Hvaða áhrif hafa vaxta­hækk­an­ir á lán­in mín?

Hærri stýrivextir leiða til þess að vextir og mánaðarleg greiðslubyrði á lánum sem eru með breytilega vexti hækka. Þetta á meðal annars við um neytendalán á borð við yfirdrátt og greiðsludreifingu á kreditkortum en mestu munar þó yfirleitt um íbúðalánin.
Fjölskylda
5. september 2023

Þegar Seðlabankinn breytir stýrivöxtum fylgja lánveitendur í kjölfarið. Ef lánið þitt er með breytilega vexti taka breytingarnar gildi 30 dögum eftir að tilkynnt er um breytinguna. Breytingar á stýrivöxtum hafa afgerandi áhrif á vaxtakjör bankans en fjármögnunarkjör bankans á markaði hafa einnig áhrif á kjörin.

Öll neytendalán, eins og yfirdráttur, skammtímalán eins og Aukalán og fjölgreiðslusamningar kreditkorta eru með breytilega vexti.

Þegar litið er til íbúðalána skiptir máli hvort lánið er með breytilegum eða föstum vöxtum. Ef íbúðalán er með breytilegum vöxtum þá breytast vextirnir, og þar með greiðslur af láninu, við vaxtabreytinguna. Ef lánið var á hinn bóginn tekið með föstum vöxtum breytast vextirnir ekki á gildistímanum sem skilgreindur var í upphafi (í 3 eða 5 ár). Vaxtabreytingar hafa því engin áhrif ef þú ert með lán á föstum vöxtum, þ.e. ekki á meðan á gildistíma föstu vaxtanna stendur.

Frá árinu 2022 og til dagsins í dag (5. september 2023) þegar þessi grein er síðast uppfærð, hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti úr 2% í 9,25% eða um 7,25 prósentustig. Á sama tíma hafa breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána Landsbankans verið hækkaðir um 6,55 prósentustig. Ef miðað er við 35 milljón króna óverðtryggt íbúðalán til 40 ára veldur 6,55 prósentustiga hækkun á vöxtum því að greiðslubyrðin hækkar um 167.300 krónur á mánuði. Ef miðað er við 50 milljón króna óverðtryggt íbúðalán með sama lánstíma hækkar greiðslubyrðin um 239.000 krónur á mánuði.

Ef við skoðum áhrifin á neyslulán, eins og Aukalán upp á eina milljón krónur og með lánstíma til fimm ára, þá eru áhrifin um 3.500 krónur á mánuði miðað við vaxtahækkunina frá byrjun árs 2022.

Ef þú hefur valið að taka lán á föstum vöxtum hafa vaxtabreytingarnar engin áhrif meðan á fastvaxtatímabilinu stendur. Erfitt er að fullyrða um það hvort rétt sé að festa vexti á tilteknu tímabili því snúið er að spá um hvort breytilegir vextir eigi eftir að hækka meira en föstu vextirnir segja til um í upphafi lánstímans. Jafnvel þótt vextir hafi hækkað er líka erfitt að segja til um hvort það sé „of seint“ að festa vextina því eftir sem áður er erfitt að spá um hvort vextir muni hækka enn meira.

Ég fjallaði um hvort það borgi sig að festa vextina í annarri grein hér á vefnum og hvet þig til að kíkja á hana ef þú ert að velta þessum málum fyrir þér.

Hvað á að hafa í huga þegar vextir hækka?

Ef vextir hækka, eins og nú er raunin, borgar sig að rýna í það hver áhrifin verða. Það er viðbúið að það verði dýrara fyrir þig að skulda og greiða af lánum. Lykilatriði er að hafa góða yfirsýn, hverjar tekjurnar eru á móti útgjöldunum. Ef við sjáum að tekjur okkar duga ekki eins vel og áður þá getum við þurft að taka af okkar sparnaði eða reynt að spara í neyslu eða breytilegum útgjöldum. Það getur borgað sig að greiða inn á skammtímalán ef þess er kostur og þannig létta á greiðslubyrðinni og draga úr vaxtakostnaði.

Ef þú sérð fram á að lenda í greiðsluerfiðleikum borgar sig að hafa samband við lánveitanda sem fyrst. Við í Landsbankanum bjóðum upp á ýmis úrræði og leggjum áherslu á að bjóða vandaða ráðgjöf. Í sumum tilvikum getur endurfjármögnun verið góður kostur til að lækka greiðslubyrði. Ef þú ákveður að lengja í endurgreiðslutíma vegna íbúðaláns skaltu samt hafa í huga að þar með borgar þú vexti í lengri tíma og heildarendurgreiðslan verður hærri.

Greinin birtist fyrst 9. júní 2022 og var síðast uppfærð 5. september 2023.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Fasteignir
2. sept. 2022
Ætti ég að festa vextina á íbúðaláninu mínu?
Seðlabankinn hefur á árinu 2022 hækkað stýrivexti, úr 2% í 5,5% en lægstir voru stýrivextir 0,75% á árinu 2021. Þegar vextir byrjuðu að hækka varð algengara að fólk festi vextina, í 3 eða 5 ár. Í þessari grein er fjallað um muninn á föstum og breytilegum vöxtum og hvað þarf að hafa í huga þegar ákvörðun um lánsform er tekin.
Íbúðir
23. feb. 2021
Hvort borgar sig að leigja eða kaupa?
Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað greinar hér á vefinn um þessa spurningu. Alltaf hefur niðurstaðan verið sú að það hafi verið hagstæðara að kaupa en leigja. Á árinu 2020 þróaðist kaup- og leiguverð með misjöfnum hætti hér á landi. Kaupverð hækkaði töluvert en leiguverð lækkaði. Það er því tímabært að rifja þessa umfjöllun upp miðað við nýjustu tölur.
Fjölskylda
10. des. 2021
Ætti ég að borga inn á íbúðalánið mitt?
Það er hagkvæmt að nota viðbótarlífeyrissparnað og sparifé til að greiða aukalega inn á íbúðalán og þannig lækka skuldir og létta á afborgunum. Við þurfum samt að hafa í huga að það er mikilvægt að eiga varasjóð, sem ekki er bundinn í fasteigninni, til að geta tekist á við óvænt útgjöld.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur