Fréttir

Við­brögð við stöðu Grind­vík­inga eru til skoð­un­ar

Grindavík
18. nóvember 2023

Það er mjög erfitt að gera sér í hugarlund þá óvissu sem ríkir meðal Grindvíkinga. Hugur alls starfsfólks bankans er hjá bæjarbúum. Við erum stolt af öflugu útibúi okkar í Grindavík og af að eiga marga trausta og góða viðskiptavini í bæjarfélaginu, bæði einstaklinga og fyrirtæki.

Síðastliðinn mánudag kynntum við það úrræði að allir viðskiptavinir í Grindavík geta frestað afborgunum af íbúðalánunum sínum í sex mánuði. Um er að ræða hefðbundna frestun, þ.e. viðskiptavinir borga ekkert af lánunum en frestaðar greiðslur af vöxtum/verðbótum bætast við lánið. Vextir og verðbætur bera þó ekki vexti fyrr en 12 mánuðum eftir að afborgunum er frestað.

Frestun veitir svigrúm – frekari aðgerðir til skoðunar

Við vitum fullvel að frestun á afborgunum er ekki lausnin á öllum þeim fjárhagslegu áskorunum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir. Frestun afborgana er á hinn bóginn úrræði sem getur létt á fjárhagnum til skamms tíma og veitt fjárhagslegt svigrúm, sem getur verið gott á þessum óvissutímum.

Við viljum einnig taka fram að frekari aðgerðir til að koma til móts við Grindvíkinga eru í skoðun hjá bankanum og bankinn hefur m.a. átt samskipti við stjórnvöld um næstu skref.

Við tökum vel á móti Grindvíkingum

Atburðir sem þessir valda mikilli óvissu í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja. Við bjóðum ýmsar lausnir og hvetjum alla til að hafa samband við okkur til að fara yfir fjármálin. Best er að panta tíma í ráðgjöf hér á vefnum. Við tökum vel á móti Grindvíkingum hvort sem er í útibúum sem eru um allt land, í síma eða á fjarfundum.

Panta tíma til að fara yfir fjármálin

Starfsmannafélag bankans hefur þegar boðið fram orlofshús og orlofsíbúðir sem gætu gagnast íbúum Grindavíkur. Þá höfum við útvegað búnað og fleira sem nýtist í þjónustumiðstöð Grindvíkinga í Tollhúsinu. Starfsfólk útibúsins er áfram við störf hjá bankanum og getur ýmist komið til vinnu í öðrum útibúum eða unnið í fjarvinnu. Við munum áfram styðja við Grindvíkinga með ýmsum hætti.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Grindavík
16. nóv. 2023
Geymsluhólf úr Grindavík hafa verið flutt í útibúið í Mjódd
Geymsluhólf sem voru í útibúinu í Grindavík voru seinnipartinn í gær, miðvikudaginn 15. nóvember, flutt í útibú Landsbankans í Mjódd. Í útibúinu í Grindavík voru um 150 geymsluhólf. Þau verða aðgengileg fyrir viðskiptavini frá og með morgundeginum, föstudegi 17. nóvember.
Grindavík
16. nóv. 2023
Upplýsingar um bankaþjónustu við Grindvíkinga
Á meðan útibúið okkar í Grindavík er lokað, tökum við vel á móti Grindvíkingum í öðrum útibúum bankans. Það er einfalt að bóka tíma á vefnum og hægt er að velja á milli þess að fá símtal, fjarfund eða fund í því útibúi sem hentar. Landsbankinn er með útibú um allt land.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur