Hagspá 2023-2025: Hægari taktur eftir hraðan viðsnúning
Í nýrri hagspá Hagfræðideildar er gert ráð fyrir 3,2% hagvexti á árinu 2023 sem er töluvert bjartsýnna en spá deildarinnar frá því í haust. Ein helsta ástæðan fyrir bjartsýnni spá er að horfur í ferðaþjónustu eru betri en áður.
- Hagfræðideild spáir því að um 2,1 milljón ferðamenn komi til landsins í ár og að fjöldinn verði 2,5 milljónir árið 2025. Það yrði metár.
- Gert er ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir um eitt prósentustig í viðbót og fari hæst í 8,5%. Ekki er gert ráð fyrir að vaxtalækkunarferli hefjist fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs.
- Hagfræðideild reiknar með að verðbólgan hafi náð hámarki, muni lækka hægt og bítandi og verða 4,5% í árslok 2025.
- Litlar verðbreytingar verða á íbúðamarkaði út árið samkvæmt spánni en íbúðaverð verður að meðaltali 4,8% hærra í ár en í fyrra.
- Krónan mun styrkjast, viðskipti við útlönd verða nánast í jafnvægi og kaupmáttur mun aukast, þó ekki mikið.
Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir:
„Hægari taktur einkennir spátímabilið, borið saman við kraftmikinn vöxt árin á undan, og við búumst við að nýtt jafnvægi náist í hagkerfinu. Við spáum nokkuð kröftugum hagvexti í ár, meiri en við gerðum áður ráð fyrir. Þá spáum við því að vaxtahækkunarskeiðinu sé ekki lokið og að stýrivextir verði hækkaðir um enn eitt prósentustig áður en lækkunarferli hefst. Við teljum að krónan eigi inni styrkingu og að við nálgumst jafnvægi í viðskiptum við útlönd.
Helstu óvissuþættir eru áhrifaþættir verðbólgunnar, eins og launaþróun næstu ára, þar sem samningar á almennum vinnumarkaði eru lausir á ný á næstunni, en einnig gengisþróun og innlend eftirspurn.“
Þjóðhags- og verðbólguspá 2023-2025: Hægari taktur eftir hraðan viðsnúning