Taka má við greiðslukortum útgefnum undir merkjum Visa og Mastercard. Landsbankinn býður að svo stöddu ekki upp á færsluhirðingu annarra vörumerkja. Þar af leiðandi verður kortum útgefnum af öðrum aðilum hafnað nema söluaðili hafi samið við annan færsluhirði um móttöku slíkra korta.
Leiðbeiningar
Leiðbeiningar fyrir söluaðila vegna færsluhirðingar
Greiðslukort eru ein öruggasta leiðin til að taka á móti greiðslu fyrir vörur og þjónustu. Þeim fylgir þó alltaf einhver áhætta sem má draga úr með því að fylgja skilmálum, leiðbeiningum og ráðleggingum Landsbankans.
Almennt
Söluaðili getur almennt treyst því þegar vara eða þjónusta er greidd með korti að um sé að ræða fullnaðargreiðslu, að því gefnu að ekki séu til staðar nein þau atvik er korthafi geti byggt endurkröfu á. Þetta á við óháð því hvort færsla er staðfest með PINi eða korthafi auðkennir sig með öðrum hætti samkvæmt fyrirmælum á afgreiðslutæki.
Það er mikilvægt að hafa í huga að korthafi hefur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum rétt til að mótmæla og krefjast endurgreiðslu á færslum sem hafa verið gerðar á greiðslukort hans. Mótmæli korthafa geta leitt til þess að söluaðila verði gert að endurgreiða honum. Heimiluð kortafærsla er ekki trygging fyrir greiðslu. Heimiluð kortafærsla felur í sér að á þeim tíma sem kortafærslan er gerð er kortið opið og korthafi hefur næga innstæðu á kortareikningi til að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Ekki er heimilt að framkvæma kortafærslu í þeim tilgangi að taka frá innstæðu á kortareikningi korthafa til þess að greiða fyrir vöru eða þjónustu síðar. Vísað er til leiðbeininga Landsbankans um hvernig skal standa að heimildaleit þegar ekki liggur fyrir endanleg fjárhæð viðskipta eða ekki er með öllu víst að af viðskiptum verði.
Í öllum auglýsingum þar sem tekið er fram að hægt sé að greiða með greiðslukorti gilda eftirfarandi reglur:
- Vörumerki (logo) kortafélaganna (Visa og Mastercard) eru skráð vörumerki og skal notkun þeirra vera í samræmi við vörumerkjareglur þeirra. Notkun má aldrei vera með þeim hætti að hún geti skaðað ímynd kortafélaganna.
- Ekki má nota vörumerki kortafélaganna nema í þeim tilgangi að auglýsa móttöku korta hjá söluaðila.
- Söluaðilar skulu birta kortavörumerkin á sýnilegum stað eða gefa með öðrum áberandi hætti til kynna hvaða kortum þeir taka við. Landsbankinn veitir söluaðilum aðgang að vörumerkjum til notkunar. Söluaðilar skulu ekki nota aðrar útgáfur kortavörumerkja en þær sem miðlað hefur verið af bankanum.
- Söluaðila er ekki skylt að taka á móti öllum kortum sem gefin eru út undir þeim kortavörumerkjum sem hann móttekur. Söluaðila sem nýtir rétt sinn til að hafna tilteknum flokkum korta sem gefin eru út undir vörumerki sem hann tekur við er skylt að taka skýrt fram í viðskiptum að ekki sé tekið við tilteknum vöruflokk, s.s. ef söluaðili tekur ekki við viðskiptakortum. Korthafa er alltaf óheimilt að mismuna korthöfum á grundvelli þátta á borð við þjóðerni, kyn, aldur, litarhátt eða annars.
Tilkynna þarf Landsbankanum þegar í stað ef breytingar verða á starfsemi söluaðila, s.s. ef breytingar verða á eignarhaldi, fyrirsvarsmanni, heimilisfangi, bankareikningi eða verulegar breytingar verða á starfsemi á borð við vöru- eða þjónustuframboð þannig að efnislega sé um aðra starfsemi að ræða en þá sem tilgreind var í umsókn söluaðila um færsluhirðingarþjónustu. Þá þarf að tilkynna bankanum ef söluaðili verður ógjaldfær eða líklegt er að hann geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Með því að miðla upplýsingum um breytingar stuðlar söluaðili að öryggi viðskiptanna, því að réttar upplýsingar fylgi færslum og að uppfyllt sé skylda um könnun viðskiptavinar og áreiðanleikakönnun.
Færsluhirðingarsamningur heimilar söluaðila að taka við tilteknum tegundum greiðslukorta (tilgreint í samningi) sem greiðslu fyrir vöru og þjónustu. Söluaðili er hvattur til að kynna sér efni skilmála um samninginn. Upp geta komið aðstæður þar sem söluaðila er ekki heimilt að taka við kortum og hér að neðan er slíkum aðstæðum lýst. Athugið að upptalningin er ekki tæmandi.
Söluaðila er óheimilt að:
- Nota greiðslukort sem eru gefin út til söluaðila sjálfs eða aðila tengdum honum til þess að búa til sölu og veltu eða til þess að taka peninga út úr rekstrinum.
- Taka á móti greiðslum fyrir þriðja aðila.
- Veita utanaðkomandi aðila aðgang að afgreiðslutækjum.
- Taka á móti greiðslu eða framkvæma færslu sem á ekki uppruna sinn beint til viðskipta milli söluaðila og korthafa.
- Endurgreiða korthafa nema næg innstæða sé til staðar á færsluhirðingarreikningi.
- Skipta sölu upp í tvær eða fleiri aðskildar greiðslur á sama korti eða milli mismunandi korta til þess að komast hjá því að þurfa að fá heimild fyrir heildarfjárhæðinni.
- Nota afgreiðslutæki eða annan búnað eða upplýsingar í tengslum við kortaviðskipti í öðrum tilgangi en að taka á móti greiðslu vegna sölu á vöru eða þjónustu eða vegna annarrar starfsemi en bankanum hefur verið tilkynnt um.
Varðveita þarf færslukvittanir og önnur gögn í tengslum við færslu, s.s. endurgreiðslu, staðfestingu á pöntun og sönnun á afhendingu, á öruggum stað í allt að 18 mánuði. Söluaðili þarf að geta framvísað þessum gögnum ef korthafi gerir endurkröfu og söluaðili þarf að sanna að vara eða þjónusta hafi verið veitt. Þegar gögnum er eytt í lok varðveislutíma þarf að tryggja að það sé gert á öruggan hátt.
Söluaðila er óheimilt að varðveita kortaupplýsingar, upplýsingar á segulrönd, CVV/CVC-númer korts eða upplýsingar á örgjörva korts (svokallaðar viðkvæmar auðkennisupplýsingar (e. sensitive authentication data – SAD)). Það er stranglega bannað að vista óvarðar færsluupplýsingar, aðrar en nafn korthafa, kortanúmer (maskað) og gildistíma eftir að greiðsla hefur verið heimiluð. Öll varðveisla á kortaupplýsingum þarf að uppfylla ítrustu öryggiskröfur í samræmi við PCI-DSS staðalinn.
Söluaðili skal:
- Varðveita öll gögn sem innihalda kortaupplýsingar eða reikningsnúmer dulkóðuð ef mögulegt. Varðveita skal gögn hvort sem er á pappír eða á rafrænu formi á öruggum stað og aðeins starfsfólk, sem þarf aðgang að gögnunum starfa sinna vegna, skal hafa aðgang að þeim.
- Afmá kortaupplýsingar og upplýsingar um korthafa bæði áður en gögn eru vistuð og líka áður en þeim er eytt.
- Tryggja að afgreiðslutæki uppfylli alltaf öryggisstaðla. Óheimilt er að eiga við eða breyta afgreiðslutæki nema að fengnu samþykki bankans þar sem það getur haft áhrif á öryggi afgreiðslutækis og vottun þess.
Afgreiðslutæki sem eru afhent til söluaðila af Landsbankanum eða samstarfsaðila hans uppfylla öryggiskröfur í samræmi við þar til gerða staðla.
Ef söluaðili hefur vitneskju eða grun um að óviðkomandi hafi komist yfir viðkvæmar kortaupplýsingar korthafa skal hann tilkynna Landsbankanum um slíkt þegar í stað.
Verði öryggisbrestur í meðhöndlun persónuupplýsinga ber söluaðila að gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þ.m.t. tilkynna Persónuvernd um öryggisatvik og, eftir atvikum, upplýsa korthafa.
Hægt er að nálgast upplýsingar um ráðleggingar og bestu framkvæmd í tilviki öryggisbrests á vefsíðum Visa og Mastercard.
Móttaka greiðslukorta
Almennar leiðbeiningar um notkun posa og annarra afgreiðslutækja er að finna í upplýsingum frá Verifone, samstarfsaðila bankans.
