1. kafli: Ferða­þjón­usta er und­ir­stöðu­at­vinnu­grein á Ís­landi

Ísland er orðið mun háðara ferðaþjónustu efnahagslega séð en flest önnur lönd og ferðaþjónusta hefur mun meiri áhrif á lífskjör hér á landi en annars staðar.
19. september 2017

Þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um ferðaþjónustu hér á landi undanfarin ár eru fáir sem gera sér grein fyrir hversu hröð, umfangsmikil og einstæð þróunin hefur verið í alþjóðlegum samanburði.

Árið 2015 nam útflutningur ferðaþjónustu frá landinu um 31% af heildarútflutningi landsins. Til samanburðar var þetta hlutfall rúmlega 7% fyrir heiminn í heild sinni og hlutfallið því fjórfalt hærra hér á landi. Í fyrra var þetta hlutfall komið upp í 39% og spáum við því að hlutfallið verði í kringum 43% á þessu ári. Á alþjóðavísu hefur þetta hlutfall leitað upp á við á síðustu árum en hækkunin hefur þó verið lítil. Þannig fór hlutfallið úr 5,8% árið 2011 upp í 7% 2015. Hækkun hlutfallsins má rekja til þess að flugferðum almennings í heiminum hefur fjölgað hratt undanfarna áratugi í takt við aukna alþjóðavæðingu og stóraukið framboð af flugferðum á mun viðráðanlegra verði en áður þekktist.

Sjálft flugið, þ.e.a.s. útflutningur farþegaflugs, sem er hluti af útflutningstekjum í ferðaþjónustu, er aðeins lítið hlutfall af heildartekjum ferðaþjónustunnar í heiminum. Tekjur af flugi hafa vaxið hægar en heildartekjur ferðaþjónustunnar.

Góð lífskjör á Íslandi byggja í mun meira mæli á ferðaþjónustu en í öðrum löndum með sambærileg lífskjör

Einn algengasti mælikvarðinn á lífskjör þjóða er landsframleiðsla á mann. Þeim mun hærri sem hún er, þeim mun betri eru lífskjör íbúanna alla jafna talin. Árið 2015 nam landsframleiðsla á mann hér á landi tæplega 51.000 Bandaríkjadölum, sem er með því hæsta sem þekkist, en þessi mælikvarði breytist alla jafna hægt í flestum þróuðum ríkjum. Til samanburðar nemur meðallandsframleiðsla á mann í heiminum í heild sinni 10.500 Bandaríkjadölum. Af 217 þjóðum á lista Alþjóðabankans voru einungis 11 þjóðir fyrir ofan okkur á þennan mælikvarða og er Ísland því meðal tekjuhæstu ríkja heims.

Ekkert af þeim löndum sem eru með svipaða eða hærri landsframleiðslu á íbúa er með nándar nærri jafn hátt hlutfall ferðaþjónustu í heildarútflutningi og Ísland. Meðalhlutfall ferðaþjónustu af útflutningi var um 8,7% í þeim löndum sem eru með hærri landsframleiðslu á íbúa en Ísland. Hlutfallið hér á landi var því u.þ.b. fjórfalt hærra en hjá allra tekjuhæstu löndunum. Þetta hlutfall var 10,8% í þeim löndum sem eru með lægri landsframleiðslu en Ísland, en þó með hærri landsframleiðslu en 20.000 Bandaríkjadali á mann. Íslendingar byggja því góð lífskjör sín margfalt meira á ferðaþjónustu en aðrar þjóðir sem búa við sambærileg lífskjör.

Þó nokkrar þjóðir reiða sig þó enn meira á ferðaþjónustu en Íslendingar en þær þjóðir eiga það sameiginlegt að búa við töluvert verri lífskjör. Sé farið niður lífskjaralistann og leitað að því landi sem er með hærra hlutfall en hér á landi má t.a.m. sjá Bahamaeyjar en um 70% af útflutningstekjum þeirra koma frá ferðaþjónustu. Landsframleiðsla þar á mann er um 22.600 Bandaríkjadalir. Önnur lönd sem eru enn neðar á listanum eru t.d. Barbados, en þar er fyrrnefnt hlutfall 63%, og Króatía þar sem hlutfallið er 38%, en landsframleiðsla á mann í síðarnefnda landinu er 12.900 Bandaríkjadalir.

Útflutningstekjur ferðaþjónustu eru einkum tvenns konar

Gjaldeyristekjum af ferðaþjónustu er jafnan skipt í tvo flokka. Annars vegar í farþegaflutninga með flugi, sem mælir öll kaup erlendra ferðamanna á flugþjónustu innlendra flugfélaga, hvort sem þeir ferðast til viðkomandi lands eða ekki. Hins vegar í öll önnur neysluútgjöld ferðamanna sem koma til landsins. Sé horft til útgjalda til ferðalaga hér á landi námu þau 18% af útflutningi 2015 til samanburðar við 5,9% í heiminum í heild sinni. Í töluvert mörgum löndum, eða alls 44, er þetta hlutfall hærra en hér á landi. Ekkert þeirra kemst þó nálægt Íslandi þegar kemur að lífskjörum. Það land sem kemst næst Íslandi á þennan mælikvarða er Kýpur en þar er landsframleiðsla á mann 26.000 Bandaríkjadollarar eða rétt ríflega helmingurinn af því sem hún er hér á landi.

Útflutningur vegna farþegaflugs í sérflokki

Tekjur af farþegaflutningum með flugi skera sig hins vegar verulega frá öðrum þjóðum og er ekkert land með svipuð lífskjör og Ísland með jafn umfangsmikla starfsemi í farþegaflutningum. Hlutfall farþegaflutninga af útflutningi nam 13,1% hér á landi árið 2015. Einungis eitt land var með hærra hlutfall, en það var Tadjikistan, en þar er landsframleiðsla einungis um 1.000 Bandaríkjadalir á mann. Að Tadjikistan frátöldu var þetta hlutfall því hæst í heiminum hér á landi. Það sem kann að skýra hátt hlutfall hér á landi að einhverju leyti er að landið er eyja og ferðamenn verða því annað hvort að fljúga eða sigla hingað og velja mun fleiri það fyrrnefnda af augljósum ástæðum1. Á heimsvísu er á hinn bóginn einungis um helmingur alþjóðlegra ferðalaga með flugvélum eða skipum.

Til marks um hve þetta hlutfall hér á landi er frábrugðið heimsmeðaltalinu nam útflutningur vegna farþegaflutninga um 1,2% í heiminum árið 2015 og er hlutfallið hér á landi því ellefu sinnum stærra. Af þessum 217 þjóðum eru einungis þrjár með þetta hlutfall yfir 10% og einungis 16 þjóðir þar sem þetta hlutfall er yfir 5%. Ísland sker sig því verulega frá öðrum löndum heimsins hvað þetta varðar. Af þeim löndum sem eru ofarlega á þessum lista og eru einnig með góð lífskjör má nefna land eins og Katar sem er með landsframleiðslu á mann upp á 88.000 Bandaríkjadollara en hlutfall farþegaflutninga af útflutningi er 7,7 %.

1Þessi liður mælir útflutningstekjur allra fyrirtækja í farþegaflutningum hvort sem þær eru á lofti, láði eða legi og hvort sem ferðamenn koma til landsins eða ekki.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur