Mikilvægi mælinga á sjálfbærni og hegðun fyrirtækja
Þetta er þriðja greinin af fjórum um tengsl sjálfbærni og fjármála eftir Ara Skúlason sem birtast hér á Umræðunni.
Hugmyndin á bak við einkunnagjöf um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) er að mæla hversu vel fyrirtæki standa gagnvart annarri áhættu en fjármálaáhættu þannig að einkunnin gæti haft áhrif á verðlagningu fyrirtækisins. Þannig getur árangur fjárfestinga verið háður því hvernig UFS er mælt.
Mælingar, sérstaklega ef þær eru staðlaðar og traustar, geta verið gagnlegar fyrir marga. Mælingar á losun skipta miklu í baráttunni við loftslagsbreytingar, annað hvort sem grunnur fyrir kolefnisskatta eða til þess að gefa fjárfestum möguleika á búa til skuggaverð fyrir losun sem gæti haft áhrif á verð fyrirtækja á mörkuðum. Betri gögn ættu að sýna hverjir eru að draga úr losun og hverjir ekki. En skortur á áreiðanleika, samanburðarmöguleikum og gagnsæi á mælingunum draga úr notagildi slíkra mælinga.
Eins og ég fjallaði um í fyrri grein, þá þarf mikil endurskoðun að fara fram á mælingum á gögnum tengdum UFS. Lítið samræmi er vinnubrögðum þeirra fyrirtækja sem mæla UFS-þætti. Samanburður á sex slíkum fyrirtækjum sýndi að þau notuðu yfir 700 mismunand mælingar í 64 flokkum. Einungis 10 þessara flokka var að finna hjá öllum fyrirtækjunum.
Ekki bara grænþvottur sem torveldir mælingar
Mælingar á þessu sviði eru ekki auðveldar og það þarf sífellt að vinna að því að bæta gæði gagnanna.
Sé litið til losunar gróðurhúsalofttegunda, samkvæmt aðferðarfræði Green House Gas Protocol, er sýnilegasta losunin sú sem kemur frá venjulegri starfsemi fyrirtækja (umfang 1) og sú sem verður til hjá þeim aðila sem útvegar fyrirtækinu orku, t.d. rafmagn (umfang 2). Meðal fyrirtækja sem skráð eru á markaði eru þessar upplýsingar ekki alltaf til. Af u.þ.b. 10 þúsund fyrirtækjum í heiminum sem skoðuð voru af greiningafyrirtækinu MSCI gáfu einungis um 40% upplýsingar um losun umfangs 1 og 2.
Mun erfiðara er að mæla losun umfangs 3 sem á að dekka alla aðfangakeðjuna frá vinnslu hráefna og aðföng frá birgjum í gegnum framleiðsluferlið og til endanlegra notenda. Þessi flokkur inniheldur um 90% af losun í sumum greinum. Þarna eru málin líka flókin og sama gildir um aðferðafræðina. Ætti olíufélag að vera ábyrgt fyrir losun frá bíl eða ætti það að vera framleiðandi bílsins? Innan við fjórðungur áðurnefndra fyrirtækja gaf upplýsingar um losun í flokki 3 og voru gæði þeirra gagna ekki mikil.
Yfirlýsingar um núllstöðu hafa sjaldan áhrif á verðlagningu fyrirtækja
Upplýsingaskylda af þessu tagi ætti að bæta upplýsingaflæðið á þessu sviði. En áhyggjur af gæðum upplýsinganna hafa ýtt undir annars konar þróun. Í stað þess að bæta upplýsingagjöf vegna þrýstings frá fjárfestum og lánveitendum hafa fyrirtækin í auknum mæli valið að skuldbinda sig til þess að ná markmiðum um stöðvun losunar á ákveðnum tímapunkti. Í þessum efnum er þrýstingurinn mestur á þungaiðnað, námuvinnslu, orkuvinnslu og flutninga. Þrýstihópurinn Climate Action 100+, sem um 700 fjárfestingarsjóðir standa að, stefnir að því að fá 166 af mestu losunarfyrirtækjum heimsins til þess að vinna að markmiðum Parísarsamkomulagsins. Hópurinn telur að um 70% meðlimanna hafi skuldbundið sig til þess að ná núllstöðu í losun árið 2050 eða fyrr. Samt hafa einungis 17% þessara fyrirtækja sett sér tímasett markmið til skemmri tíma eða komið upp mælanlegri stefnu um árangur.
Skuldbindingar af þessu tagi ættu að vera íþyngjandi fyrir þessi fyrirtæki, en svo virðist sem fjárfestar taki þær alls ekki alvarlega þar sem yfirlýsingar um núllstöðu í losun á ákveðnum tímapunkti hafa sjaldan nokkur áhrif á verðlagningu hlutabréfa þeirra.
Bætt regluverk til bjargar?
Eftirlitsaðilar stefna ljóst og leynt að því að mælingar á áhættu ótengdri fjármálum verði jafn öruggar og mælingar á fjármálatengdri áhættu og það á t.d. við um Evrópusambandið. Þar er stefnt að því að ný tilskipun um þessi mál taki gildi fyrir árslok 2022 og mun hún þá ná til um 49 þúsund fyrirtækja innan ESB í stað tæplega 12 þúsund nú. Það eru aðallega tvær ástæður fyrir þessum áherslum stjórnvalda og eftirlitsaðila. Í fyrsta lagi er talið að loftslagsbreytingarnar séu of stór áhættuþáttur til þess að láta fjármálageiranum eftir að vinna með samkvæmt núverandi regluverki. Þar vita menn vel um áhættuna, en verðlagning á henni er talin allt of lág miðað við þær afleiðingar sem eru í húfi. Í öðru lagi er talið víst að fjárfestar vilji fá mun betri og nákvæmari upplýsingar en verið hafa til fram að þessu og vilji fá að sjá heildarmyndina.
Hingað til hefur UFS einkunnagjöf ekki verið nógu gott mælitæki. Mælingar hafa reynt að þjóna of mörgum haghöfum án þess að þær upplýsingar sem eru fyrir hendi sýni svart á hvítu hvað viðkomandi fyrirtæki er að gera. Upplýsingarnar eru of ónákvæmar til þess að ná að meta ytri áhrif fyrirtækjanna með viðunandi hætti og sagan sýnir að það er erfitt fyrir fjárfesta að meta hvaða áhrif matið getur haft á eignaverð. Betra regluverk og hnitmiðaðri upplýsingargjöf er nauðsynlegt skref fyrir alla hagaðila, markaði, fjárfesta og samfélagið.