Þegar greitt er með korti á sölustað er mikilvægt að:
- Fylgja þeim fyrirmælum sem birtast á afgreiðslutæki.
- Ekki láta posa úr augsýn og fá hann strax afhentan þegar korthafi hefur slegið inn PIN.
- Varast að láta korthafa villa um fyrir eða trufla starfsmann þegar greiðsla fer fram.
Vera á verði gagnvart óvenjulegum kaupum, s.s. hvað varðar magn, samskiptaleiðir við kaup eða annað.
Mikilvægt er að ganga alltaf úr skugga um að fjárhæð sem birtist á afgreiðslutæki, þ.e. að sú fjárhæð sem korthafi greiðir, sé rétt.
Í þeim tilvikum sem greiðslukorti með segulrönd er rennt í gegnum afgreiðslutæki, þarf korthafi að staðfesta færslu með undirritun á kvittun. Ekki er heimilt að hafna því að taka á móti greiðslukorti sem ekki er búið örgjörva og/eða styður ekki auðkenningu korthafa með innslætti PINs.
Þó snertilausar færslur eða staðfesting greiðslu með örgjörva og leyninúmeri (e. chip and pin) séu orðnar algengasta leiðin til að greiða með korti er mikilvægt að þekkja helstu upplýsingar sem eru á greiðslukortinu sjálfu.
Algengast er að greitt sé með snertilausum greiðslum. Þá er greiðslukorti eða snjalltæki (s.s. síma, úri) korthafa haldið upp við afgreiðslutæki við greiðslu. Ef greitt er með snjalltæki þarf korthafi almennt ekki að slá inn PIN eða staðfesta færslu með undirskrift heldur fer auðkenning á korthafa fram í snjalltæki sjálfu.
Í þeim tilvikum sem greitt er snertilaust með korti á sölustað þarf korthafi ekki að auðkenna sig með því að slá inn PIN, nema annað að fjárhæð sé yfir heimiluðum viðmiðunarmörkum eða hámarksfjölda færsla án auðkenningar hafi verið náð.
Þegar greiðsla fer fram þannig að örgjörvi korts er lesinn í posa skal úttekt staðfest með þeim hætti sem afgreiðslutæki segir fyrir um, oftast með innslætti PINs. Einungis korthafi skal hafa upplýsingar um PIN korts. Til þessa að tryggja leynd um PIN skulu afgreiðslutæki búin hlífðarbúnaði svo ekki sé sýnilegt öðrum þegar korthafi slær inn PIN til staðfestingar á greiðslu.
Ef sérstakt lyklaborð tengt afgreiðslutæki er notað til að slá inn PIN skal tryggja að búnaðurinn sjálfur sé alltaf í augsýn afgreiðslufólks án þess þó að starfsfólk geti fylgst með innslætti PINs.
Ef rangt PIN er slegið inn þrisvar í röð læsist kortið og þarf korthafi að leita til síns kortaútgefanda til að opna kort aftur.
Ef afgreiðslutæki getur ekki lesið örgjörva korts má nota segulrönd kortsins til að framkvæma greiðsluna.
Aðeins skal staðfesta úttekt með undirskrift korthafa á kvittun þegar fyrirmæli eru um það á afgreiðslutæki eða ef aðrar leiðir, eins og innsláttur PINs eða auðkenning með snjalltæki, eru ekki tiltækar. Í þeim tilvikum sem segulrönd korts er notuð er mjög mikilvægt að fara yfir kvittunina og bera saman kortanúmer, gildistíma og tegund korts (Visa eða MasterCard) og hvort eitthvað bendi til þess að um falsað kort sé að ræða. Ef allar upplýsingar stemma er korthafi beðinn að undirrita kvittunina og færslan er staðfest.
Almennar leiðbeiningar um notkun afgreiðslutækja fyrir vefviðskipti er að finna í upplýsingum frá Verifone, samstarfsaðila bankans.
Eftirfarandi texti á við greiðslur þegar korthafi er ekki á afgreiðslustað og greiðslukorti er ekki framvísað þegar greitt er, t.d. við netgreiðslu, greiðslu í gegnum síma eða greiðslu sem er gerð í gegnum fjarskipti, s.s. með veflykli.
Til símgreiðslu telst færsla þar sem söluaðili slær sjálfur inn kortaupplýsingar korthafa að beiðni og samkvæmt fyrirmælum korthafa. Við símgreiðslu er því ekki fyrir að fara auðkenningu eða staðfestu samþykki korthafa fyrir greiðslunni.
