hins vegar netverslun. Þessi breytta hegðun myndi hafa veruleg efnahagsleg áhrif, t.d. á þjónustustörf í borgum, markað fyrir skrifstofu- og verslunarhúsnæði o.fl. Faraldurinn hefði einnig leitt í ljós þann mikla kostnað sem fælist í löngum og flóknum aðfangakeðjum. Búast mætti við að framleiðsla myndi færast nær mörkuðum, m.a. vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar. Þar með myndi draga úr sóun sem væri gott fyrir umhverfið og efnahagslífið.