Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Hagstofa Íslands vísitölu neysluverðs fyrir nóvember. Við uppfærðum verðbólguspá eftir birtingu vísitölu íbúðaverðs og spáum 0,47% hækkun vísitölunnar í nóvember og að verðbólgan verði 8,1% í stað 8,0%. Alvotech birtir árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofa Íslands þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung.
- Á föstudag birtir Seðlabanki Íslands tölur um greiðslujöfnuð á þriðja ársfjórðungi.
Mynd vikunnar
Fyrstu kaupendum á íbúðamarkaði fjölgaði verulega á þriðja fjórðungi ársins, og voru 1.123 talsins, 33% allra kaupenda. Til samanburðar voru fyrstu kaupendur 789 talsins á öðrum fjórðungi, 26% allra kaupenda. Hlutfallið á þriðja fjórðungi er svipað og það var á tímum heimsfaraldursins, þegar vextir voru hvað lægstir og stór hópur sá hag í því að koma inn á íbúðamarkað. Aukin eftirspurn meðal fyrstu kaupenda kann að skýrast að hluta til af útvíkkun á hlutdeildarlánaúrræði HMS sem gerir fleirum kleift að nýta það. Þá má einnig vera að óbreytt stýrivaxtastig auki bjartsýni á íbúðamarkaði og auk þess kann kaupmáttaraukning á seinni hluta árs að hafa áhrif.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Á þriðjudaginn birti HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem hækkaði um 0,9% á milli mánaða, sem var minni hækkun en í síðasta mánuði, þegar vísitalan hækkaði um 1,4%. Vísitalan hefur hækkað þrjá mánuði í röð og nemur hækkun síðustu þriggja mánaða 3,1%. Fjölbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 0,5%, töluvert minna en í síðasta mánuði, þegar hún hækkaði um 1,4%. Sérbýlishlutinn hækkaði aftur á móti um 2,5% milli mánaða, en hækkaði um 1,6% í síðasta mánuði.
- Á miðvikudaginn tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum. Þetta er önnur ákvörðunin í röð þar sem vöxtum er haldið óbreyttum. Í tilkynningu nefndarinnar kom þó fram að verðbólguhorfur hefðu versnað nokkuð og verðbólguvæntingar væru enn háar, en vegna óvissu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga yrði vaxtastiginu ekki breytt í bili. Tónninn var harðari en í síðustu yfirlýsingum og fram kom að hugsanlega þyrfti að herða taumhaldið síðar.
- Á miðvikudaginn gaf Seðlabanki Íslands einnig út ný Peningamál með uppfærðri verðbólgu- og hagspá. Bankinn telur, eins og við, að verðbólga breytist lítið það sem eftir lifir árs og að hún hjaðni hægar á næsta ári en áður var talið.
- Á fimmtudaginn birtu Hampiðjan og Síldarvinnslan uppgjör.
- Kaldalón hélt útboð á víxlum og Lánamál ríkisins héldu viðbótarútboð ríkisbréfa.