Til þess að framkvæma símgreiðslu þarf eftirfarandi upplýsingar:
- Kortanúmer
- Gildistíma korts
- CVV/CVC-númer korts. CVV/CVC-númer korts er þriggja tölustafa númer sem er að finna á bakhlið greiðslukorts
Söluaðili ber alfarið ábyrgð á úttekt sem gerð er án staðfestingar/auðkenningar korthafa. Til þess að söluaðili geti borið við einhverjum vörnum komi til endurkröfu er mikilvægt að halda vel til haga öllum gögnum varðandi viðskiptin, s.s. staðfestum pöntunum, samskiptum við korthafa og staðfestingu korthafa á afhendingu vöru og þjónustu.
Viðhafa þarf sérstakar öryggisráðstafanir þegar korthafi er ekki á staðnum. Hér að neðan er að finna nokkur atriði sem rétt er að fylgjast vel með þar sem þau gætu bent til þess að um svikatilraun sé að ræða.
- CVV/CVC-númer stemmir ekki við kortanúmer.
- Korthafi er nýr viðskiptavinur sem gerir margar pantanir eða gerir pantanir fyrir háar fjárhæðir. Þekktir korthafar eru áhættuminni en nýir korthafar.
- Hafnanir á einu eða fleiri af þeim kortum sem notuð eru við greiðslu og strax er greitt með öðru korti.
- Einn eða fleiri aðilar gera margar pantanir sem eru greiddar með mörgum mismunandi kortum, ýmist kortum sama korthafa eða kortum margra mismunandi korthafa. Allar pantanir eru afhentar á sama stað.
- Margar pantanir sem gerðar eru af sama aðila eru greiddar með mörgum mismunandi kortum, ýmist frá sama korthafa eða mismunandi korthöfum. Sérstaklega skal gæta varúðar ef fleiri en einu korti er hafnað.
- Korthafi óskar eftir afhendingu vöru þegar í stað og ekki virðist skipta máli þó hár flutningskostnaður leggist við.
- Pantanir þar sem afhendingarstaður er óvenjulegur án þess að á því sé sérstök skýring.
- Beiðni frá korthafa um að afhenda vöru til þriðja aðila, t.d. leigubílstjóra sem korthafi sendir til að sækja vöru.
- Ef uppgefið tölvupóstfang korthafa samræmist ekki nafni korthafa eða korthafi gefur upp tölvupóstfang, nafn eða heimilisfang sem gefur til kynna órökrétt eða tilbúin nöfn.
Ef grunsemdir vakna um svik er ráðlegt að taka frekari skref til að sanna deili á korthafa, svo sem að hafa samband í gegnum uppgefið tölvupóstfang eða símanúmer.
Þegar vara er afhent á heimilisfang er mælt með því að undirskrift korthafa sé fengin á móttökukvittun til að geta sannað að varan hafi verið afhent réttum kaupanda. Ef vara er að beiðni korthafa afhent í pósthólf eða póstkassa er mikilvægt að geyma sönnun um að varan hafi verið afhent á tiltekinn stað og staðfestingu á að upplýsingar um afhendingu vörunnar hafi verið sendar til korthafa.
Söluaðila ber að leiðrétta færslur sem ranglega hafa verið skuldfærðar á kortareikning, s.s. vegna þess að tvisvar var skuldfært vegna sömu úttektar, færsla var send inn án þess að hafa verið heimildarleituð eða skuldfært var fyrir kaupum sem aldrei varð af.
Alþjóðlegu kortafélögin og Landsbankinn fylgjast einnig með færslum. Landsbankinn leiðréttir rangar færslur að eigin frumkvæði eða samkvæmt fyrirmælum kortafélaganna.
Sömuleiðis ber að bakfæra færslur hafi útgefandi ógilt (e. voided) eða fellt niður (e. cancelled) færslu. Bakfærslur skulu fara fram innan 30 daga frá dagsetningu upprunafærslu.
Söluaðila er óheimilt að senda aftur inn færslu eða þann hluta færslu sem hefur verið bakfærð.
Endurgreiðslur eru aðeins heimilaðar í þeim tilgangi að endurgreiða fyrir vöru eða þjónustu sem greitt var fyrir með korti. Endurgreiðsla skal að jafnaði fara inn á sama kortareikning og notaður var við greiðslu hinnar endurgreiddu úttektar.
Einungis er heimilt að framkvæma endurgreiðslur í samræmi við skilmála færsluhirðingar hverju sinni. Leita þarf heimildar fyrir endurgreiðslu en ekki er gerð krafa um staðfestingu korthafa. Til þess að staðfesta endurgreiðslu í gegnum posa þarf söluaðili að slá inn PIN sem honum hefur verið úthlutað. Með innslætti á PINi ábyrgist söluaðili greiðslu á endurgreiðslunni gagnvart færsluhirði. Því er mikilvægt að gæta vel að öryggi PINs.
Ekki er heimilt að endurgreiða kortafærslu með því að afhenda korthafa reiðufé eða endurgreiða inn á greiðslukort ef upphaflega var greitt fyrir vöru eða þjónustu með reiðufé.
Við endurgreiðslu skuldfærist færsluhirðingarreikningur söluaðila um fjárhæð endurgreiðslunnar. Ef ekki er næg innstæða á færsluhirðingarreikningi fyrir fjárhæð endurgreiðslunnar kann henni að verða hafnað.
Landsbankinn áskilur sér rétt til að takmarka eða stöðva endurgreiðslur tímabundið eða varanlega. Einnig getur Landsbankinn á hverjum tíma kallað eftir ábyrgðum vegna endurgreiðslna söluaðila.
Ekki þarf að gera sérstakt uppgjör á afgreiðslutæki þar sem allar heimilaðar færslur fara sjálfkrafa til uppgjörs. Ef færslur skila sér ekki til uppgjörs skal söluaðili hafa samband við Þjónustuver Landsbankans.
Endurkröfur
(e. disputed transactions and chargebacks)
Endurkrafa kallast það þegar korthafi mótmælir kortafærslu. Kortaútgefandi korthafa gerir endurkröfu fyrir hans hönd samkvæmt reglum Visa og/eða Mastercard. Visa/Mastercard taka lokaákvörðun um hvort korthafi eigi rétt á að fá endurkröfu greidda eða ekki. Ef ákvörðun er korthafa í vil er fjárhæð skuldfærð af söluaðila. Einnig kunna reglur að kveða á um að bakfæra þurfi fjárhæð tímabundið af söluaðila á meðan mál er í endurkröfuferli. Færsluhirðir annast þá bakfærslu bæði tímabundið og endanlega, eftir því sem við á.
Í samræmi við reglur kallar færsluhirðir eftir gögnum frá söluaðila til að svara endurkröfu, ef mögulegt er að svara henni. Í einhverjum tilvikum getur framlagning gagna orðið til þess að korthafi tapar endurkröfu og fær söluaðili þá fjárhæð umdeildrar úttektar endurgreidda hafi hún verið bakfærð tímabundið. Framkvæmd endurkröfu er í samræmi við reglur kortafélaganna (Visa og Mastercard) og gilda strangar reglur um tímafresti til að svara endurkröfum, um form endurkröfu og heimildir til að svara endurkröfu.
Endurkrafa getur stofnast við ágreining um réttmæti færslun, ef vara/þjónusta hefur ekki verið afhent/innt af hendi eða galli hefur komið upp við framkvæmd færslunnar. Algengustu ástæður endurkröfu eru:
- Korthafi hefur ekki eða kannast ekki við að hafa heimilað færslu á kortið sitt, fjárhæðin er ekki rétt eða korthafi kannast ekki við söluaðila.
- Færsla hefur verið gerð á kort þrátt fyrir að korthafi hafi verið búinn að segja upp boðgreiðslusamningi eða hann var útrunninn.
- Söluaðili hefur lofað korthafa endurgreiðslu vegna kaupa á vöru/þjónustu en ekki staðið við það.
- Vara hefur ekki verið afhent eða þjónusta hefur ekki verið innt af hendi.
Áríðandi er að söluaðili fylgist með því daglega á þjónustuvef hvort borist hafi tilkynning um endurkröfur, þar sem tímafrestir til að svara eru mjög stuttir.
Tilkynnt er um endurkröfur á þjónustuvef færsluhirðingar (e. merchant portal). Leyfi reglur kortafélaganna andmæli við endurkröfu hefur söluaðili 7 almanaksdaga til að bregðast við og afhenda þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að mótmæla megi endurkröfu. Landsbankinn leiðbeinir söluaðila um þau gögn sem um ræðir á hverjum tíma.
Helstu ástæður þess að endurkröfum er ekki mótmælt eru að endurkrafa er réttmæt, t.d. ef um tvífærslu er að ræða, tafist hefur að endurgreiða korthafa o.s.frv. eða söluaðila er ómögulegt að grípa til varna, s.s. vegna þess að ekki hefur verið leitað tilskilinnar staðfestingar korthafa. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á að mótmæli við endurkröfu verði tekin til greina en hefur milligöngu um að koma gögnum til kortafélaganna sem taka endanlega ákvörðun um réttmæti endurkröfu. Á þjónustuvef færsluhirðingar eru ráðleggingar og upplýsingar um gögn sem leggja má fram í málinu og hvaða skilyrði, ef við á, þau þurfa að uppfylla.
Dæmi um gögn sem kallað getur verið eftir vegna mótmæla við endurkröfu:
- Kortanúmer (fyrstu 6 tölustafina og síðustu 4)
- Gildistími korts
- Lýsingu á vöru/þjónustu sem greitt var fyrir
- Tengiliðaupplýsingar söluaðila/Staðsetning söluaðila (vefslóð)
- Nafn korthafa og heimilisfang (ef um símgreiðslu og netgreiðslu er að ræða)
- Heimilisfang greiðanda vöru
- Heimilisfang viðtakanda vöru
- Staðfestingarnúmer vegna heimilisfangs
- Staðfestingarnúmer vegna CVV/CVC-númers
- Símanúmer og tölvupóstfang korthafa
- Sönnun þess að vara hafi verið afhent korthafa
- Boðgreiðslusamning/staðfestingu á boðgreiðslu frá korthafa
Mikilvægt er að söluaðilar geri fyrirbyggjandi ráðstafanir til að minnka líkur á endurkröfum. Þó söluaðilar lendi ekki oft í endurkröfum geta þær þó skaðað starfsemina og leitt til fjárhagslegs tjóns. Söluaðilum er ráðlagt að hafa til staðar verkferla um meðhöndlum endurkrafna.
Hér má finna nokkur góð ráð til að forðast og verjast endurkröfum.
Afhending gagna: Mikilvægt er að senda strax þau gögn sem kortafélögin biðja um til að sýna fram á að korthafi hafi greitt með korti. Ef gögnin berast ekki innan tilskilins tímafrests verða mótmælin ekki tekin til greina og endurkrafan tapast.
Tilgreining söluaðila á færsluyfirliti korthafa: Til þess að forðast endurkröfur sökum þess að korthafi kannast ekki við nafn söluaðila á færsluyfirliti þarf nafn söluaðila eins og það birtist á yfirliti korthafa að vera hið sama og nafn söluaðila á sölustað (markaðsnafn, e. doing business as). Söluaðili þarf að vera vakandi fyrir því að Landsbankinn skrái það nafn sem hann stundar viðskipti undir.
Gildistími korts útrunninn: Ef færsla er framkvæmd eftir að kort er útrunnið getur slík færsla verið ógild. Þetta þarf sérstaklega að passa vegna úttekta þar sem kort er skuldfært einhverjum tíma eftir að samkomulag er gert um viðskiptin eða kortaupplýsinga er aflað. Í slíkum tilvikum þarf söluaðili að hafa aftur samband við korthafa til að fá nýjar kortaupplýsingar. Einnig er hér vakin athygli söluaðila á þjónustu Landsbankans um uppfærslu kortaupplýsinga við reglulegar skuldfærslur, s.s. boðgreiðslur.
Færslu synjað: Ef færslu er synjað skal ekki halda áfram með söluna. Hið sama á við þegar korthafi staðfestir ekki úttekt í netviðskiptum netgreiðslur með innslætti öryggisnúmers (e. 3D secure).
Tvöfaldar færslur: Gæta þarf að því að senda sömu færsluna ekki oftar en einu sinni til greiðslu þar sem endurkrafa getur stofnast ef um tvöfaldar/margfaldar færslur er að ræða vegna sömu úttektar.
Skilmálar um skil og endurgreiðslu vöru/þjónustu: Mikilvægt er að skilmálar sem gilda um skil, skipti og endurgreiðslu séu aðgengilegir korthafa á sölustað eða vefsíðu söluaðila.
Endurgreiðslur til korthafa: Ef korthafi á að fá endurgreiðslu inn á kort er mikilvægt að framkvæma hana strax til þess að forðast endurkröfu frá korthafa á þeim grundvelli að endurgreiðsla hafi ekki borist. Ef endurkrafa berst vegna endurgreiðslu vöru eða þjónustu sem til stóð að gera en hefur ekki verið framkvæmd, er mikilvægt að endurgreiða ekki korthafa án samráðs við Landsbankann.
Kvartanir frá korthafa: Mikilvægt er að bregðast hratt við kvörtunum korthafa og leitast við að leysa málin strax til þess að komast hjá því að korthafi geri endurkröfu.
Seinkun á afhendingu vöru/þjónustu: Tilkynnið korthafa strax ef seinkun er á afhendingu vöru eða þjónustu og upplýsið um áætlaðan afhendingartíma. Það getur komið í veg fyrir að korthafi geri endurkröfu á þeim grundvelli að vara eða þjónusta hafi ekki verið afhent. Best er að ekki sé skuldfært fyrir vöru fyrr en á þeim tíma sem hún er tilbúin til útsendingar/afhendingar.
Vara ekki til hjá söluaðila: Ef vara eða þjónusta sem korthafi greiddi fyrir er ekki til þarf að hafa samband við korthafa og bjóða honum aðra sambærilega vöru eða endurgreiða vöruna.
Afhending vöru: Ekki skal framkvæma greiðslu nema samhliða því sem vara er afhent eða send af stað til korthafa. Ef greiðsla er framkvæmd án afhendingar vöru aukast líkur á að korthafi geri endurkröfu þar sem búið sé að gjaldfæra reikning korthafa en hann hafi ekki fengið vöruna.
Varnir söluaðila við framkominni endurkröfu takmarkast af reglum kortafélaganna. Í reglunum er skýrt tekið fram við hvaða gögn megi styðjast þegar komist er að niðurstöðu í endurkröfumáli og er vörnum því mun þrengri stakkur sniðinn en í málum sem eru til meðferðar fyrir dómstólum, úrskurðarnefndum eða gerðardómi.
Helstu ástæður þess að söluaðili tapar endurkröfu eru:
- Söluaðili svarar ekki endurkröfu innan tímafrests
- Ekki var fengin tilskilin staðfesting eða auðkenning korthafa
- Söluaðili afhendir ekki fullnægjandi gögn
Fari söluaðili eftir leiðbeiningum um heimildaleit og tilhögun viðskipta takmarkast mjög réttur korthafa til að gera endurkröfu auk þess sem það eykur líkur á að verjast megi endurkröfu komi hún fram.
Óprúttnir aðilar geta reynt að komast yfir vöru eða þjónustu með því að beita bæði söluaðila og korthafa svikum. Mikilvægt er að vera alltaf á verði fyrir því hvort verið sé að nota kort í sviksamlegum tilgangi, gæta vel að allri meðhöndlun korta- og persónuupplýsinga og viðhafa öryggisráðstafanir varðandi þau tól og tæki sem notuð eru þegar greitt er með korti, hvort sem er á afgreiðslustað eða með netgreiðslu.
Við ráðleggjum söluaðilum að fylgjast vel með eftirfarandi atriðum til þess að fyrirbyggja svik:
Starfsfólk: Svik starfsfólks er áhættuþáttur sem söluaðilar verða að vera meðvitaðir um. Mikilvægt er að þekkja starfsfólkið vel og halda vel utan um aðganga þess og heimildir sem snerta greiðsluferlið og afgreiðslutæki, s.s. PIN vegna endurgreiðslna. Mikilvægt er að hafa skýrar verklagsreglur sem afmarka heimildir starfsfólks og kveða m.a. skýrt á um bann við því að starfsfólk annist eigin úttektir.
Fræðsla til starfsfólks: Mikilvægt er að sinna fræðslu til starfsfólks svo það sé fært um að bera kennsl á svik eða tilraunir til svika. Söluaðili ber ábyrgð á að til staðar séu upplýsingar og verkferlar um hvernig eigi að bregðast við ef grunur leikur á að um svik sé að ræða.
Aðgangur að afgreiðslutæki: Forðist að veita óviðkomandi aðgang að afgreiðslutæki. Bankinn eða samstarfsaðili skiptir ekki út afgreiðslutæki nema að fyrirfram höfðu samráði við söluaðila. Starfsmaður sem skiptir út tæki þarf alltaf að sýna skilríki og ef minnsti vafi leikur á að hann sé sá sem hann segist vera ber að hafa samband við Landsbankann eða samstarfsaðila og fá staðfestingu. Sömuleiðis er söluaðila eða öðrum óheimilt að gera breytingar eða eiga við hugbúnað í afgreiðslutæki, s.s. að hlaða niður öppum án fyrirfram samþykkis og samráðs við Landsbankann og/eða þjónustuveitanda afgreiðslutækis.
Vandræði með afgreiðslutæki: Ef haft er samband við söluaðila og hann beðinn um að heimila greiðslur með því að senda heimildarbeiðni í símanúmer sem viðkomandi aðili gefur upp, má alls ekki verða við slíkri beiðni. Að sama skapi er aldrei hringt frá Landsbankanum eða samstarfsaðila í söluaðila og hann beðinn að gefa upp korta-/færsluupplýsingar í gegnum síma eða að prófa færslur með því að senda þær í gegnum afgreiðslutæki.
Svik á sölustað:
Nauðsynlegt er að fara eftir öllum leiðbeiningum um móttöku korta. Öruggustu leiðirnar til að fá samþykki korthafa á færslu er ef korthafi framvísar korti og slær inn PIN eða ef korthafi greiðir með snertilausri greiðslu.
Þegar greitt er í gegnum afgreiðslutæki á sölustað, s.s. posa, er mikilvægt að fylgjast vel með þeim leiðbeiningum sem birtast á skjá afgreiðslutækis (posa) varðandi framkvæmd færslunnar.
Í þeim tilvikum sem korthafa er réttur posi til að ganga frá greiðslu eða slá inn PIN er mikilvægt að láta posann aldrei úr augsýn og taka við honum um leið og korthafi hefur samþykkt færsluna með tilskyldum hætti, s.s. með innslætti PINs.
Einungis skal nota segulrönd korts eða slá inn kortanúmer í afgreiðslutæki í undantekningartilvikum, s.s. ef örgjörvi virkar ekki. Ekki skal nota segulrandarlesara þegar korthafi man ekki PIN.
Háttsemi korthafa við kaup á vöru getur vakið grun um svik, t.d. ef korthafi er í óvenju miklum flýti við vörukaup og gefur sér ekki tíma til að skoða vöruna, víkur sér undan í samskiptum við afgreiðslufólk eða hegðar sér á einhvern annan hátt verulega óvenjulega. Í slíkum tilvikum skal gæta sérstaklega vel að því við framkvæmd greiðslu að ekki sé um svik að ræða.
Söluaðilar vöru sem er auðveld í endursölu, eins og raftæki og skartgripir, þurfa að gæta sín sérstaklega þar sem þeir geta verið skotmörk svikara.
Ef tilkynning berst frá Landsbankanum eða samstarfsaðila að um svikafærslu geti verið að ræða er mikilvægt að fylgja í öllu fyrirmælum bankans um viðbrögð og varnir.
Vefgreiðslur
Samkvæmt skilmálum um móttöku netgreiðslna í vefverslun gilda sérákvæði sem söluaðili þarf að uppfylla.
Á vefsíðu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
- Vörumerki kortafélaganna í fullum litgæðum. Vörumerkin skulu birtast á þeim stað þar sem tilgreindir eru þeir greiðslumiðlar sem söluaðili tekur við sem greiðslu.
- Vörumerki Visa
- Vörumerki Mastercard - Lagalegar takmarkanir, þ.e. takmarkanir sem eiga við um viðskiptin ef einhverjar eru.
- Greinargóð lýsing á vöru eða þjónustu sem hægt er að kaupa í vefverslun.
- Skilmálar um kaup á vöru eða þjónustu, þ.m.t. afhendingu, vöruskil og endurgreiðslur. Skilmálar skulu birtir korthafa á skýran hátt í greiðsluferli, þannig að hann geti samþykkt skilmálana, s.s með því að nota "samþykkja" hnapp, haka við samþykki eða sannarlega samþykkt með öðrum hætti.
- Upplýsingar um fyrirtækið, þ.e. nafn, heimilsfang, kennitala, VSK númer tölvupóstfang, símanúmer o.þ.h.
- Upplýsingar um í hvaða mynt færsla er gerð.
- Hvenær vara er send og sendingarkostnaður (ef við á).
- Persónuverndarstefna söluaðila og upplýsingar um meðhöndlun og öryggi kortaupplýsinga.
- Lög og varnarþing.
Við aðstoðum þig með ánægju og svörum öllum spurningum sem þú hefur um þetta á faersluhirding@landsbankinn.is.